Spirit HD – Víðfeðmi andans á Android og iOS
Spirit HD er einfaldur leikur þar sem leikmenn stjórna einhvers konar draug eða anda sem virðist hafa aðeins eitt markmið í lífinu – að svífa í kringum óvini svo að þeir sogist inn í einhvers konar svarthol.
Leikmenn nota fingurna til að teikna hringi í kringum óvinina og ætti því að vera auðvelt fyrir flesta að komast inn í spilun leiksins á stuttum tíma. Leikurinn spilast á þrjá vegu: classic, extreme og pulse. Í classic á einfaldlega að fljúga í kringum óvini sem sogast inn í svarthol og gefur það leikmanninum stig. Extreme er, eins og nafnið gefur til kynna, erfiðari útgáfa af classic hamnum, hugsað fyrir lengra komna. Pulse virkar þannig að Spirit þarf ekki að hringsóla í kringum óvini til að sigra þá heldur eru litlir blettir sem fljóta í rýminu. Þegar draugurinn snertir blettina breytast þeir í stærri svarthol og soga óvini til sín.
Grafíkin er einföld en mjög flott. Það sama má segja um hljóðið en það sem skiptir mestu máli er að spilun leiksins er frábær. Að vísu nýtur leikurinn sín betur á spjaldtölvum eins og iPad því stundum er erfitt að sjá hvar óvinir eru staðsettir á skjánum þegar leikmenn með feita putta teikna svartholin. Það skiptir ekki máli hvort símtækið eða taflan snúi lóðrétt eða lárétt (portrait/landscape) því það eina sem breytist er að stigatafla og aðrar upplýsingar breyta um staðsetningu á skjánum.
Spirit HD kostar $0.99 í iTunes og £0.79 á Android market. Fyrir svo lítin pening er alveg óhætt að mæla með þessum leik því endingin ætti að vera töluverð ef þessi tegund leikja hentar þér.