Leikur dagsins: Battleheart!
Framleiðendur Battleheart segja leikinn vera blöndu af hlutverkaleik og rauntíma herkænskuleik. Í honum setur þú saman fjögurra manna hóp og hefur úr að velja riddara, nornir, galdrakarla, múnka og fleiri fígúrur. Velja þarf hópinn vel þar sem hver persóna hefur mismunandi hæfileika og þurfa þær að vega hvor aðra upp. Þegar hópurinn hefur verið valinn og bardaginn byrjar er barist við alls kyns forynjur eins og beinagrindur, kíklópa, orka og fleiri sem allar eiga það sameiginlegt að vilja koma þér fyrir kattarnef. Ef þú sigrar bardaga þá færðu peninga og verðlaun (sverð, brynju o.þ.h.) ásamt því að þeir meðlimir hópsins sem lifðu af fá reynslu (experience). Áður en haldið er í næsta bardaga þá er hægt að skipta út meðlimum hópsins og ráða nýja meðlimi á barnum. Vopn og brynjur ganga kaupum og sölum hjá kaupmanninum á horninu og ef einhverjir karakterar hafa öðlast næga reynslu þá geta þeir hoppað í háskólann og bætt við sig nýjum hæfileika sem nýtist í næsta bardaga.
Leikurinn býður upp á frekar mikla breidd í bardögum. Margar tegundir af hópmeðlimum standa til boða og hver meðlimur getur valið úr mismunandi hæfileikum þegar leikurinn þróast og hann öðlast meiri reynslu. Eftir því sem líður á leikinn bætast við fleiri tegundir af óvinum og annað slagið þarf maður að berjast við illræmda “endakalla” sem beita alls kyns brellum.
Grafíkin er flott og er hún svona dúlluleg bollukarlagrafík með flottum effektum. Leikurinn er mjög einfaldur í spilun en allir valmöguleikarnir á milli bardaga gefa honum samt sem áður töluverða dýpt.
Í miklum bardögum kemur það annað slagið fyrir að margir liðsmenn og/eða óvinir safnast saman á sama punktinum og þá verður erfitt að hitta á þann karakter sem þú vilt stjórna – eða benda á rétt skrímsli sem þú vilt slátra. Þegar bardagi tapast vegna þessa er fátt annað að gera en að láta símann heyra það og leggja hann svo frá sér í nokkrar mínútur á meðan mesta reiðin líður hjá.
Leikurinn hefur verið í boði fyrir iPhone í töluverðan tíma en er nýkominn út fyrir Android stýrikerfið og kostar $2.99.