Mýtan um mýtuna um Windows Phone

DSC03964

Á fimmtudaginn rakst ég á grein um “meint appleysi” á Windows Phone. Rauði þráðurinn í greininni er “samsæri” íslenskra (og erlendra) tæknimiðla til þess að berja á Windows Phone stýrikerfinu.  Bæði stunda miðlarnir það að ýkja það hversu mikið vandamál “appleysið” er og svo eru þeir stöðugt að reyna að finna “næsta stóra app sem “vantar” til þess eins að beygja Microsoft í duftið. Simon.is er einn af örfáum íslenskum tæknimiðlum. Við höfum fjallað talsvert um Windows Phone og getum ekki annað en túlkað það þannig að við séum hluti þeirra miðla sem vísað er til.

Hvaða forrit eru nauðsynleg?

Það er auðvelt að falla í þá gryfju að miða þörf tugmilljóna notenda við sjálfan sig. Ég get vottað það að þeir sem skrifa á tækniblogg eru ekki gott viðmið fyrir venjulegan notanda, ekki frekar en að Arnar Eggert sé gott viðmið um venjulegan tónlistarunnanda. Notendur hafa þróast mikið á síðustu 2-3 árum og  í dag eru flestir, frá unglingsaldri og upp úr, með snjallsíma. Hvað þessi hópur telur vera “must have” forrit er það sem fyllir vinsældarlista Android og iOS verslananna, alveg eins og froðupopp fyllir Billboard og Rolling stones sölulistana. Þetta eru ekki endilega bestu öppin eða þau merkilegustu. Þau hjálpa  ekki í vinnunni eða gera þig að betri manneskju en þau eru notuð og neytendur vilja hafa aðgang að þeim. Microsoft hefur verið að reyna að lokka helstu app framleiðendur yfir, oft með háum greiðslum. Þetta er hinsvegar skotmark á hreyfingu og daginn sem þú tékkar eitt app af listanum eru komin fimm önnur sem “allir eru að nota”.

Apple Appstore er kóngurinn

Þegar kemur að fjölda nýrra appa, frábærra appa, ömurlegra appa, frumlegra appa og ferskra appa þá er Appstore á iOS einfaldlega í annarri deild en verslun á nokkru öðru stýrikerfi. Fyrir því er ein einföld ástæða: peningar. Ekki greiðslur eins og Microsoft hefur stundað heldur tekjumöguleikar app-framleiðenda. Það er einfaldlega langarðbærast fyrir app-framleiðendur að gefa út forrit á iOS og fyrir því eru nokkrar ástæður. Þar er hæsta hlutfall notanda með “high end” síma, þeir eru líklegri til að hala niður  forritum og eru margfalt líklegri til að vilja borga fyrir þau. Þetta hefur verið þróunin frá 2008 og fátt bendir til þess að þetta sé að breytast.

Þetta hafa Android notendur þurft að  þola síðustu ár. Það nýjasta og ferskasta er oft orðið “been there, done that” þegar það kemur loks á Android. Windows Phone er svo neðst á forgangslista app-framleiðanda. Oft er stýrikerfið varla rætt þegar kemur að væntanlegum útgáfum. Gott dæmi um það er QuizUp frá Plain Vanilla. Þeir nota hvert tækifæri í viðtölum að tala um að Android útgáfa sé handan við hornið. Aldrei minnast þeir hinsvegar einu orðið á Windows Phone útgáfu appsins. Þetta er ekki einsdæmi heldur frekar normið. Fyrir mörgum er stýrikerfið varla til. Það kostar mikla vinnu að styðja fleiri en eitt stýrikerfi og flestir framleiðendur eru sáttir með tvö. Það talar heldur enginn um QuizUp fyrir Blackberry, Symbian eða önnur minna vinsæl stýrikerfi. Þetta er ekki gleðiefni fyrir Windows Phone notendur, en því miður raunveruleikinn. Ef Microsoft nær stærri hluta kökunnar þá mun þetta bil minnka jafnt og þétt. Það verður hinsvegar mjög erfitt.

En er Windows Phone þá drasl?

Alls ekki. Stýrikerfið er flott og mörg tækjanna mjög góð. Nokia hefur lagt mikinn metnað í myndavélar á sínum símum og er Lumia 1020 í algjörum sérflokki. Fyrir þá sem vinna mikið í Microsoft umhverfi þá er stuðningur við Sharepoint og Office betri en á nokkru öðru stýrikerfi. Þetta eru góðir símar og vel er hægt að lifa án allra nýjustu appana því þú færð margt annað í staðinn. Hinsvegar er ekki rétt leið að plata notendur yfir og sannfæra þá um að appskorturinn sé bara mýta.

En hvað með samsærið?

Sú umræða dæmir sig að sjálfsögðu sjálf. Frá því að Simon.is var stofnað höfum við þurft að hlusta á svona steypu frá Windows Phone notendum. Við gagnrýndum val Nokia á Windows Phone framyfir Android. Við bentum á að ítrekaðar fregnir af því að “nú væri þetta að koma hjá Nokia” voru oftast byggðar á sandi. Við spáðum því svo að, án mikilla breytinga, myndi Nokia stefna í þrot. Við vorum ekki ein um að spá þessu og menn geta sjálfir metið hversu sannspáir við vorum. Simon.is mun að sjálfsögðu halda áfram að fjalla um allan markaðinn, ekki bara hluta af honum. Við erum ekki í neinu liði. Það er ekki hlutverk okkar að “selja” eitt platform framyfir annað. Það er ekki hlutverk okkar að sannfæra okkar lesendur um ágæti Windows Phone. Það er hlutverk Microsoft og þeirra samstarfsaðila. Okkar hlutverk er að benda á það sem er gott, ágætt og drasl við allt það sem er á markaðnum. Sama hversu margir aðdáendur senda okkur skammarbréf.

Gunnlaugur Reynir

Ritstjóri Simon.is