Apple Airpods umfjöllun
Apple ákvað að skella sér á heyrnatólamarkaðinn, þrátt fyrir að eiga markaðsráðandi félag á þeim markaði. Apple heyrnatólin heita því frábæra nafni Airpods. Þið vitið, svona næstum eins og Earpods. Air stendur fyrir þráðleysi heyrnatólanna. Besta lýsingin á þessum heyrnatólum er þessi: þetta eru alveg eins heyrnatólin sem fylgja með iPhone, nema þráðlaus. Þau eru samt ekki eins.
Earpods
Ég hef alltaf hatað Earpods. Á tíma frírra heyrnatóla sem fara alla leið inn í eyrun, stoppa umhverfishljóð og hljóma bara nokkuð vel og haldast vel í eyrum dælir stærsti snjallsímaframleiðandi hins vestræna heims út heyrnatólum sem tolla ekki í eyrum, úr ljótu glansandi hvítu plasti, hvítum möttum snúrum sem haldast aldrei hvítar og hræðilegu hljóði. Einhver meginn ná þau fótfestu, aðallega þökk sé iPod og auglýsingum sem hittu í mark. Þetta eru ekki þau heyrnatól.
Airpods
Airpods eru þráðlaus heyrnatól frá Apple sem nota Bluetooth samskiptastaðalinn, ásamt W1 kubbnum sem auðveldar pörun við önnur tæki. Hvernig? Þú þarft ekki að halda niður einhverjum takka í 10 sekúndur, staðfesta einhvern kóða og biðja til tækjaguðs svo þau tengist. Þú bara berð þau upp að ólæstu iOS tæki og það poppar upp gluggi. Svo tengjast þau sjálfkrafa eftir það þegar þú setur tól í eyrað (það kemur hljóð þegar þau ná pörun, sem tekst í 95% tilvika).
Airpods eru ótrúlega nett. Miklu minni en öll önnur lítil Bluetooth heyrnatól sem ég hef notað. Þau koma heldur ekki í bandi eða lykkju. Hvort tól, hægri og vinstri, eru sér og aðskilin hvort öðru. Þú getur notað eitt tól í senn, og sett hitt í hleðslu. Þau eru gerð til að týnast, eins og Conan bendir á.
https://www.youtube.com/watch?v=z_wImaGRkNY
Askja
Airpods koma í öskju, sem lítur nákvæmlega eins út og fjörubarið tannþráðsbox. Fólki finnst það alltaf jafn fyndið. He he he. Já, ég er með tannþráð á mér hvert sem ég fer, það er rosa fyndið..
Askjan er lítil í ummáli, alla vega í samanburði við allar aðrar öskjur sem ég hef séð utan um heyrnatól. Svo hleður hún líka heyrnatólin fjórum sinnum upp í topp. Ef þú átt þriðja heims ríkis síma, þá getur þú parað hann við Airpods með öskjunni, því þar er að finna þennan klassíska Bluetooth-pörunartakka. Hér til samanburðar er askjan sem fylgir með Bragi heyrnatólunum hans Bjarna Ben (sem eru víst RIP og hann keypti sér eitthvað kínverskt drasl í staðinn). Bragi askjan er tvöfalt stærri og er ekki með rafhlöðu (he he).
Et tu Airpods?
Askjan er með Lightning-tengi, sem er fáranlegt á USB-C/Thunderbolt 3-tímum Apple (Apple gaf út þrjár fartölvur um daginn sem eru BARA með Thunderbolt 3 tengjum). En það er frábært ef þú átt iPhone, því hann mun víst vera með það tengi næstu árin. En eins og öll tæki sem koma út án USB-C eftir árið 2016, þá er mínus í okkar kladda.
Rafhlaða
Rafhlaða hvers tóls endist í 6 klukkustundir. Askjan er með 4x hleðslur fyrir hvert tól. Ég hleð mín svona einu sinni í viku við miðlungsnotkun (ég nota önnur heyrnatól við vinnu). Ég er mjög sáttur við endinguna, en ég hef notað þráðlaus heyrnatól með lengri endingu, en fyrirgef ýmislegt útaf þessari öskju. Svo nota ég oft bara eitt tól í einu og skipti í hitt þegar það fyrra tæmist.
Hljóð
Þegar kemur að hljóði, þá eru Airpods fjarskyldur ættingi Earpods. Airpods eru með mun betra hljóð og miklu betru en mér nokkurn tímann datt í hug. Þetta eru samt bara lítil heyrnatól, og ég mun ekki mæla með þeim vegna hljómgæða. Þau eru samt ekki eins hljóðeinangrandi og heyrnatól sem fara þétt inn í eyrun. Sem getur verið kostur ef þú vilt heyra aðeins í umhverfinu (úti að skokka til að heyra í faratækjum) eða vinnufélögum. Eða galli því allt hljóð lekur í gegn og truflar hljóðið úr Airpods.
Hljóðnemun
Þau eru líka með frábæra hljóðnema. Á hverju tóli eru tveir hljóðnemar, og annar fyrir hljóðdempun sem nær að núlla út þín eigin hljóð með smá hristing. Mun betri nemun en í öllu öðrum tólum sem ég get tengt við símann minn, þar með talið Earpods, Sennheiser Momentum (á þræði) og Sony MDR1000x (Bluetooth).
Stjórnun
Það er einn takki á Airpods og hann er á tannþráðsboxinu. Sem þú þarft aldrei að nota fyrir iOS tæki eða macOS tæki með þínum iCloud aðgangi (já, þau fara inn í iCloud). Annars eru bara engir takkar. Til að stýra hljóði og afspilun. Það þurfti að venjast því. Airpods eru aðallega fyrir iPhone, þannig að takkar eru ekki langt frá. Þú ferð líka að fikta mun minna í hljóðstyrk. Það er eiginlega bara fikt oftast.
Hægt er að slá tvisvar á tól til að kveikja á Siri eða pása/spila. Siri getur gert heilan heilling. Hækkað, lækkað, pásað, opnað Overcast, spilað tónlist úr Apple Music og fleira. En þegar Siri er netlaus, þá er hún gagnlaus. Stór galli.
Gallar
Bluetooth heyrnatól eru eiginlega alltaf með vesen. Skruðningar, hikst, parast ekki þegar þau eru ræst og afparast við ýmis tækisfæri. Þessi eru með lágmarks vesen, en það er samt eitthvað vesen. Stundum koma truflanir, en það er mjög sjaldgæft.
Þegar þú ert með bæði heyrnatólin í eyrunum, og tekur annað út, þá fer hljóðið á bið. Ef þú vilt hljóð úr tólinu sem er enn í eyranu, þá þarftu að taka það út og setja það aftur inn í. Eða ýta á play á símanum eða segja við Siri “play”. Smá óþægindi, en kannski skiljanleg hegðun.
Stundum parast þau ekki þegar þú setur þau í eyrað. Mjög sjaldan. Stundum afparast þau strax. Mjög sjaldan líka. Mjög pirrandi samt þegar það gerist.
Alveg eins og Earpods, þá safnast eyrnamergur fyrir hjá köntum hátalaranetsins og þú þarft að nota tannstöngul til að hreinsa hann reglulega.
Ég væri til í fleiri skipanir, eða stillingar fyrir að tvíslá á tólin. Bæta við þríslætti eða hægslætti fyrir aðrar skipanir. Ég nota örugglega “skip song” mest af öllu. Ég þarf að taka upp símann fyrir það í dag. Sagan segir að iOS11 muni bjóða upp á þá aðgerð. Ég bíð spenntur.
Kostir
Það fer ekkert fyrir þessum heyrnatólum, né öskjunni sem fylgir. Hljóðnemarnir eru frábærir, og þau virka vel í símtöl. Þau haldast líka mun betur í eyrum en Earpods (ég hef hjólað og skokkað með þau). Bæði eru þau eitthvað öðruvísi í laginu og snúrurnar á Earpods draga þau niður. Hljóðið er bara fínt, alla vega nógu gott fyrir hlaðvörp, símtöl og bassalitla tónlist.
Samantekt
Ég er fáranlega ánægður með Airpods. Notendur Airpods eru fáranlega ánægðir með þau. Nýleg ánægjukönnun leiddi það í ljós. Allir sem hafa keypt sér Airpods í kringum mig eru fáranlega ánægðir.
Ég týndi samt einu tólinu og borgaði 50% af heildarverði fyrir nýtt. Það gerist ekki aftur. En ég segi bara eins og John Gruber: þetta er ein besta Apple varan frá iPad. Fullt hús! Fimm stjörnur, og næsta útgáfa verður enn betri með hnökraminna Bluetooth (5).