Dýrustu öppin 1. hluti – Borgar einhver yfir 100 þúsund fyrir app?

Ein fegurðin við öpp í snjallsíma er að oftast eru þau ódýr eða ókeypis. Á þessu eru þó undantekningar. Við hjá Simon.is tókum saman dýrustu iOS öppin í Appstore (bandarísku) í hverjum flokki fyrir sig. Þetta var ekki mjög vísindaleg rannsókn enda bara til gamans gert. Sum öpp eru þannig að þau eru frí eða ódýr en svo þarf að borga aukalega til að virkja allskonar möguleika í appinu. Í þessari viku munum við daglega birta eina grein sem tekur fyrir nokkra af dýrustu flokkunum. Samtals eru flokkarnir um 20. 

 

Ferðalög (e. travel) – Eins og í nokkrum öðrum flokkum er dýrasta appið sérhæft og nýtist einungis ákveðnum hópi fólks. FltCrew-iLog … Airline Crew Logbook trónir á toppnum sem dýrasta ferðalaga-appið. Þetta er logbók fyrir flugmenn sem hefur allskonar flotta möguleika sem hjálpa flugmönnum að halda skrá yfir flugtímana sína. Appið kostar $20 sem nánast ókeypis fyrir hálaunaða flugmenn.

 

 

 

Nytsemi (e. utilities) – Langdýrast er Flashlight UFO (Agent) sem kostar $100, rúmlega 12 þúsund krónur. Þetta er vasaljósa-app með geimveru ívafi. Appið hefur fengið ágætar umsagnir og dóma. Ég geri ráð fyrir að það sé frá fólki sem náði í appið þegar það var frítt eða kostaði $1. Ég get ekki ímyndað mér af hverju einhver ætti að borga $100 fyrir þetta tilgangslitla app.

 

 

 

Veður (e. weather) – Veðrið er eitt ástsælasta umræðuefni íslendinga. Sérstaklega í vetur þegar úrkoman hefur verið meiri en góðu hófi gegnir. Dýrast í þessum flokki er Weather4D Pro sem kostar $31. Appið býður upp á veðuryfirlit um allan heim í fjórvídd! Það er ekki ónýtt fyrir fólk sem hefur áhuga á veðrinu eða þarf að fylgjast með veðrinu vegna vinnu að sjá í fjórvídd hvað er framundan. Appið hefur ekki fengið nógu margar einkunnir til að hægt sé að birta meðaltal. En er ekki allt gott sem er í fjórvídd?

 

 

 

Uppflettirit ofl. (e. reference) – Hér trónir á toppnum lögfræðiorðabókin Black‘s Law Dictionary, 9. útgáfa og er hún föl fyrir $55 eða 7 þúsund krónur. Ég fæ ekki betur séð en að laganemar í Bandaríkjunum séu himinlifandi með orðabókina og segja það ómetanlegt að hafa slíkan grip ávallt við höndina. Fyrir okkur á Fróni nýtist þessi bók líklega ekki mikið.

 

 

 

 

Íþróttir (e. sports) – Þetta þykir mér áhugaverður flokkur. Dýrasta appið er Blak-Ás eða Volleyball Ace sem kostar $90. Á Íslandi er appið er líklegast til vinsælda í höfuðstað blaksins á Íslandi, Neskaupsstað! Appið er þróað til að halda utan um tölfræði í blakleikjum. Miðað við umsagnir er þetta „must have“ fyrir alla blakþjálfara. Sumir vilja meina að blak sé næst vinsælasta íþrótt heims á eftir knattspyrnu!

 

 

 

Viðskipti (e. business) – Dýrasta appið í viðskiptaflokki er iRa Pro frá Lextech Labs. Það kostar hvorki meira né minna en $900 eða um 113 þúsund krónur.
Appið er notað til að streyma myndum úr eftirlitsmyndavélum beint í iPhone síma. Vissulega er um að ræða dýrt app en hafa verður í huga að þetta er mjög sértækt app sem nýtist litlum hópi snjallsímanotenda. Þeir sem hafa not fyrir þetta app hafa þegar fjárfest í eftirlitsmyndavélum sem eru það dýrar að $900 aukalega er bara dropi í hafið.

 

 

 

Á morgun fjöllum við meðal annars um mjög sniðugt (og dýrt) app fyrir tannlækna og app fyrir fólk sem á erfitt með að tjá sig munnlega. 


Fylgstu með Simon.is á Facebook