Blendin – nýtt QuizUp-ævintýri í uppsiglingu?
Blendin er nýtt samfélags-app sem fór í loftið seint í gærkvöld fyrir iPhone og Android-tæki. Það þykir eflaust ekki fréttnæmt nema fyrir þær sakir að á bakvið Blendin standa Íslendingar sem hafa undanfarnar vikur og mánuði starfað í Bandaríkjunum við forritun og hönnun á Blendin.
Einn af forsprökkum Blendin er Kristján Ingi Mikaelsson en hann hefur að undanförnu komið að ýmsum forritunar- og vefverkefnum hérlendis. Kom hann m.a. að gerð Verzló-appsins en það er eitt af fáum smáforritum á Íslandi sem kom út á svipuðum tíma fyrir þrjú stærstu snjallsímastýrikerfin; Android, iOS og Windows Phone.
Kristján segir, í samtali við Símon.is, að Blendin sé samfélags-app ólíkt því sem hefur komið fram til þessa þar sem það beinlínis hvetur notendur til þess að hittast í eigin persónu fremur en að hanga heima hjá sér og vera á samfélagsmiðlinum þar. Appið gengur út á að fólk noti það þegar það er á djamminu og sé þannig í sambandi við aðra og ýti frekar undir að fólk hittist á þeim vettvangi. Eins ræður maður hver sér hvað í gegnum appið þannig að efnisstýring er algjörlega í höndum notandans hverju sinni.
Þetta gangi því að mati Kristjáns Inga gegn þeirri þróun sem hefur átt sér stað með aðra samfélagsmiðla eins og Snapchat og WhatsApp að vera í lokaðuðu samfélagi og gera ekki mikið úr beinum mannlegum samskiptum. Margir hafa einmitt gagnrýnt samfélagsmiðla að undanförnu vegna þeirrar einangrunar sem slíkir miðlar geta ýtt undir og því sé það kærkomin viðbót að blanda geði í eigin persónu með Blendin.
Sérstakt fyrirtæki var stofnað í Bandaríkjunum um gerð þessa apps, sem heitir Blendin LLC. Í framhaldinu mun Blendin LLC skoða frekari útrás með Blendin og ekki er útilokað að hugbúnaðarhúsið taki að sér verkefni fyrir aðra aðila, en liðsmenn Blendin eru öllum hnútum kunnugir þegar það kemur að hönnun og forritun. Einnig er inn í myndinni ef gengur vel með Blendin að frekari fjármögnunnar verði leitað hjá fjárfestum vestanhafs. Ef til vill er of snemmt að segja til um hvort að Blendin nái jafn miklum vinsældum og QuizUp, sem er dæmi um annað íslenskt ævintýri á app-markaðnum, en áhugavert verður að fylgjast með þróuninni næstu vikur og sjá hvort þessi nýbreytni á samfélagsmiðlunum muni falla í góðan jarðveg.
Blendin í App Store (iPhone, iPad, iPod Touch)
Blendin í Google Play (Android)
Stefnt er að því að Windows Phone-útgáfa af Blendin líti dagsins ljós seinna á þessu ári.
Nánari upplýsingar um Blendin má finna á heimasíðu appsins með því að smella hér.