Leikur dagsins: X Construction!

Það er ekki af ástæðulausu að X Construction hefur verið einn vinsælasti leikurinn á Android market í langan tíma. Ef þú hefur gaman af þrautum þá munt þú bókstaflega elska þennan leik, en í honum þarf maður að byggja nógu stöðuga brú fyrir lest að komast yfir.

Í byrjun fær maður eina tegund af bita til að smíða brúna, en síðar meir fjölgar þeim og má þar á meðal nefna járnbita, stálbita og kapla. Borðin þyngjast jafnt og þétt og verða einfaldlega skemmtilegri fyrir vikið. Þetta er einn af þessum leikjum sem erfitt er að slíta sig frá. Í X Construction Lite (ókeypis útgáfan) eru 6 borð en 18 í fullu útgáfunni sem kostar 1 evru.
Grafíkin er fín  miðað við þrautaleik og minnir helst á „bollugrafík“.
Í leiknum eru ekki nógu mörg borð, en framleiðendur hans hafa verið duglegir að uppfæra og bæta við fleiri borðum. Hljóðið er einnig af slakari kantinum og heyrist það best þegar lestin hrynur niður og öskrin frá farþegunum steypast niður gjána. Að hitta rétt á tengipunkta getur stundum verið erfitt, en með æfingu verður það leikur einn.