iPad 2017 umfjöllun
Apple er ekki sátt. iPad staðnaði í sölu. Svo fór salan niður. Skólar skila iPad tölvum í Kaliforníu. Sérfræðingar segja að þetta sé mögulega vegna þess að iPhone Plus er að ÉTA iPad Mini (<3). Missti Apple þvag? Nei. Þeir eru “all-in”. Fyrsti hlekkurinn í iPad upprisu er nýr og ódýrari massa-iPad. Við kynnum til leiks: Fat iPad.
Fat iPad
Apple gaf út 9,7″ iPad sem er aðeins þykkari en fyrri 9,7″ iPad Air 2. Hann er sumsé jafnþykkur og iPad Air (1) og ekki með niðurlímdan skjá (e. laminated display). Þessi iPad er merkilegur. Af hverju? Því hann kostar $329 í Bandaríkjunum og fæst hérna heima á 52.990 kr. Þetta er “ódýr iPad” sem Apple vill dæla út. Við fengum að skoða hann eina helgi um daginn og hér eru okkar skoðanir.
Hönnun
Sami góði iPad sem við þekkjum vel. Falleg og sleip álskel sem umlykur 9,7″ rispuheldan skjá með retina upplausn. Hraður og öruggur TouchID fingrafaralesi. Léttur og þægilegur í hendi (fyrir utan að hann er sleipari en sápa í fangelsi). Í kringum 10 tíma hleðsla. Tvær stærðir: 32GB og 128GB.
Þessi iPad kemur í þremur litum: gull, silfur og gráum. Þessi bleiki er bara fyrir Pro.
Jafnvel þó hann sé kallaður fat iPad, þá er hann alls ekki feitur. Hann er líka mun léttari en ég bjóst við.
Góður skjár
Jafnvel þó hann sé ekki niðurlímdur og mjór. Þá er hann ótrúlega skarpur, bjartur og með lifandi liti ✨ Frábær í myndbönd, vöfrun, tölvuleiki og þokkalegur í lestur (ekkert TrueTone©).
Afköst
Þessi iPad sló ekki feilpúst með A10x örgjörvanum. Smjörljúft skroll. Tölvuleikir í háskerpu. 350 megabita WiFi hraðapróf.
Samantekt
Þetta er iPad á góðu verði og það er þar sem þeir staðsetja hann. iPad Mini 4 fær ekki uppfærslu en er enn í sölu og er einungis í boði í 128GB útgáfu á $399. Hann á ekki mikið líf eftir.
Nýkynntur iPad Pro 10,5 drepur iPad Pro 9,7. Hann fær allt lúxus dótið: TrueTone, ProMotion, nýjan örgjörva, lyklaborð, penna og mun meira pláss. Hann er líka dýrari, eða á $649. Talsverður munur.
Simon mælir með iPad 2017 fyrir þá sem ætla ekki að skipta út fartölvunni sinni fyrir iPad pro eða Surface Pro, eða reyna það. Þetta er besta spjaldtölvan á þessu verði, og við myndum ekki mæla með ódýrari spjaldtölvu nema notuðum iPad Air 2. En engin í hópnum á mikið meira en þrjú börn..