iPhone 8 plus umfjöllun

Apple kom víst engum á óvart þegar þrír nýir símar voru afhjúpaðir í september: iPhone 8, iPhone 8 plus og iPhone X. iPhone X er reyndar borið fram “iPhone tíu”, þetta er þögult X. Eiginlega allt hafði lekið. Kynningin var þó, eins og Apple er einu lagið, ótrúlega góð. iPhone 8 og 8 plus fengu mikla athygli þrátt fyrir að vera byggðir á 4 ára gamalli hönnun og virkuðu á marga sem rangnefni. Mörgum nördum finnst símarnir hefðu átt að heita 7s en ekki 8. En markaðsdeildin ákvað að stökka yfir s og 9 (alla vega í bili). Hægt er að velja um tvær stærðir á geymsluplássi: 64 og 256GB. Ég fékk að prófa iPhone 8 plus í tvær vikur og gerði stutta umfjöllun fyrir símann.

Hvað er nýtt í iPhone 8 plus?

iPhone 8 og 8 plus eru byggðir á hönnun iPhone 6/7 og ytri umgjörð mjög svipuð þeim símum fyrir utan bakið. Í stað álhjúps er síminn einungis með álramma í köntunum. Bakhlið símans er nú úr sterku gleri til að koma á snertihleðslu, sem er oft kölluð þráðlaus hleðsla.

Hleðsla

Snertihleðsla er ekki ný af nálinu og við nördarnir eru mjög fegnir að Apple nýtti sér opinn staðal sem heitir Chi. Það þýðir að hægt er að kaupa snertihleðslutæki frá þriðja aðila mjög auðveldlega og byrjar Apple sjálft á því að selja hleðslutæki frá Chi. Apple Airpower kemur snemma á næsta ári, sem mun geta hlaðið allt að þrjú tæki samtímis. Þetta er mjög þægileg viðbót, og engu síðri en hraðhleðslan sem er einnig ný viðbót í iPhone 8. Maður þarf reyndar að fjárfesta í betri hleðslutæki en fylgir, eða því sama og fylgir með Macbook tölvunni. Þá getur maður fengið yfir 50% hleðslu á 30 mínútum sem er auðvitað fullkomið fyrir langan föstudag.

True Tone

Skjárinn fær smá uppfærslu og styður núna True Tone sem skilar alltaf réttum hvítum lit í takt við umhverfisbirtu. Þetta er einn af mínum uppáhalds iPad Pro fídusum. True Tone gerir lestur auðveldari og allt sem birtist á skjánum mun eðlilegra. Frábær viðbót við nú þegar frábæran LCD skjá.

Nýr örgjörvi

Það er nýr örgjörvi í iPhone 8 og 8 plus, A11 Bionic sem Apple býr til sjálft. Þessi örgjörvi er svaka stökk. Hann er með fjóra stóra kjarna, og tvo litla byggt á bigLITTLE hönnun ARM örgjörvafyrirtækisins. Ólíkt fyrri örgjörvum getur þessi keyrt á alla kjarna samtímis, en iPhone 7 gat það ekki áður. iPhone 7 var einmitt hraðasti síminn í boði þegar hann kom út og var með 4 kjarna örgjörva sem gat ekki keyrt alla fjóra samtímis. Stuttu síðar komu örgjörvar frá Qualcomm sem voru með 8 kjarna sem gátu keyrt sig samtímis og fengu þeir rétt svo betri mælingar en iPhone 7. En með A11 örgjörvanum hefur Apple farið langt framúr samkeppnisaðilum sínum og verður yfir ár í að þeir nái Apple.

Ný myndavél — Betri Portrait

Allir símarnir þrír eru með nýja myndavél. Sá minnsti er með eina linsu en 8 plus og X eru með tvær linsur. Allir símarnir eru með hristivörn þökk sé fljótandi linsu, nema seinni linsan á 8 plus (fjarlinsan). Hristivörn er nær nauðsynleg fyrir myndbandsupptöku á símum. Seinni linsan á 8 plus X gerir manni kleift að taka “portrait” myndir með bokeh áhrifum þar sem bakgrunnur er tekinn úr fókus á meðan andlit eru skörp. Portrait myndir eru mjög fallegar myndir og eru þær enn betri en á 7 plus. Nýjasta nýtt á iPhone 8 plus er svo ljósáhrif sem er hægt að bæta við portrait myndir. Nokkrar gerðir eru í boði: studio light, contour light, stage light og stage light mono. Mér fannst studio og contour light mjög skemmtilegar breytingar, en stage light áhrifin voru ekki nógu flott (og munu víst fá smá uppfærslur á næstunni).

Augmented reality

Þessi gríðarlegi hraði örgjörvi býður upp á AR eða Augmented Reality. Með AR getur með notar myndavélar símans til að búa til grafík ofan á umhverfi á skjá símans. Apple gaf í fyrra ARkit eða hugbúnaðarpakka til að styðja við þá sem þróa AR-öpp. Á iPhone kynningu Apple var einmitt íslenskur leikjaframleiðandi með sýningu á tölvuleikum Machines sem þeir eru að smíða. Það verður gaman að sjá hvort AR tölvuleikir og öpp nái árangri í framtíðinni. Þetta er greinilega yfirlýsing af hendi Apple, sem hefur ekki hreyft sig í sýndarveruleika og telur sér betur borgið að þróa AR fyrst. Ég prófaði nokkur skemmtileg AR öpp sem snúa að innanhúshönnun (Ikea) og stærðarmælingum (Planr) og það er eitthvað þarna. Þetta gæti einnig verið skref í átt að þróa viðmót fyrir sjálfkeyrandi bíla.

Nýir litir

iPhone 8 kemur í þremur litum: gráum, silfur og gull. Silfur er í raun með silfurlitaðan álramma og með hvíta fram- og bakhlið. Gull er einnig með gulllitaðan álramma og hvíta gull-kremaða bakhlið. Gullliturinn er ótrúlega fallegur en sá silfraði þrátt fyrir það sá fallegasti að mínu mati. Apple er einhvern megin alltaf með rétt litaval, nema á RED símanum. Litavalið er þó skref afturábak, því iPhone 7 bauð upp á 5 liti.

Niðurstaða

iPhone 8 og 8 plus eru kannski ekki ólíkir hönnun iPhone síma síðustu ára, en þetta eru frábærir símar þrátt fyrir risastórt enni og höku. Margir munu örugglega líka vel við að eiga kost á síma sem er með fingrafaralesa. Portrait-ljósmyndir eru skemmtileg viðbót og ég náði einstökum myndum á þessum tveimur vikum. Rafhlaðan á iPhone 8 plus er með því besta í bransanum og entist alla daginn hjá mér við mikla notkun. Ef það var lítið eftir og dagurinn ekki úti, náði ég að hlaða símann leiftursnögg með USB-C í Lightning snúrunni úr Macbook Pro 2017 tölvunni minni. Eftir að ég vandist stærðinni og sætti mig við tveggja handa notkun, varð ég mjög ánægður með símann. Síminn er einn sá fallegasti í dag og ég dreg hann ekki niður fyrir að byggja á iPhone 6 hönnun. Ég held að það sé viljandi hjá Apple að iPhone 8 líti svipað út og iPhone 6/7.

Samanburður

iPhone 8 kostar 115 þúsund og iPhone 8 plus kostar 130 þúsund og þá eru báðir með 64GB plássi sem er nóg fyrir langflesta í bland við iCloud Photos pláss. iPhone 8 plus fæst hjá Epli. Það eru þokkaleg verð, en það eru til ódýrari kostir eins og alltaf þegar Apple er í samanburði.

Samsung Galaxy S8 kostar 100 þúsund með sama plássi, sem keppir gegn iPhone 8 og Samsung Galaxy Note8 kostar 150 þúsund með sama plássi og keppir gegn iPhone 8 plus. Ég myndi segja að minni iPhone 8 sé í raun yfirverðlagður en plus nokkuð réttur. Það er samt hægt að horfa á Galaxy S8+ líka, en sá sími er ekki með tvær linsur ólíkt Galaxy Note8. Ég myndi alltaf taka síma sem tekur portrait-myndir, það er einfaldlega það góður fídus. Það má þó benda á að Galaxy S8+ er með stærri skjá, betri rafhlöðuendingu í öllu nema vöfrun, styður sýndarveruleikagleraugu og er 20 þúsund krónum ódýrari. Klárlega kaup sem má skoða, en ég myndi alltaf taka iPhone 8 Plus. Ég á mjög erfitt með viðmót Galaxy-síma og er ekki að fíla sveigða skjái bara fyrir útlitið. Einu tveir símarnir sem fá mig til að staldra við eru iPhone X (165 þúsund) og Pixel 2 XL (ekki kominn til Íslands).

iPhone 8 plus fær 5 stjörnur af 5 mögulegum.