The Future is Bright – Ráðstefna IGI – Samtök íslenskra leikjaframleiðenda

IGI – Samtök íslenskra leikjaframleiðenda standa ásamt CCP, GOGOGIC, Íslandsstofu, Microsoft, Samtökum iðnaðarins og Símanum fyrir ráðstefnunni The Future is Bright nk. fimmtudag, 22. mars. Ráðstefnan er haldin í Hörpunni samhliða EVE-Online Fanfest 2012 og hefst kl. 9.30 og stendur til 16.00.

Á ráðstefnunni verður sjónum beint að þeim tækifærum sem blasa við leikjaframleiðendum þegar kemur að snjallsímum og tölvum. Fjallað verður um framtíð tölvuleikjaframleiðslu hér á landi, hvaða tækifæri eru á alþjóðlegum markaði og hvernig þau verði best nýtt. Sérstök áhersla verður á markaðs- og kynningarhlið iðnaðarins ásamt því að kynna fyrir hagsmunaðilum hversu mikla þýðingu iðnaðurinn hefur fyrir íslenskan markað og markaðssetningu landsins.

Boðið verður upp á fimm spennandi fyrirlestra (sjá meðfylgjandi dagskrá):

Lorna Evans – UK Games Industry
Lorna Evans er verkefnisstjóri hjá TIGA sem eru samtök leikjaframleiðenda í Bretlandi. Hún hefur starfað innan leikja- og afþreyingariðnaðarins í 15 ár þar sem hún hefur m.a. komið að leikjatitlum á borð við Tomb Raider, Resident Evil og Championship Manager hjá Eidos ásamt því að koma að stofnun Sky+ og innflutningi á Sponge Bob til Bretlands. Verkefni hennar hjá TIGA felst í að tengja saman skapandi iðngreinar eins og kvikmynda- og sjónvarpsframleiðslu og bókaútgáfu við breska leikjaiðnaðinn.

Johann Sjöberg – DDM
Johann Sjöberg hefur framleitt marga titla fyrir fyrirtæki á borð við Electronic Arts, Activision og Bethesda sem eru risar innan leikjageirans. Í dag er starfar hann forstöðumaður hjá DDM útgáfufyrirtæki þar sem hann aðstoðar leyfishafa við að fóta sig innan leikjageirans. Hann hefur setið báðu megin við borðið þegar kemur að framleiðslu og útgáfu leikja og hefur því góða yfirsýn yfir slík viðskiptasambönd.

Julian Wera – Massive – Ubisoft
Julian Wera er almannatengill og yfirmaður markaðsmála hjá Massive – Ubisoft. Hann er reynslubolti innan leikjaiðnaðarins hefur komið að útgáfu þó nokkura leikja hjá bæði PopCap Games, Gala Networks Europe og ráðgjafafyrirtækinu ICO Partners þar sem hann hefur fyrst og fremst unnið að þróun viðskiptalíkana og tekjumódela fyrir nýtilkominn leikjamarkað á netinu og í snjalltækjum.

Phil Scott – Nvidia
Phil Scott hefur unnið hjá Nvidia síðustu 9 ár þar sem hann hefur unnið með stórum leikjaframleiðendum við að lyfta þrívíddargrafík upp á það plan sem hún er í dag með því að samhæfa vél- og hugbúnað. Áður en hann hóf störf hjá Nvidia var hann yfirforritari hjá Rage Software þar sem hann m.a. skapaði leikjavélina sem var notuð í leiknum Expendable sem þótti framúrstefnulegur á sínum tíma. Hann hefur unnið innan leikjageirans í 22 ár og komið að þróun yfir 50 leikjatitla áður en hann hóf störf hjá Nvidia.

Ólafur Andri Ragnarsson – Betware
Einn af stofnendum Betware sem er leiðandi fyrirtæki á markaði veflausna fyrir vefleiki og happdrætti sem falla undir reglur og löggjafir ríkja. Hann er í stjórn Samtaka íslenska leikjafyrirtækja og kennari við Háskóla Reykjavíkur þar sem hann kennir áfanga um tækniframþróun og nýsköpun á sviði tölvuvísinda. Hann er því í kjöraðstöðu til að tengja saman nýjustu strauma og stefnur í tækniheiminum við raunhæf verkefni innan leikjaiðnaðarins.

Lítið hefur heyrst undanfarið frá íslenska tölvuleikjaiðnaðinum eftir mikla athygli síðustu ár. „Íslensku tölvuleikjafyrirtækin eru enn að gera það gott, þó svo að flogið hafi verið aðeins undir radar að undanförnu. Samningar við erlenda dreifingaraðila á leikjum eins og t.d. Moogies hjá Plain Vanilla Games og Chillingo svo ekki sé minnst á samstarf CCP og Sony varðandi Dust 514 hefur gert lítið annað en að auka hróður iðnaðarins á alþjóðavísu. Flóran innan iðnaðarins er fjölbreytt og margir nýir sprotar að spretta upp. Framundan er því mjög spennandi ár með útgáfu á mörgum nýjum leikjum,“ segir Sigurður Eggert Gunnarsson, formaður IGI – Samtök íslenskra tölvuleikjaframleiðenda.

IGI eru samtök 10 tölvuleikjafyrirtækja innan raða SI. Þau voru formlega stofnuð í september 2009 og eru samstarfvettvangur tölvuleikjaframleiðenda á Íslandi. Hlutverk samtakanna er að stuðla að auknu samstarfi fyrirtækja, menntastofnana og stjórnvalda um þekkingaruppbyggingu og tækni sem einkennir greinina.

Skráning á ráðstefnuna er annarsvegar í gegnum islandsstofa[hja]islandsstofa.is
eða með því að kaupa miða á http://midi.is/atburdir/15/198/

 

Simon.is á fleiri miðlum