Moto 360 umfjöllun

Moto 360 er eitt fallegt Android Wear snjallúr. Þetta er fyrsta hringlaga snjallúrið á sínum tíma með Android Wear, sem er reyndar ekki alveg hringlaga því neðst á skífunni er flatur kafli (Moto 320?). Þetta er eitt af fyrstu Android Wear úrunum og var þróað hjá Moto á meðan Google átti það. En fyrir nokkru keypti Lenovo það af Google og er nú von á fyrstu tækjunum undir þeirra leiðsögn í haust. Lenovo er nú þriðji stærsti framleiðandi snjallsíma í heimunum á eftir Samsung og Apple.

moto-360

Úrið er í stærri kantinum, eða þykkari en flest úr til að koma fyrir rafhlöðu og snjallsímainnvolsi. Það er svipað og flest snjallúr, en aðeins þykkara en til dæmis Apple Watch (sem er mikið nýrra úr). Það var þó mun minna en okkur grunaði, af myndum af dæma. Á hliðinni er takki, sem ég  man varla hvað gerði eftir uppfærslu (sem ég fékk daginn eftir að ég tók úrið í prófanir). Takkinn sýnir nú helstu aðgerðir á einum stað, sem er þægilegt. Úrið er smíðað úr fallegu áli og hægt er að fá fínar ólar úr leðri eða málmi. Úrið sjálft kemur í þremur litum: gull (champagne gold), svart (dark) og ál (light). Við fengum það svarta til að prófa.

DSC_0787

Úrið er með bjartan og góðan LCD skjá sem er með ljósskynjara. Skynjarinn aðlagar skjáinn því að umhverfisbirtu fyrir þig. Þetta er fídus sem hefur vantað á mörg önnur snjallúr og sparar talsverða hleðslu. Hleðslan dugir þó bara í einn sólarhring og þarf að hlaða úrið daglega.

Viðmótið er allt öðruvísi en það sem Samsung hefur verið að bjóða upp á. Android Wear leggur áherslu á raddgreiningu eða “handfrjálsa notkun”. Samsung úrin eru mikið meira fyrir að láta þukla á sér, á meðan þetta vill láta segja sér til. Þar sem íslenskan er rotnandi lík sem bíður eftir sínu náðarhöggi, þá virkar snjallúrið ekkert sérstaklega vel fyrir örtungumálið. Það skilur íslensku og getur skrifað fyrir þig, en íslenskar skipanir virka ekki.

Það er ekki hægt að svara símtölum á úrinu þar sem það vantar hátalara á úrið. Þetta er einn uppáhalds fídusinn minn á Samsung Gear 2 úrinu. Að taka smá “Dick Tracy” á þetta í bílnum er nokkuð þægilegt.

Samantekt

Þetta er snorturt úr sem Moto eyddi miklum tíma í að hanna. Fyrir fyrstu kynslóðar vöru, þá tókst þeim mjög vel til. Android Wear er enn að þróast og er ekki nógu aðengilegt Íslendingum og er það helsti ókosturinn við úrið. Það er hins vegar eitthvað sem mun bara batna með tíma og er hægt að laga eftir á. Það er líka á nokkuð góðu verði. Af öllum þeim Android Wear úrum sem eru í boði, þá myndi ég kaupa Moto 360 eða Sony Smartwatch 3 (sem er með GPS sendi). Ég er samt ekkert að flýta mér að kaupa mér Android Wear snjallúr. Þetta er aðeins of mikill beta fílingur og hröð þróun í gangi. Ef þú vilt fylgjast með þeirri þróun, þá er þetta frábært úr í það. Moto eru duglegir að uppfæra og fylgja Google þétt á eftir.

Simon.is gefur Moto 360 fjórar störnur af fimm.