HTC Titan: Stórasti Windows síminn
HTC Titan kom út seint á síðasta ári og er Windows Phone sími með 4,7″ skjá. Það er allt stórt og mikið við þennan síma. Tækið vegur 160 grömm, en er þó einungis 9,9 mm þykkur. Í samanburði við iPhone 4S þá er þetta næstum tvöfalt stærri sími. Síminn er flaggskip HTC í Windows Phone línu þeirra og kom út minni sími á sama tíma sem heitir Radar (3,7″ skjár). Síminn er mjög velhannaður og fallegur. Hann er nær einlita svartur og stílhreinn að utan. Myndavélin er mjög sérstök og er með 8 MP myndflögu, tvöfalt LED flass, F2,2 ljósop og BSI skynjara (bjartari myndir). Síminn er í dýrari kantinum og á að höfða til Windows Phone notenda sem vilja taka góðar ljósmyndir og hafa bjartan og stóran skjá. Innvols Titan er ekkert síli og er einn öflugasti Windows síminn. Hann er með 1,5 GHz örgjörva, 512 MB vinnsluminni, 16GB geymslupláss (13GB nothæf), 4,7″ Super LCD skjá með 480×800 upplausn, 8 MP myndavél auk 1,3 MP myndavél að framan og FM útvarp. Þetta eru mjög fínar tölur og er síminn mjög snöggur með nóg af plássi fyrir ljósmyndir og tónlist. Það er þó ýmislegt sem ég sakna eins og t.d. microSD minnisraufar og meira vinnsluminni. Ég er nýlega hættur að nota Android síma sem nota 512 MB vinnsluminni eða minna, enda eru þær nær ónothæfir fyrir kröfuharða. Windows Phone virkar þó mjög vel með 512 MB í vinnsluminni og hef ég ekki orðið var við neitt hökt. Stýrikerfið leyfir til dæmis ekki fleiri en 5 forrit í gangi í einu til að spara vinnsluminni og rafmagn.
Helstu eiginleikar Windows Phone er mjög nýtt stýrikerfi og ekki mjög útbreitt en sem komið er þó það sé líklega að fara breytast í náinni framtíð. Þrátt fyrir það er þetta mjög þróað og getumikið stýrikerfi. Metro viðmótið er byggist aðallega upp af Live tiles, eða tveimur dálkum af kubbum sem hægt er að raða og bæta við niður á við. Stýrikerfið er ótrúlega stílhreint og einfalt í notkun, það einfalt að ég myndi mæla með Windows Phone fyrir foreldra mína. Windows Phone er lokað stýrikerfi þróað af Microsoft, og reynir það að hafa alla helstu eiginleika sem þig gæti mögulega vantað. Innbyggt í kerfið er stuðningur við samfélagsmiðla, Office skjöl, spjallmiðla (Live messenger og Facebook), tónlistarafspilun, tölvupóst (Outlook), dagatal og myndbandsafspilun (YouTube). Einnig er stuðningur við Gmail og nær kerfið í tengiliði/símaskrá þaðan (sem er þægilegasta og mest studda símaskráin). Það er margt gott við lokuð stýrikerfi, og eru t.d. innbyggðu forritin sem fylgja með mjög stöðug og nothæf. Aftur á móti þá dregur þetta aðeins úr fjölbreytninni sem við sjáum í Android. Þeir sem þróa öpp vilja líklega síður vera þróa í stýrikerfi sem gæti mögulega gert forritið þitt óþarft með uppfærslu. Annað sem pirrar mig er hraði uppfærslna og breytinga á stýrikerfinu. Einungis ein stór uppfærsla hefur komið út síðan Windows Phone var gefið út (nóvember 2010). Á þeim tíma hefur Android stökkbreyst yfir í Ice Cream Sandwich, sem er eitt flottasta stýrikerfið í dag. En samkvæmt Microsoft koma nú tvær uppfærslur á kerfið í ár: fyrst Tango og svo Apollo (Windows 8). Ending rafhlöðunnar er mjög góð og er þetta fyrsti snjallsíminn sem hefur lifað í tvo daga hjá mér (með notkun Airplane mode að nóttu til). Það verður að teljast gott, sér í lagi því símanum fylgir “bara” 1500 mAh rafhlaða á meðan aðrir símar í þessum stærðarflokki hafa 1600-1850 mAh rafhlöðu. Windows Phone er ekki með mikinn stuðning við íslensku, en býður þó upp á íslensku stafina á lyklaborðinu. Það er hinsvegar engin íslensk orðabók né viðmót. Mér finnst þetta tvennt mjög mikilvægt og þeir verða að bjóða upp á þetta tvennt í Tango uppfærslunni. Símar sem tala íslensku eru í miklu uppáhaldi hjá mér. Sony símarnir eru t.d. með mjög öfluga orðabók sem hjálpar þér við að skrifa stutta tölvupósta (sem ég geri mikið af). Microsoft leggur mikla áherslu á góða upplifun, frekar en tölur og fjölda af apps, sem þeim tekst mjög vel til. Það er mjög einfalt og þægilegt að setja upp símann, og það tekur enga stund. Að mínu mati er þetta þægilegasta snjallsímastýrikerfið.
Hljóð og mynd Skjárinn er risastór og mjög þægilegt að lesa af honum eða spila myndbönd. Hann er samt eiginlega of stór. Bæði vegna þess að það er stundum erfitt að nota símann einhentur og vegna þess að upplausnin er einungis 480×800. Það sést við vöfrun á mynd og texta að skjárinn er ekki nógu skarpur (~200 dpi). Hefði síminn verið með 720p upplausn, þá hefði hann verið einu skrefi nær fullkomnun. Svarti liturinn er mjög djúpur þrátt fyrir að þetta sé LCD skjár, en ekki OLED eins og hjá öðrum samkeppnisaðilum (Samsung). Sjálfvirkt birtustig skjásins virkaði mjög vel og þurfti ég ekki að stilla hana sjálfur. Myndavélin er mjög skemmtileg á þessum síma og gæðin mjög fín. Það tekur samt smá tíma að venjast F2,2 ljósopi, þar sem myndirnar virðast vera teknar í meiri fjarlægð frá myndefninu en með hefðbundnu ljósopi. Myndir sem eru teknar í mikilli nálægð við myndefnið koma þó einstaklega vel út með þessu ljósopi. Flassið er sterkt og gott og lýsir upp vel. Ég lenti þó í því að sjálfvirka flassið var að flassa þegar þess þurfti ekki. Í rökkri eða myrkri notast síminn ekki við flassið til að hjálpa sér við að fókusa (eins og Galaxy Nexus) og því voru myndirnar stundum úr fókus í kjölfarið. Þegar öllu er á botninn hvolft er myndavélin fín og er þetta fyrsti HTC síminn sem ég nota sem er með nothæfa myndavél.
Hátalarinn er staðsettur aftan á símanum hjá myndavélin og er mjög hávær. Ef síminn liggur þá heyrist auðvitað frekar illa í honum, en það er þannig á flestum símum. Mér finnst hringitónarnir einstaklega leiðinlegir, sem kom þónokkuð á óvart því að öll önnur hljóð (takkar, aflæsingar og fleira) koma mjög vel út. Mér fannst fólk oft heyra illa í mér og oft ekki heyra í mér svara. Það er greinilega einhver smá seinkunn þegar þú svarar. Hlustin er einnig óþægileg og það þarf aðeins að passa sig að hitta á réttan stað. Bæði venst þó hratt.
Vafrinn og Marketplace Internet explorer vafrinn fylgir með á símanum og mér sýnist ekkert annað almennilegt vera í boði á Marketplace. Hann er þó ekki alslæmur og virkar hratt við að skrolla og súmma. Slóðarstikan hverfur þó aldrei og það er ekki þægilegt að hoppa á milli flipa (tabs). Það er ekki hægt að samhæfa uppáhalds vefföng, lykilorð og annað milli tölvu og símans (eins og í Chrome á Android ICS) sem kemur á óvart þar sem Microsoft býður einmitt upp á 25GB vefpláss í gegnum Skydrive þar sem auðvelt væri að hýsa þannig gögn. Það er ekki eins mikið af öppum og leikjum í boði fyrir Windows síma, en þeir eru hægt og rólega að nálgast keppinauta sína í því framboði. Ég fann slatta af því sem ég þurfti, en úrval leikja er mjög takmarkað. Það er mikill kostur að hægt sé að prófa efni í Marketplace áður en það er keypt. Það er ekki búið að opna Marketplace fyrir íslenska markaðinn og þarf maður að stilla LiveID aðgang sinn þannig að maður þykist búa í öðrum löndum en Íslandi til að fá almennilegt vöruframboð. Mér var sagt að íslenski markaðurinn bætist við núna í mars, sem er mjög gott.
Niðurstaða Þetta er einn af tveimur bestu símum sem ég hef prófað sl. tvö árin, ásamt Galaxy Nexus. Síminn er snöggur, einfaldur, fallegur og nothæfur. Myndavélin er góð, en hefur þó nokkra galla. Windows Phone hefur rosalega burði til að skara af, og ég get ekki beðið eftir að sjá næstu útgáfu (WP7.5 Refresh). Núverandi útgáfa er ekki alveg nógu fínpússuð og vantar marga eiginleika í hana eins og myndsímtöl. Vafrinn er einnig slappur og þarf hann uppfærslu pronto. Síminn er seldur hjá Hátækni á 134.995 kr., sem er mjög dýrt. Hann hefur líklega ekki verið keyptur í miklu magni og er því eiginlega verðlagður útaf markaði. Windows Phone er ekki komið af stað enn þá og líklega erfitt að reyna selja símtæki með því kerfi. Það stefnir samt allt í að það breytist með tilkomu Nokia Lumia 800. Ef Titan væri seldur á 100-110 þúsund þá myndi honum mögulega ganga betur. Það er þó stutt í HTC Titan II sem verður með 16MP myndavél og uppfærðu útliti.
Kostir
- Ótrúlega vel byggður sími
- Stór og góður skjár
- Frábær myndavél
- Þægilegt stýrikerfi
Gallar
- Stór sími, erfitt að nota einhentur
- Lítið úrval af öppum
- Hefði viljað hærri upplausn (720p) með svona stórum skjá
Ég er mjög hrifinn af þessum síma og gef honum því 8 í einkunn af 10 mögulegum.