Lumia 800 og aðrir Windows Phone 7 símar fá ekki uppfærslu í Windows Phone 8

Í gær var Microsoft með kynningu á Windows Phone 8 stýrikerfinu . Margt áhugavert kom þar fram eins og  endurhönnuð aðalvalmynd, stuðningur við fleiri skjáupplausnir og tvíkjarna örgjörva. En fyrir notendur Nokia Lumia og annarra Windows Phone síma stóð eitt uppúr: engir útgefnir símar munu fá uppfærslu í Windows Phone 8. Sérvaldir símar munu hinsvegar fá uppfærslu í Windows 7.8, sem mun koma með hluta af þeim útlitsbreytingum og koma í WP8. Símar sem keyra eldri útgáfu af Windows Phone (7.5 eða 7.8) munu ekki getað notað öpp og leiki sem eru sérstaklega hönnuð fyrir Windows Phone 8. Það er erfitt að segja til um það hvort eða hversu mikið þetta vandamál verður. Ólíklegt verður að teljast að stór hluti nýrra forrita verði þróaður fyrir bæði stýrikerfin, til þess eru einfaldlega of fáir Windows Phone 7.x símar í umferð. Þau öpp sem eru nú þegar í App Market þurfa nú að vera þróuð áfram samhliða til þess að virka á báðum stýrikerfunum. Góðu fréttirnar eru hinsvegar að Windows Phone 8 lítur mjög vel og þær breytingar sem Microsoft gerði á stýrikerifinu eru allar til bóta. Nokia og aðrir framleiðendur þurfa nú að treysta á það að neytendur sætti sig við það að fá ekki uppfærslur á 6-12 mánaða gamla síma. Á sama tíma var iPhone 3GS sem kom út árið 2009,  að fá uppfærslu í iOS 6.0. Samsung, Sony og HTC hafa einnig staðið sig þokkalega með framboð á uppfærslum, þó aðalega á dýrari tækjum til að halda þeim kröfuhörðu góðum.

Fyrir þá sem vilja kynna sér Windows Phone 8 nánar, þá eru vinir okkar á The Verge með mjög góða útekt á því. Einnig er hægt að horfa á upptöku af kynningu Microsoft í gær. Við hjá Simon.is erum mjög spennt fyrir Windows Phone 8 og munum flytja ykkur fréttir þegar nær dregur.

 

Simon.is á fleiri miðlum