Er Kindle Fire ógn við Android?

Síðasta haust hóf Amazon sölu á Kindle Fire spjaldtölvunni og þrátt fyrir að engar sölutölur hafi verið gefnar út þá bendir allt til þess að Kindle Fire sé vinsælasta Android spjaldtölvan á markaðnum í Bandaríkjunum og það með miklum mun. Þrátt fyrir að Samsung hafi komið út með nokkrar ágætar spjaldtölvur og Asus Transformer hafi slegið í gegn hjá gagnrýnendum þá hafa þær aðeins selst í nokkrum hundruð þúsunda eintaka og þær vinsælustu í rúmri milljón. Apple seldi hinsvegar rúmar 40 milljón iPad spjaldtölvur á árinu 2011. Þróun hlutdeildar Apple á spjaldtölvumarkaðnum er í raun mun líkari því hvernig iPod seldist og hélt sinni markaðshluteild heldur en iPhone. Staðreyndin er að Apple hefur rúmlega 65% markaðshluteild á spjaldtölvumarkaðnum en þetta er að breytast. Amazon tókst það sem engum hefur tekist, að koma út með spjaldtölvu sem neytendur skilja og höfðar til þeirra.

 

Sama stýrikerfi en önnur nálgun

Amazon gerir tvennt rétt. Í fyrsta lagi er Kindle Fire ódýr. Hún kostar aðeins 199 dollara eða 300 dollurum minna en ódýrasta iPad tölvan. En það er annað sem skiptir meira máli og það er aðgangur að afþreyingarefni og þar er Amazon á heimavelli. Amazon býður upp á tónlist, kvikmyndir, bækur og þætti í sambærilegu magni og Apple og oft á lægra verði. Amazon skilur endursölu líka betur en flestir. Fátt bendir til þess að Amazon græði nokkuð á sölu á sjálfri spjaldtölvunni en þeir græða hinsvegar yfi $100 á hverjum Kindle Fire notenda.  Amazon getur þannig selt sínar spjaldtölvur á kostnaðarverði eða jafnvel undir því hagnaðurinn næst til baka með sölu á afþreyingarefni. Þetta getur fyrirtæki eins og Samsung ekki gert. Það hefur enga alvöru efnisveitu til þess að vinna upp tapið. Í raun er nálgun Apple og nálgun Amazon algörar andstæður. Apple framleiðir og selur vélbúnað með mikilli álagningu. Til þess að gera vélbúnaðinn aðlaðandi þá býður Apple upp á nóg af afþreyingarefni og hugbúnaði.

 

En er þetta ekki frábært fyrir Android ?

Þetta er frábært fyrir Amazon og þetta er (að sumu leyti) frábært fyrir neytendur en þetta er slæmt fyrir Google og framtíð Android. Fyrsta vandamálið eru áhrif Kindle á Android spjaldtölvumarkaðinn. Þegar orðrómurinn um Fire náði hámarki var mikið talað um hana sem “iPad killer”. Flest bendir þó til þess að hún hafi lítil sem engin áhrif á sölu á iPad en mun meiri á sölu á Android spjaldtölvum. Enginn getur keppt við verð Amazon því enginn nema Apple á möguleika á því að niðurgreiða vélbúnaðinn með sölu á afþreyingarefni. Kindle Fire hefur selst í fleiri eintökum á 2 mánuðum en allar spjaldtölvur Samsung frá upphafi. Ef fer sem horfir munu Apple og Amazon skipta spjaldtölvumarkaðnum jafnt á milli sín. Apple með markaðinn fyrir dýrari og vandaðri spjaltölvur og Amazon mun eiga markaðinn fyrir ódýrari spjaldölvur og lestölvur. Hitt vandamálið er svo að á meðan Google vinnur hörðum höndum að því að koma Android 4.0 á síma og spjaldtölvur þá keyrir Kindle Fire á breyttri útgáfu af Android 2.3, útgáfu sem var kynnt árið 2010 og er hönnuð og þróuð fyrir snjallsíma og þær skjástærðir sem snjallsímar hafa. Þetta gerir það að verkum að þeir hugbúnaðarframleiðendur sem vilja þróa spjaldtölvuforrit hafa tvo kosti:
Þróa forritið fyrir nýjustu útgáfu Android, útgáfu sem inniheldur hluti sem eru sérhannaðir fyrir spjaldtölur; eða þróa hugbúnaðinn fyrir eldri útgáfu Android. Því miður er eini rökrétti valkosturinn að velja þann síðari (og síðri) því þar eru tekjumöguleikarnir.

 

Amazon þarf ekki á Android að halda

Í huga flestra kaupenda er Kindle Fire Amazon spjaldtölva og Kindle tölva. Fáir neytendur hafa yfir höfuð hugmynd um það að stýrikerfið byggi á Android. Amazon er heldur ekkert að flagga því. Þegar Kindle Fire síðan á Amazon.com er skoðuð kemur “Android” aðeins fram þegar talað er um “Amazon App Store for Android”. Nafn Google kemur hvergi fram. Ekkert bendir heldur til þess að Amazon hafi nokkurn sérstakan áhuga á Android sem stýrikerfi. Þeir hafa skoðað möguleika á að kaupa Web OS stýrikerfið frá HP og nýlega fóru af stað fréttir um það að Amazon hefði áhuga á því að kaupa RIM. Fyrirtækið getur vel þróað stýrikerfið í þá átt sem þeim sýnist. Hvað Amazon ætlar sér að gera með Android vita fáir. Vel getur verið að Amazon og Google séu að semja um þessi mál og Kindle Fire2 muni koma út á Android 4.0. En eitt er víst; Google hefur öllu að tapa og Amazon allt að vinna.