Ný mikilvæg öryggisuppfærsla fyrir iPhone og iPad
Fyrir helgi gaf Apple út öryggisuppfærslu fyrir iOS 7 (iOS 7.0.6) sem er ætlað að loka á alvarlegan öryggisbrest sem kom upp á dögunum.
Það fór eitthvað lítið fyrir þessari uppfærslu en miðað við umfjallanir á erlendum vefsíðum sem fjalla um tækni er ljóst að um mjög alvarlegan öryggisbrest er að ræða. Í stuttu máli snýst öryggisbresturinn um það að utanaðkomandi aðilar geta nýtt sér gallann og komist inn í svokölluð örugg samskipti milli vafra og netþjóns (svokallað SSL/TLS sem snýst um dulkóðuð samskipti milli t.d. heimabanka og netvafra).
Samkvæmt erlendum netmiðlum er þessi galli líka í OS X stýrikerfum í Mac tölvum og má því vænta þess að uppfærsla berist á allra næstu dögum.
Ef tækið hefur ekki þegar beðið ykkur um að uppfæra mælum við með því að þið gerið það handvirkt. Settings – General – Software Update – Download and Install. Tækið þarf að vera tengt internetinu til að hægt sé að velja Download and Install
Simon.is mælir með því að þið uppfærið iPhone og iPad strax og Mac tölvur um leið og uppfærslan berst. Ef þið viljið lesa nánar um öryggisbrestinn getið þið t.d. lesið um hann hjá Gizmodo, Reuters og hjá Crowdstrike.