Nokia uppfærir Symbian kerfið

Nokia hefur nú sett í loftið uppfærslu fyrir fyrrumnefnda stýrikerfi sitt Symbian^3 . Stýrikerfið var nýlega endurnefnt einfaldlega Nokia, og heitir þessi uppfærsla Belle. Nokia notar kvenmannsnöfn á uppfærslur sínar og var fyrsta uppfærslan nefnd Anna. Belle er nú í boði fyrir nýlega síma frá þeim: Nokia C6-01, C7, E6, E7, N8, X7 og Oro. Uppfærsluna er hægt að nálgast á vefsíðu Nokia, en það þarf að setja hana upp með USB snúru. Nokia N8 hefur verið mjög vinsæll hér á landi og ættu því margir landsmenn að gleðjast yfir þessu.

Upphafsvalmynd Nokia Belle

Belle hressir talsvert upp á viðmót kerfsins og gerir það sneggra. Það bætir við þremur heimaskjám (nú sex, áður þrír), tilkynningargardínu (notification window), virkum skjágræjum (widgets), uppfærir Nokia Maps slatta (t.d. með widget og leiðsagnarkerfi), nýjum forritum, upplýsingum á læsingarskjá og sýnilegri fjölverkavinnslu.

Drive leiðsagnarkerfið

Tilkynningargardínan er velkomin viðbót og er eiginlega orðin nauðsynleg fyrir snjallsíma. Android sló rækilega í gegn með þessa gardínu og eru nú þrír stærstu farsímaframleiðendur heims búnir að búa til sína eigin gardínu: Nokia (Nokia), Samsung (Bada) og Apple (iOS).

Algerlega nauðsynleg

Belle græðir greinilega á samstarfi Nokia við Microsoft og fylgja með ýmis sniðug forrit eins og Lync, Sharepoint, OneNote, ActiveSync og Powerpoint broadcaster. Sjálfur nota ég Sharepoint og OneNote mjög mikið og er þetta því velkomin viðbót.

Það er kominn hellingur af virkum skjágræjum og hægt er að færa, stækka og minnka þær. Dæmi um skjágræjur eru kveikja/slökkva á þráðlausu neti, póstur, klukkur, og margt fleira. Þegar skjárinn er læstur, sýnir hann þér símtöl sem þú hefur misst af eða SMS og önnur skilaboð sem bíða þín. Hér fyrir neðan má sjá myndband af viðmóti kerfisins.

http://www.youtube.com/watch?v=FBCbWrvOEpw

Hér er kynningarmyndband frá Nokia um uppfærsluna ásamt smá leiðbeiningum um hvernig þú uppfærir:

http://www.youtube.com/watch?v=h3REHGbxqn0

Það verður mjög spennandi að sjá hvernig Belle leggst í Nokia notendur. Þetta er góð uppfærsla sem mun ná til margra og lengir verulega lífið í mörgum Nokia símum. Það er þá ekki búið að negla niður næstu uppfærslu (Carolina? Catherine?), en Nokia lofaði að styðja við Symbian (nú Nokia) til að minnsta kosti 2015.

Fylgstu með Simon.is á netinu

Komdu á Simon.is Live! 17. febrúar