Umfjöllun: LG GT540 Optimus

LG GT540 er ódýr android sími sem kom út sumarið 2010 en hann gengur einnig undir nöfnunum LG Optimus og LG Swift. Þetta er annar android síminn sem LG framleiddi og tókst þeim ágætlega til þar sem síminn hefur fengið fínustu dóma. Þessi sími var í raun fyrsti ódýri android síminn sem kom á markaðinn á Íslandi og því hefur hann notið töluverða vinsælda.


Innvols

Síminn hefur 600mhz örgjörva sem er kannski ekki mikið miðað við nýjustu símana í dag en hann er samt merkilega sprækur. Ókosturinn við þennan örgjörva er hinsvegar sá að hann hefur ekki þann eiginleika að geta spilað flash og því er t.d. ekki hægt að spila mörg myndbönd eða leiki sem er að finna á veraldarvefnum (ekki rugla flash leikjum við leiki sem eru gerðir fyrir android – síminn spilar þá). Síminn hefur 156mb minni en það háir honum töluvert að það skuli ekki vera stærra. Skjárinn er 3″ að stærð og síminn sjálfur 109 x 54,5 x 12,7 mm sem er mjög hentug stærð í vasa, sérstaklega vegna þess hve þunnur hann er. Áferð ytra byrði símans lítur svolítið út fyrir að vera úr járni en það er því miður allt plast og láta álagspunktar á bakhliðinni fljótt á sjá ef síminn liggur mikið á borði. Plastið í símanum hjálpar samt við að létta símann og er hann eingöngu 115,5 grömm sem telst seint vera mikið. Myndavélin er 3,15 megapixlar sem sleppur, en það er ekkert flass á símanum og því er myndavélin illa nothæf nema þar sem nóg er af birtu. Batteríið í símanum er 1500 mAh lithium batterí sem telst vera mjög fínt, símar sem eru með stærri batterí en þetta eru þá í lang flestum tilfellum komnir með t.d. mun stærri skjá eða örgjörva.  Símanum fylgir 2GB microSD kort og er hægt að koma fyrir slatta af tónlist og einhverjum myndböndum á það, en síminn tekur allt að 32GB kort ef einhverjir vilja stækka við sig.

Það sem háir símanum mest í tengslum við innvolsið er að það sé ekki meira innraminni. Sé hinsvegar sett upp nýrra stýrikerfi á símann (stýrikerfi sem kallast Cyanogenmod, það er ekki stutt af LG / Tæknivörum og dettur síminn úr ábyrgð sé þetta gert) er hægt að nota geyma forrit á minniskorti símans í stað innraminnis og þá er þetta miklu miklu minna vandamál.

 

Framhliðin af LG GT540

Myndir af fram- og bakhlið LG GT540 “Optimus”.

 

Helstu fídusar

Síminn kemur uppsettur með android 1.6 stýrikerfinu en LG hefur gefið út uppfærslu sem fer með hann upp í android 2.1.  Stökkið þarna á milli var mjög stórt, í útgáfu 1.6 fraus síminn oft og var ekki óalgengt að þurfa að endurræsa hann daglega. Þegar síminn hringdi þá byrjaði hringitónninn að óma en valmöguleikinn til að svara/skella á var oft á tíðum lengi að koma upp sem gat við sumar aðstæður gat verið mjög vandræðalegt. Þessi vandamál svo gott sem hurfu þegar 2.1 uppfærslan var sett í símann. Android útgáfurnar sem LG hefur smíðað fyrir þennan síma (1,6 og 2,1) innihalda báðar íslenskt viðmót en að öðru leyti hefur LG lítið átt við notendaviðmótið. Endingin á rafhlöðunni er ákaflega misjöfn eftir notkun. Ef kveikt er á 3G, WiFi og GPS þá endist batteríið kannski hálfan dag, en þessir þrír hlutir eru sérstaklega orkufrekir. Ef maður kveikir á þessum hlutum einungis eftir þörf og hefur birtustigið á skjánum ekki alveg í botni þá endist rafhlaðan auðveldlega daginn og rúmlega það.

Samkvæmt LG er android 2.1 síðasta opinbera uppfærslan sem þessi sími mun fá. Það er leitt því munurinn á android 2.1 og næstu útgáfu á eftir (android 2.2) var aðallega gífurlegur hraðamunur. Þar með er komin önnur ástæða til að uppfæra símann með óopinberum uppfærslum (þó öll ábyrgð á símanum fjúki útí veður og vind). Framkvæmt var hraðapróf (Quadrant benchmark) á síma með þessu óstudda stýrikerfi og var síminn að skora 769 sem er töluvert meira en hann gat með útgáfum 1.6 og 2.1 þar sem skorið var í kringum 500.

Niðurstöður hraðaprófs (Quadrant benchmark) á LG GT540 með Cyanogenmod 7 (Android 2.3.4).

Hljóð og mynd

Skjárinn á LG GT540 “Optimus” er þrjár tommur að stærð og er upplausnin 320×480 punktar sem er fínt fyrir þessa skjástærð. Sé síminn notaður innandyra er skjárinn bjartur, skarpur og virkar vel. Úti í dagsbirtu er skjárinn hinsvegar einstaklega lélegur. Ef það er sólríkur dagur þá þarf að setja birtuna á skjánum í botn og helst finna sér skuggsælan stað til að geta rýnt á skjáinn.

Snertiskjárinn kallast „resistive“ skjár en það þýðir að maður þurfi að þrýsta létt á skjáinn til þess að síminn bregðist við. Svona skjáir eru mun ónákvæmari en „capacitive“ skjáirnir sem bregðast við stöðurafmagni fingranna, en þeir finnast aðeins á dýrari símum. Einnig geta resistive skjáir ekki gert greinamun á milli þess hvort þú setur einn eða tvo fingur á skjáinn og geta því símar með þessa skjái ekki notað aðferðir eins og „pinch-to-zoom“ sem skiptir miklu máli í notendaviðmóti þessara tækja. Til að sjá hvernig pinch-to-zoom virkar í hinum ýmsu android forritum, smellið hér.

Myndavélin sjálf er eins og áður kom fram 3,15 megapixlar og nýtist því aðeins sem tækifærismyndavél þar sem er góð birta. Það er ekkert flash en símanum telst til tekna að hafa sérstakan myndavélatakka á hliðinni til að smella af, en það er ekki á öllum símum. Myndavélahugbúnaðurinn sem fylgir með er einfaldur og auðvelt að breyta hlutum eins og ISO, skipta á milli þess að taka macro myndir eða ekki, og þar fram eftir götunum.

Eins og á flestum LG símum þá er það sami hátalarinn sem lætur símann hringja og fólk hlustar á þegar það talar í símann. Hann virkar ágætlega í tali en þegar síminn hringir eru gæðin ekki mjög góð. Það heyrist frekar lágt í honum og þegar reynt er að stilla hana hærra þá er hætta á að hringitónninn breytist í einhver óhljóð.

Myndir teknar með LG GT540 símanum í fullum gæðum. Smellið á myndirnar til að sjá í fullri stærð.

Mikilvægustu hlutirnir

Vafrinn í GT540 er kannski ekki mikið fyrir augað en er auðveldur í notkun og virkar vel. Eins og áður kom fram þá ræður örgjörvi símans ekki við að birta flash svo það er auðvitað ekki möguleiki í vafranum en annars er lítið út á hann að setja. Það ber þó að taka fram að hægt er að horfa á Youtube í símanum, en það er í gegnum sér Youtube forrit en ekki í gegnum vafrann sjálfan.
Viðmót símans er eins og áður kom fram íslenskt (auðvitað hægt að breyta í ensku) en þó er uppröðunin á lyklaborðinu ekki eins og íslendingar hafa vanist því t.d. þarf að halda inni “d” til að fá upp “ð” valmöguleikann. Þar sem þetta er Android sími tekur ekki nema augnablik að ná í “Skandinavian keyboard” appið þar sem uppröðun takkana er betri. Þegar símanum er snúið á hlið er stærð lyklaborðsins fín og auðvelt að skrifa á símann þó það sé alltaf aðeins meiri kúnst að nota “resistive” snertiskjái í samanburði við “capacitive”.
Rafhlöðuending símans er ágæt. Þetta er snjallsími og þurfa væntingarnar að vera í samræmi við það. Við venjulega notkun er auðvelt að láta símann endast út daginn, þó stundum þurfi aðeins að hjálpa honum (hafa slökkt á 3G, GPS, WiFi þegar það er ekki í notkun). Stórnotendur sem eru í orkufrekum aðgerðum eins og að spila myndbönd og í leikjum daginn út og inn mega alveg búast við því að þurfa hlaða símann tvisvar á dag.
Síminn höndlar flest forrit og flesta leiki ágætlega, þó er að eiga sér stað mjög hröð þróun á leikjum og þegar reynt er að spila leiki sem eru mjög grafískir þá ræður örgjörvi símans illa við það og leikirnir hökta.

 

Niðurstaða

LG GT540 er ódýr android sími sem getur flest það sem dýrari símarnir geta en tekur sér bara aðeins lengri tíma í það. Stærðin er hentug og fer síminn vel í hendi og vasa. Hann er merkilega sprækur miða við innvols og verðflokk.  LG er hætt að uppfæra stýrikerfið í honum en á veraldarvefnum er allt iðandi og þegar þessi grein er skrifuð er búið að gefa út android 2.3.4 (það nýjasta) fyrir þennan síma sem er stöðugt og virkar mjög vel. Aðal ókosturinn við hann er skjárinn, bæði hversu erfitt er að sjá á hann í dagsljósi en einnig verður það að teljast ókostur að hann sé ekki “capacitive”. LG GT540 er samt sem áður mjög góður sími fyrir þennan pening. Það er vel hægt að mæla með honum við þá sem eru að stíga sín fyrstu skref í snjallsímadeildinni og vilja sjá hvort þetta sé heimur fyrir þá.

Simon.is gefur GT540 Optimus 6,5 af 10 mögulegum í einkunn.

Simon.is á fleiri miðlum

1 reply

Trackbacks & Pingbacks

  1. […] þá áhugamenn verið að sníða það að fleiri tegundum. Ég fjallaði fyrir nokkru um gamla LG Optimus GT540 símann minn, en á hann hafði ég sett inn útgáfu sem góðhjartaður rússi hafði búið […]

Comments are closed.