Komdu skipulaginu í lag með Evernote!
Fyrir þremur vikum síðan sótti ég appið Evernote í Android Market í þeim tilgangi að kanna hvort það hefði eitthvað fram yfir önnur „skipulagningsöpp“ sem eru á markaðnum. Í fyrstu sýn var svo ekki og ég nennti ekki að pæla frekar í því á þeim tíma.
Þegar umræður á netinu byrjuðu með svokölluð „Back to School“ öpp þá var Evernote að skora vel á flestum listum. Þess vegna skaust það aftur upp í kollinn á mér og varð til þess að ég heimsótti vefsíðuna þeirra evernote.com og las mig nánar til um appið og virkni þess. Það opnaðist fyrir mér nýr heimur þegar ég áttaði mig á því að ég gat sótt forrit fyrir MacBook Pro tölvuna mína sem samstillist við forritið í símanum og öfugt.
Núna hef ég verið að nota Evernote í nokkra daga og með góðu móti. Hægt er að búa til mismunandi glósubækur (Notebooks) fyrir hverskyns verkefni. Í þessum glósubókum er hægt að skrifa glósur, búa til tékklista, setja inn skrár í viðhengi, taka myndir og taka upp hljóð. Einn af aðal kostum þeirra er að hægt er að deila þeim með öðrum Evernotes notendum að vild. Þannig að ef margir eru að vinna í sama verkefni þá geta allir haft aðgang að sömu glósum, gögnum og verkefnalistum sem gerir lífið enn skipulagðara og því einfaldara.
Ókeypis útgáfan af þessu appi býður upp á að gera flest allt af því sem fjallað er um hér að ofan og meira að segja að deila glósubókum með öðrum notendum. Aftur á móti getur maður ekki breytt glósubókum sem aðrir deila nema að vera í áskrift af svokölluðum „premium“ pakka. Nánari upplýsingar um áskriftina er að finna hér.
Að lokum vil segja að þetta app er stórsniðugt og afar hentugt fyrir námsfólk sem og fólk á vinnumarkaðnum. Persónulega væri ég til í að innleiða það, til reynslu, á minn vinnustað til að auka upplýsingaflæði og yfirsýn verkefna. Hér að neðan eru nokkur myndbönd sem lýsa reynslu fólks á Evernote.