Myndasamanburður – Snjallsímar vs. myndavél

Phone Arena vefsíðan gerði fróðlegan samanburð á myndavélum í völdum snjallsímum og myndavél frá Samsung.

Nánar tiltekið var gerður samanburður á myndum úr Samsung Galaxy myndavél og Galaxy SIII, iPhone 5 og Nokia 808 Pureview snjallsímum auk Galaxy note II.

Samanburðurinn fór þannig fram að teknar voru myndir við tilteknar aðstæður og þær bornar saman. Til að gera þetta samanburðarhæft var miðað við 8 megadíla upplausn á myndum og 1080p á myndböndum og ber vissulega að hafa í huga að þar er verið að takmarka hæfni einhverra af þessum tækjum. Aðstæðurnar sem myndirnar voru teknar í voru m.a. innandyra, í rökkri, þysjað inn (e. zoom) og mjög nálægt (e. macro). Allar vélarnar voru á sjálfvirkum stillingum og engu var breytt, utan þess að í stöku skipti var vélum hjálpað að ná fókus ef þær voru í vandræðum með það.

Samanburðarmynd úr grein PhoneArena.

Það var engin sérstök niðurstaða í samanburðinum í heild, þ.e. engin niðurstaða að ein vél væri heilt yfir best. Það þótti koma á óvart að Galaxy myndavélin hefði almennt ekki skarað fram úr, í ljósi þess að þetta er myndavél en ekki snjallsími með myndavél. Það var einna helst rökkri sem Galaxy myndavélin þótti standa hinum framar. Það vita það allir að það getur reynst erfitt að ná góðum myndum í snjallsíma þegar myrkva tekur. Það sýndi sig í þessum samanburði að “alvöru” myndavél stóð þar feti framar.

Að neðan má sjá niðurstöður í nokkrum flokkum. Tækjunum var raðað í röð eftir því hver þótti hafa staðið sig best.

Smáatriði myndar (e. details)
1. Nokia 808 PureView
2. iPhone 5
3. Galaxy S III og Galaxy Note II
4. Samsung Galaxy myndavél

Myndataka innandyra
1. Samsung Galaxy myndavél
2. Nokia 808 PureView
3. Apple iPhone 5
4. Galaxy S III og Galaxy Note II

Kvöld/ næturmyndataka
1. Samsung Galaxy myndavél
2. Nokia 808 PureView, iPhone 5, Galaxy S III, Galaxy Note II

 

Umfjöllunina í heild má lesa á vefsíðu Phone Arena og einnig er hægt að skoða myndirnar í góðri upplausn og bera þær saman með eigin augum. Greinin á vefsíðu Phone Arena.