Já 118 – Nei, eiginlega ekki..
Já upplýsingaveitur opnuðu nýlega nýja og endurbætta vefsíðu. Hún hefur þróast frá þeirri gömlu og sú nýja aðlagar sig að hvaða tæki sem er, sem gerir hana mjög þægilega í notkun á snjalltækjum. Nýja heimasíðan er því vel nothæf og mikil endurbót við þá gömlu, en einhverra hluta vegna sá Já sér hag í að gefa einnig út nýtt app. Já hafa nú þegar gefið út tvö öpp; Stjörnur.is og hið mjög þægilega Já í símann. Nýja appið þeirra er mjög einfalt: með því er hægt að hringja í 118. Það er ekki hægt að fletta upp í símaskránni, skoða kort, fá vegvísun eða leita í gulu síðunum. Appið samanstendur bókstaflega af einum takka sem stendur á “Hringja í 118” sem er hægt að ýta á. Hvers vegna nokkur einstaklingur ætti að vilja vera með sér app til þess að hringja í 118 er ofar mínum skilningi, en einhverjum hjá Já upplýsingaveitum hefur fundist það góð hugmynd (og sennilega forritað appið í einhverju hádegishléinu). Það er engin tenging við Já vefinn, númerauppflettingu eða stjörnur, heldur eingöngu þessi eini takki.
Lýsingin á appinu er þessi: „118 appið frá Já sparar þér tíma. Með því að nota appið færðu beint samband við þjónustufulltrúa hjá 118. Athugið að gjaldfært er fyrir þjónustuna í Já 118 samkvæmt verðskrá. Innan tíðar verða fleiri þjónustumöguleikar í boði í þessu appi.“ Appið spratt fyrst upp á Play Store og App Store fyrir rúmum mánuði síðan og héldum við á Simon að um einhverja prufu væri að ræða. Þarna væri útgáfa 1.0 af appinu og ætti eftir að setja einhverjar fleiri viðbætur við á næstu dögum. Síðan þá hefur ekki ein uppfærsla verið gerð á appinu og það er enn líkt og það sé á Alpha stigi. Við rákum því upp stór augu þegar við sáum auglýsingu fyrir appið á á helstu fréttamiðlum landsins. Þetta app er vafalaust eitt það tilgangslausasta sem hefur verið auglýst af íslensku fyrirtæki og er skólabókardæmi um app tískubylgjuna sem hefur tröllriðið íslenskum markaði. Fyrirtæki verða að fara að gera sér grein fyrir því að það er staður og stund fyrir app. Það að appið spari manni bókstaflega 4 smelli (Phone – 1 – 1 – 8 – hringja, á móti 118 appið á heimaskjánum – Hringja í 118) við það að hafa samband við Já er ekki nægilega góð ástæða fyrir appi. Á Android hefði verið hægt að gera skjátæki (e. widget) sem væri hægt að hafa á heimaskjánum til þess að hringja beint í 118, frekar en að þurfa að opna app. Einnig má benda á Android, iPhone og Windows Phone er hægt að gera flýtivalmynd til þess að hringja í símanúmer, sem er í raun enn fljótlegra en að opna appið og hringja þaðan. Þetta er app sem enginn mun koma til með að nota fyrr en búið er að bæta nýjum möguleikum við.
Við bíðum þó engu að síður spennt eftir að fá uppfærslu á þetta app. Það eru miklir möguleikar í boði og vonumst við innilega til að Já tefli fram flottu og nothæfu appi sem verður. Já númerauppflettingin er nánast orðin að staðalbúnaði á íslenskum Android símum og væri gaman að sjá annað vel heppnað og nothæft app.
Já 118 appið má finna á App Store og . Ekkert hefur heyrst hvort appið komi á Windows Phone.
Trackbacks & Pingbacks
[…] hefur gefið út nokkur öpp í gegnum tíðina og sum eru betri en önnur. Nýja Já.is appið er hinsvegar stórgott og eitt best útlítandi íslenska app sem við höfum […]
[…] landsins. Við það að smella á takka er manni gefið beint samband við þá leigubílastöð. Já, einfaldara gerist það ekki! Nú þarftu ekki lengur að söngla „Fimm-átta-átta-fimm-fimm-tveir-tveir“ til þess að […]
Comments are closed.