Dýrustu öppin 2. hluti – Tannlæknir með iPad?

Ein fegurðin við öpp í snjallsíma er að oftast eru þau ódýr eða ókeypis. Á þessu eru þó undantekningar. Við hjá Simon.is tókum saman dýrustu iOS öppin í Appstore (bandarísku) í hverjum flokki fyrir sig. Þetta var ekki mjög vísindaleg rannsókn enda bara til gamans gert. Sum öpp eru þannig að þau eru frí eða ódýr en svo þarf að borga aukalega til að virkja allskonar möguleika í appinu. Í þessari viku munum við daglega birta eina grein sem tekur fyrir nokkra af dýrustu flokkunum. Samtals eru flokkarnir um 20. 

 

Læknisfræði (e. medical) – Þetta er flokkur sem ber það með sér að bjóða upp á eitthvað dýrt. Dýrasta appið heitir DDS GP Yes! og kostar $500 eða um 63 þúsund krónur. Ef einhver giskar á að það tengist tannlækningum, þá er það rétt. Appið er fyrir tannlækna til að sýna sjúklingum sínum með sjónrænum hætti hvað er að plaga þá, hvað þarf að gera, hvernig má koma í veg fyrir að svona gerist o.s.frv. Í appinu eru tölvuteiknuð myndbönd og myndir sem tannlæknirinn getur notað til að sýna sjúklingi sínum t.d. þegar hann útskýrir hvað gerist ef viðkomandi notar ekki tannþráð. Eins og mörg af þessum dýrustu öppum er þetta nokkuð sniðugt en markhópurinn ekki stór. Ef einhver tannlæknir ætlar að splæsa í svona mæli ég með því að hafa iPad til að sýna sjúklingunum, iPhone er með heldur lítinn skjá fyrir svona. Athugið að maður þarf að vera orðinn 17 ára til að fá að kaupa appið. Ekki spyrja af hverju!

 

Fræðsla (e. education) – Í þessum flokki er Proloquo2Go dýrasta appið og kostar $190 eða um 24 þúsund krónur. Þetta app er ætlað til að auðvelda fólki, sem getur ekki talað, að tjá sig. Sem dæmi má nefna einhvern sem hefur fengið heilablóðfall og á erfitt með að tjá sig munnlega. Með appinu er hægt að velja flokka eins og „mig langar í“ eða „mig vantar“ og svo er farið í gegnum undirflokka þar til komið er að því sem vantar. Auk þess að vera með mynd af hlutnum eða því sem vantar er einnig rödd sem segir hvað mann vantar.

 

 

Leikir (e. games) – Leikir fyrir iOS tæki eru sjaldan dýrir. Tveir leikir eru á toppnum og kosta báðir $13 eða rúmlega 1.600 krónur. Þetta eru leikirnir Civilization Revolution for iPad og Chaos Rings. Fyrrnefndi leikurinn tilheyrir Civilization leikjaröðinni sem allir tölvuleikjaunnendur ættu að þekkja. Eins og nafnið ber með sér er hann eingöngu fyrir iPad. Síðari leikurinn er frá framleiðendum Final Fantasy leikjanna sem leikjaunnendur þekkja líka.

Næsti verðflokkur er $10 og þar eru leikir eins og Need for speed, Grand Theft Auto, Battlefield og FIFA Soccer.

 

 

Á morgun fjöllum við meðal annars um algjörlega ómissandi matreiðslu öpp sem eru dýrust í sínum flokki en eru þó á mjög viðráðanlegu verði – sérstaklega ef tekið er mið af því hvað maður fær fyrir peninginn. 

Fylgstu með Simon.is á Facebook