Logitech bluetooth lyklaborð fyrir iPad


Þrátt fyrir að iPad sé gagnleg tölva og skjályklaborðið betra en menn bjuggust við, þá gagnast það lítið þegar verið er að skrifa lengri texta. Til er fjöldinn allur af lyklaborðum og lyklaborðstöskum fyrir iPad. Logitech ákvað nýlega að hella sér í þennan markað og kynntu í haust tvær tegundir af lyklaborðum fyrir iPad. Annars vegar er það lyklaborðstaska og svo Logitech Tablet Lyklaborð. Það er til í tveimur útgáfum, annars vegar fyrir iPad og svo Android. iPad útgáfan er hér til umfjöllunar. Ég fann þetta lyklaborð hvergi í sölu á Íslandi. Logitech hefur heldur engan umboðsaðila á íslandi sem getur svarað því hvort og þá hvenær það gæti komið í sölu. Lyklaborðið sem fjallað er um hér er keypt í Svíþjóð en allir íslenskir starfir og tákn virka 100%.

Lyklaborðið sjálft er vandað og vel smíðað. Það er í fullri stærð og mjög þægilegt að skrifa á það ef menn eru hrifnir af chiclet lyklaborðum. Takkarnir eru góðir og mikill kostur er að það eru hnappar á því sérstaklega fyrir iOS. T.d. er “heim” hnappur og “leita” hnappur. Einnig eru FN hnappar til að hækka, lækka, læsa ofl.

Lyklaborðið kemur í hlustri sem breytist í stand fyrir iPad-ið þegar verið er að skrifa. Vaggan býður upp á tvær hallastillingar og er mun stöðugri en t.d. Smart Cover hlífin frá Apple. Annar kostur við standinn er að hægt er að setja iPad í hulstri í standinn og ætti hann að ráða vel við stærstu og þykkustu hulstrin.

Eins og áður sagði þá eru iOS hnappar á lyklaborðinu en stýrikerfið skilur einnig hefðbundnar skipanir á borð við vista, líma og klippa. Þó er galli að sumar skipanir á borð við CTRL T til að fá nýjan flipa í Safari virka ekki. Einnig virka takkarnir ekki í leikjum.

Fyrir þá sem eru að leita sér að lyklaborði fyrir iPad (eða Android spjaldtölvur) þá mæli ég eindregið með þessu lyklaborði.

Kostir: Vandað lyklaborð, standurinn stöðugur, hulstur verndar lyklaborðið

Gallar: Þungt, ekki virka allar hefðbundnar lyklaborðsskipanir

Simon.is gefur lyklaborðinu 8,0 af 10 mögulegum í einkunn

Heimild: logitech.com

Fylgstu með Simon.is á Facebook