Dýrustu öppin 4. hluti – Leiðsagnarforrit á fínu verði

Ein fegurðin við öpp í snjallsíma er að oftast eru þau ódýr eða ókeypis. Á þessu eru þó undantekningar. Við hjá Simon.is tókum saman dýrustu iOS öppin í Appstore (bandarísku) í hverjum flokki fyrir sig. Þetta var ekki mjög vísindaleg rannsókn enda bara til gamans gert. Sum öpp eru þannig að þau eru frí eða ódýr en svo þarf að borga aukalega til að virkja allskonar möguleika í appinu. Í þessari viku munum við daglega birta eina grein sem tekur fyrir nokkra af dýrustu flokkunum. Samtals eru flokkarnir um 20. 

 

Tónlist (e. music) – Í þessum flokki er ekkert virkilega dýrt app. Það dýrasta heitir Lemur og kostar $50 eða um 6.300 krónur. Þeir sem hafa eitthvað komið nálægt því að búa til (raf)tónlist þekkja hugsanelga Lemur. Persónulega hafði ég aldrei séð né heyrt um þetta áður. Eins og appinu er lýst er það „multitouch MIDI/OSC controller“ sem ekki ómerkari tónlistarmenn en Daft Punk, Björk, Deadmau5 og fleiri hafa notað við tónlistarsköpun sína. Samkvæmt því sem ég les er appið ekki endilega fyrir hvern sem er, heldur frekar fyrir lengra komna. Eflaust er þó hægt að læra á það eins og annað, með fikti og þolinmæði.

Eins og með matreiðslu öppin ætla ég að lýsa eftir einhverjum sem hefur prufað þetta app. Ef slíkur les þetta má hinn sami endilega segja okkur frá því hvernig þetta er.
Ég bendi fólki á Youtube vilji það kynna sér appið nánar.

 

Heilsa og líkamshreysti (e. health and fitness) Dýrasta appið í þessum flokki er iRADTECH sem kostar $30, tæplega 4 þúsund. Appið eru rafrænar leiðbeiningar fyrir þá sem taka röntgenmyndir (röntgentæknir hét þetta í gamla daga nú eru þetta geislafræðingar) um hvernig stilla skuli upp fólki fyrir myndatöku. Þeir sem hafa farið í slíka myndatöku vita að þetta snýst ekki bara um að brosa og smella af, heldur þarf að stilla manni upp eftir kúnstarinnar reglum og koma röntgentækinu að manni. Gegn vægu gjaldi hjálpar þetta app við svoleiðis uppstillingu.

 

Leiðsögn (e. navigation) – Í flokki  leiðsagnarforrita er meira um millidýr öpp en í flestum öðrum flokkum. Langdýrast er þó G-Map U.S. East sem kostar $200 eða um 25 þúsund krónur. Í fjórða og fimmta sæti eru öpp sem ættu að nýtast okkur á Íslandi. Þau eru TomTom Europe og NAVIGON Europe  sem kosta bæði $120.

 

 

 

Fjármál (e. finance) – Í flokki fjármála er Level 1 TestBank dýrast og kostar $100 eða hátt í 13 þúsund krónur. Appið er gagnagrunnur fyrir svör við prófum hjá CFA stofnuninni. Ef þið vitið ekki hvaða stofnun það er þá þurfið þið ekki að vita meira um þetta app.

 

 

Fylgstu með Simon.is á Facebook