Dýrustu öppin 3. hluti – Allir sem elda mat ættu að skoða þessi
Ein fegurðin við öpp í snjallsíma er að oftast eru þau ódýr eða ókeypis. Á þessu eru þó undantekningar. Við hjá Simon.is tókum saman dýrustu iOS öppin í Appstore (bandarísku) í hverjum flokki fyrir sig. Þetta var ekki mjög vísindaleg rannsókn, enda bara til gamans gert. Sum öpp eru þannig að þau eru frí eða ódýr en svo þarf að borga aukalega til að virkja allskonar möguleika í appinu. Í þessari viku munum við daglega birta eina grein sem tekur fyrir nokkra af dýrustu flokkunum. Samtals eru flokkarnir um 20.
Lífstíll (e. lifestyle) – Í þessum flokki kostar dýrasta appið $10, ríflega 1.200 krónur. Það eru reyndar þrjú öpp sem eru jöfn í efsta sæti. Þau eru AlMosally, Mario Batali Cooks! og How to Cook Everything.
AlMosally er app sem minnir fólk á að biðja til Allah og sýnir jafnframt áttina að Mekka.
Eins og nafnið gefur til kynna er Mario Batali Cooks! appið tengt matreiðslu. Þarna fer herra Batali um víðan völl í ítalskri matargerð. Appið hefur að geyma ítalskar uppskriftir allstaðar að frá Ítalíu. Einnig má finna allskonar sniðugheit eins og innbyggða niðurteljara fyrir hvert skref í eldamennskunni, ljósmyndir af eldunar ferlinu, vínlista, kvikmyndaupptöku af Batali að elda og svona má lengi telja. Ég hef ekki prufað appið en þetta hljómar spennandi og fær 4,5 stjörnur af 5 mögulegum frá yfir 1.200 einkunnagjöfum. Ef einhver sem les þetta og hefur prufað appið (eða ákvað að prufa eftir að hafa lesið þetta) má sá lesandi endilega segja okkur frá því hvernig appið reynist. Er þetta jafn magnað og þetta hljómar?
Síðast af þessum þremur er annað matreiðslu og uppskrifta app – How to Cook Everything. Appið er byggt á samnefndri matreiðslubók eftir Mark Bittman dálkahöfund New York Times. Í appinu eru yfir 2.000 uppskriftir og yfir 400 teikningar með allskonar leiðbeiningum. Appið fær tæplega 5 stjörnur í einkunn frá yfir 1.300 manns og mjög góð ummæli. Það sama gildir hér og með herra Batali. Ef einhver hefur prufað þetta má endilega segja okkur frá þeirri reynslu. Ég held reyndar að það sé óhætt að fullyrða að þetta sé 1.200 króna virði! Það hlýtur bara að vera.
Afþreying (e. entertainment) – Í þessum flokki eru engin mjög dýr öpp í boði. Dýrast er sem kostar $30 eða tæplega 4 þúsund krónur. Appið er fyrir þá sem eiga Slingbox, sem er nettengd græja sem maður tengir við afruglara. Slingboxið sendir þá merkið frá afruglaranum á netið og getur maður horft á streymið í nettengdri tölvu. Appið er viðbót sem býður upp á að horfa einnig á streymið í iOS tækjum (iPhone, iPod touch og iPad – það er líka til sérstakt iPad app sem virkar ekki í öðrum iOS tækjum). Þetta er að sjálfsögðu lögleg leið til að horfa á efni sem maður greiðir fyrir áskrift að. Með appinu stjórnar maður líka afruglaranum þannig að maður þarf ekki að hafa áhyggjur af því að stilla hann á rétta rás áður en maður fer úr húsi.