Mikill fjöldi framleiðenda snýr sér að Windows Phone
Eftir að Microsoft tilkynnti um það fyrr á árinu að búið væri að fella niður öll leyfisgjöld á Windows-tækjum sem eru með 9 tommu skjá eða minna þá hafa fleiri framleiðendur stigið fram og tilkynnt um fyrirætlanir sínar um að koma með Windows Phone-síma á markaðinn.
Hvorki fleiri né færri en 4 nýir framleiðendur hafa komið fram í þessari viku og sýnt hvaða tæki þeir eru að senda frá sér. Hinsvegar eru eflaust fáir sem hafa nokkurn tímann heyrt af þessum framleiðendum en þeir eru Wistron, Blu, Prestigio og Yezz.
Þessir framleiðendur eiga þó það sameiginlegt, fyrir utan að hljóma eins og nöfn á þvottaefni, að vera þátttakendur á Computex-ráðstefnunni í Taiwan en þessi árlega ráðstefna hefur oft verið vettvangur fyrir stórar og merkilegar tilkynningar í tækniheiminum í Asíu en Nokia einmitt kynnti Nokia N9 á þessari ráðstefnu sumarið 2011.
Ef við horfum aðeins á það Windows Phone-framboð sem kynnt var núna í vikunni þá var Blu með tvö símtæki til sýnis en annað þeirra er m.a. með 5 tommu skjá en þrátt fyrir að tækin væru til sýnis á Computex þá voru Blu-menn lítið að uppfræða gesti og gangandi um eiginleika tækjanna.
Næst er það Prestigio en þeir kynntu tvo nýja síma; Prestigio MultiPhone 8500 DUO og 8400 DUO. Báðir símarnir eru með dual-SIM-virkni ásamt Snapdragon 400 1,2 GHz Quad-Core Cortex A7-örgjörva og Adreno 305 GPU ásamt 8 megapixla myndavél en 8500-síminn er með 5 tommu skjá á meðan 8400-síminn er með 4 tommu skjá.
Svo kom Yezz Billy, nefndur í höfðuðið á Bill Gates, sem er með 4,7 tommu skjá, quad-core-örgjörva, 13 megapixla myndavél ásamt því að koma seinna á þessu ári einnig í 4 tommu útgáfu með 8 megapixla myndavél.
Síðast en ekki síst er það Wistron Tiger sem er með 6,45 tommu FullHD-skjá ásamt Snapdragon 800. Sem stendur er þessi sími einungis á frumstigi í framleiðslu en Wistron hefur ekki útilokað að aðrir framleiðendur geti tekið þennan síma inn hjá sér og sett hann í sölu undir eigin nafni.
Allir þessir símar sem kynntir hafa verið nú þegar munu keyra á Windows Phone 8.1 og koma í sölu á næstu vikum og mánuðum á mjög samkeppnishæfum verðum.
Þess má geta að Microsoft hefur verið að flagga nöfnum fleiri framleiðenda á Computex-ráðstefnunni og eru þar nöfn á borð við BYD, Compal, Pegatron, Quanta og fleiri sem hafa verið nefndir til sögunnar sem mögulegir Windows Phone-framleiðendur.
Það er því ljóst að þrátt fyrir að Microsoft hafi komið inn hjá sér einu stykki af símaframleiðanda þegar fyrirtækið keypti farsímaframleiðslu Nokia og tók yfir alla þá 32.000 starfsmenn Nokia sem komu að því verkefni að þá er Microsoft greinilega að vinna mikið í því að fá eins marga framleiðendur inn á Windows Phone-markaðinn og mögulegt er. Það eru því áhugaverðir tímar framundan því fram að þessu hafa Lumia-símarnir frá Nokia átt nánast allan Windows Phone-markaðinn en ef marka má þau tæki sem hér hafa verið kynnt þá ætla framleiðendur í Asíu ekkert að gefa eftir.