112 Iceland – Nú loksins fyrir Windows Phone
Appið 112 Iceland hefur lengi verið til fyrir Android og iOS og er nú loksins að koma fyrir Windows Phone. Tilgangur appsins er að auðvelda Neyðarlínunni að finna týnda ferðamenn með því að skilja eftir GPS slóð og fá nánari upplýsingar um þá. Helsti kosturinn við appið er að það er óþarfi að vera í gagnasambandi til þess að nota það því hefðbundið GSM samband nægir.
Notendur þurfa samt að hafa í huga að appið kemur ekki í staðinn fyrir hefðbundin öryggistæki á borð við neyðarsenda eða talstöðvar. Hins vegar er forritið nýja gagnleg viðbót sem nýtist hinum mikla fjölda fólks er notar snjallsíma og þéttir þannig það öryggisnet fjarskipta sem fyrir er í landinu.
Í stuttu máli er hægt er að skilja eftir sig slóð eða „brauðmola“ með því að ýta á græna takkann en við það sendir síminn upplýsingar um staðsetningu þína og tímasetningu til Neyðarlínunnar. Fimm síðustu skráningar eru geymdar og eru einungis notaðar við leit eða björgun þar sem óttast er um afdrif þín.
Rauði takkinn er svo til þess að hringja í 112 en jafnframt verður staðsetning þín send til Neyðarlínunnar til að tryggja að viðbragðsaðilar komist á réttan stað.
Til þess að auðvelda björgunarfólki að vita hver sendi neyðarkallið er boðið upp á að fylla inn grunnupplýsingar um þig. Einnig er hægt að velja hvort appið sé stillt á íslensku eða ensku en enska er sjálfvalin þegar appið er opnað í fyrsta skipti.
Valitor þróaði appið í samvinnu við Stokk en Neyðarlínan, Slysavarnarfélagið Landsbjörg og Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra komu líka að þessu verkefni. Appið er mjög einfalt og auðskiljanlegt og mjög sniðug viðbót til að auðvelda Neyðarlínunni vinnu sína ef svo óheppilega vill til að notandinn þarf á aðstoð hennar að halda.
Simon mælir eindregið með þessu appi fyrir alla sem ætla sér að ferðast um landið.
Appið er ókeypis og hægt er að sækja það hér.