Google Nexus spjaldtölva kynnt á miðvikudaginn?

Það hefur verið opið leyndarmál í nokkurn tíma að Google sé að stefna á að gefa út spjaldtölvu í Nexus línunni og líklega verður hún kynnt opinberlega á I/O ráðstefnu Google sem hefst eftir tvo daga.

Helsta sem vert er að nefna í sögusögnum um þessa tölvu er að hún mun koma með 7″ IPS skjá í upplausninni 1280×800. Tölvan kemur líklega í tveimur útgáfum, 8GB (199$) og 16GB (249$)  sem setur Nexus spjaldtölvuna í beina samkeppni við Kindle Fire spjaldtölvuna frá Amazon. Munurinn er samt gríðarlegur í getu á milli þessara spjaldtölva ef satt reynist að Nexus tölvan komi með Tegra 3 örgjörva frá Nvidia. Slíkur örgjörvi er fjórkjarna með talsvert meira afl í sér en eldri tvíkjarna 1GHz TI Omap sem er að finna í Kindle Fire.

Munurinn er einnig mikill á milli virkni þar sem Kindle Fire einsetur sér að loka notendur inn í sérgerðu umhverfi sem byggir á Android en Nexus tölvan mun koma með hreinræktað Android umhverfi stutt af Google. Einnig mun tölvan vera sú fyrsta sem keyrir Android 4.1 sem við fjölluðum um í seinustu viku og heitir Jelly Bean.

Sögusagnir eru á kreiki um að Google muni á næstunni taka við uppfærslum á flestum Android tækjum í gegnum sitt eigið uppfærsluferli í stað þess að notendur þurfi að bíða eftir þeim frá framleiðendum sinna tækja. En það er ekki víst hvort átt er þá við bara ný tæki sem koma með Jelly Bean uppfærslunni eða hvort það eigi við eldri tæki einnig. Þetta mun allt koma í ljós á næstu dögum og við fylgjumst með hvaða fréttir koma úr ráðstefnu Google núna í vikunni.

 

Simon.is á fleiri miðlum