Sony Xperia Z2 (örumfjöllun)
Sony er kannski ekki að skila hagnaði, en Xperia vörulínan þeirra er samt komin í bullandi plús. Karzai hefur svo sannarlega snúið við málum fyrir Xperia og þeir eru farnir að gefa út almennileg símtæki. Xperia Z2 er mjög líkur forvera sínum Xperia Z1, sem fékk frábæra dóma hérna hjá Simon. Xperia Z2 er smávægileg uppfærsla á Z1. Það er nýr örgjörvi (Snapdragon 801) og meira vinnsluminni (3GB). Stærsta breytingin er skjárinn. Hann stækkar upp í 5,2 tommur frá 5 tommum og er mun betri en allt sem Sony hefur gefið út. Þeir hafa aldrei náð víðu sjónarsviði (e. viewing angle), en þessi stórbætir það. Skjárinn er samt klassa fyrir neðan Galaxy S5, HTC One M8 og iPhone 5S. Heilsuband fylgir með til að fylgjast með skrefum og hreyfingu (e. Fitness Tracker Band).
Hönnun
Síminn er nær alveg eins og Z1. Hann er sjö grömmum léttari, með mjórri kanta og aðeins hærri. Annars bara mjög svipaður. Stílhreinn, stór, fallegur og úr áli. Hann er samt rosalega stór og ekki beint hannaður fyrir lófa. Einnar handar notkun er mjög erfið, sem er reyndar nokkuð algengt á flaggskipum í dag. Einu flaggskipin sem fara vel í hendi eru iPhone 5S og nexus 5. Við höfundarnir erum báðir að nota nexus síma, nexus 4 og 5. Þeir fara einstaklega vel í hendi og eru þægilegir í einnar handar notkun. Maður finnur mikinn mun þegar maður skiptir á milli Xperia Z2 og nexus 5, jafnvel þó það sé einungis 0,25 tommu munur á skjástærð. Sony þyrfti að horfa til LG hvað varðar ytra byrði og megra símann aðeins (þó ekki á kostnað rafhlöðu). Viðmótið er látlaust, svart og einfalt. Sem er bara mjög þægilegt. Það er þó langt frá Samsung, LG og HTC viðmótunum hvað varðar eiginleika. Það er þó með íslenskt viðmót, íslenskt lyklaborð og íslenska orðabók. Orðabókin getur einnig loggað sig inn í póst og samfélagsmiðla til að læra þinn orðaforða (white label Swift Key, eins og er á Samsung Touchwiz).
Myndavél
Með þessari örgjörva uppfærslu getur myndavélin skotið myndbönd í 2160p upplausn á 30 römmum, 1080p á 30 og 60 römmum og 720p á 120 römmum (slow-motion). Myndavélin er rosa fín og er með viðtæka tökustillingu sem virkar mjög vel í flestum tilvikum. Sony fær líka mikinn plús fyrir tveggja stiga myndavélatakkann. Hann er einfaldlega snilld.
Rafhlaðan
Rafhlaðan er risastór, eða 3200 mAh sem er svipað og 7” spjaldtölvurnar hafa fengið í gegnum tíðina. Síminn líka endist og endist. Það er sími að okkar skapi!
Samantekt
If it ain’t broken.. Þetta er þéttur sími. Hann er hraður, fallegur, vatns- og rykvarinn, með frábæra myndavél, frábæra rafhlöðuendingu og (loksins) góðan skjá. Hann er hinsvegar stór og óþægilegur í hendi og við einnar handar notkun. Hann er líka dýr. Kostir
- Frábær myndavél og myndavélarhugbúnaður
- Vatns- og rykheldur
- Mjög góð rafhlöðuending
- Styður minniskort
- Stór og góður skjár
Gallar
- Dýr samanborið við sambærilega síma
- Erfitt að nota einhendis
Simon gefur Sony Xperia Z2 fjóra og hálfa stjörnu af fimm mögulegum.
Gunnlaugur Reynir Sverrisson aðstoðaði við gerð þessarar umfjöllunar.