Jólagjafalisti Simon.is 2013
Hó hó hó! Simon.is er að sjálfsögðu í gríðarlegu jólaskapi. Við höldum í hefðirnar og erum búnir að taka saman þær gjafir sem við mælum með í hörðu pakkana. Við höfum ákveðið að stækka við okkur og bættum við fartölvu og aukahluta meðmælum.
Snjallsímar í dýrari kantinum
2013 var svo sannarlega viðburðarríkt ár í útgáfu á snjallsímum. Apple gáfu ekki út einn, heldur tvo snjallsíma. Samsung hélt lengstu, leiðinlegustu og hallærislegustu vörukynningu í sögu mannkyns. Þeir slógu Steve Jobs algjörlega út í notkun á allt of sterkum lýsingarorðum og dramatík. Sinfoníuhljómsveit, balletdansarar, forstjórar, markaðsstjórar og kvenfyrirlitning voru meðal þess sem átti sér stað. iPhone 5C var flopp ársins og selst ekki neitt, en hann er ljóta stjúpsystirin í iPhone fjölskyldunni. Hann lætur iPhone 5S skína. Kíkjum nú á þau tæki sem við mælum með í hörðu pakkana.
iPhone 5S
Nýjasti og besti iPhone síminn til þessa (“the best iPhone yet”). Báðir símarnir (5S og 5C) voru að hríðlækka í verði og verða því sannkölluð iPhone jól í ár. Geðveik myndavél, ótrúlega hraður, fer vel í hendi og einstaklega fallegur sími #enginkreppahér #simmireddar
Nexus 5
Nýjasta viðbótin í Nexus fjölskylduna frá Google kemur frá LG í annað sinn. Síminn er leifturhraður, með fína myndavél og alltaf með nýjustu útgáfuna af Android. Sannkölluð veisla fyrir Android áhugamenn og alvöru nörda. Myndavélin var mjög umdeild, en var löguð með uppfærslu. Nú er það bara hleðslan sem dregur síman aðeins niður. Líklega besti Android síminn í dag #sorrygalaxy
Xperia Z1
Ryk- og vatnsheldur lúxusími smíðaður úr áli með 20 megadíla myndavél. Þennan síma getur þú tekið með þér í sturtu áhyggjulaust og tekið fanta góðar myndir í Nauthólsvíkinni í sumar. Þú gætir jafnvel misst hann í klósettið, sem við gerðum, þrisvar sinnum.. #engaráhyggjurádollunni
Lestu umfjöllun okkar um Sony Xperia Z1
Aðeins ódýrari snjallsímar
Okkur líkar illa við að mæla með ódýrum snjallsímum. Upplifunin er alltaf verri og fólk skiptir fyrr um síma. Það voru hinsvegar 3 tæki sem við töldum okkur geta mælt með, einn nýr sími og tvö gömul flaggskip.
Lumia 625
Windows 8 sími frá Nokia á ótrúlega fanta góðu verði sem kom okkur á óvart. Stór skjár, nothæf myndavél, lítið sem ekkert hökt og styður blússandi 4G. Góður sími fyrir þá sem vilja spara, sem við mælum næstum aldrei með við snjallsímakaup.
Lestu umfjöllun okkar um Nokia Lumia 625
Galaxy S3
Enn góð kaup þrátt fyrir að vera dottinn úr tísku. Við gáfum Galaxy S3 næstum fullt hús stiga á sínum tíma og stöndum enn við það. Síminn tikkar í flest box og er á fínu verði. Góð myndavél, frábær skjár og fín hleðsla. Er enn að fá uppfærslur frá framleiðanda og því enn með í baráttunni.
Lestu umfjöllun okkar um Samsung Galaxy S3
LG Optimus G
Fyrsti áreiðanlegi síminn frá LG sem kom þeim aftur á kortið. Síminn er dottinn úr tísku eins og S3, en eins og S3 tikkar hann í öll box. Síminn fékk fínar viðtökur hjá okkur fyrir um ári síðan og heillar enn miðað við verð.
Lestu umfjöllun okkar um LG Optimus G
Spjaldtölvur
Síðustu jól voru klárlega spjaldtölvujól á Íslandi, sem og víðar. Okkur til mikillar mæðu seldust ljótu, lélegu 20 þúsund króna spjaldtölvurnar mjög vel. Við getum ekki mælt með neinni svoleiðis spjaldtölvu, enda er líftími, gæði og upplifun á slíkum spjaldtölvum nánast engin. Allar þær spjaldtölvur sem við mælum með munu koma til með að endast og tryggja ánægjulega upplifun.
Nexus 7 (2013)
Ólíkt kvikmyndum þá er framhaldið betra en fyrsta mynd þegar kemur að Nexus 7. Smellpassar í hendi með skarpan skjá á góðu verði. Án efa besta Android spjaldtölvan sem er hægt að fá í dag. Ekki skemmir fyrir að fá Android beint frá bónda, því allar nýjustu uppfærslurnar frá Google koma strax á Nexus 7.
iPad Mini Retina
Þetta hefði verið óspennandi framhaldsmyndin. Það vissu allir hvað var í vændum. Engu að síður spjaldtölva með brjálaðan skjá og aðgang að öllu því sem Apple hefur upp á að bjóða. Þægilegri stærð en stóri iPad sem okkur finnst henta betur. Engu að síður jafn kraftmikil og býður upp á sömu möguleika og stóri bróðir sinn.
iPad Air
Kóngurinn. Ef þú vilt stóra spjaldtölvu þá er þetta spjaldtölvan sem þú kaupir. Engin önnur spjaldtölva í sama stærðarflokki kemst með tærnar þar sem iPad Air hefur hælana. Létt, nett og með rosalega upplausn og öll bestu öppin. Apple sanna það enn og aftur að þeir kunna að hrista fram góðar vörur úr erminni.
Fartölvur
Windows fartölvurnar í ár hafa ekki heillað okkur. Örfáar hafa náð að vekja athygli hjá okkur og má þá helst nefna Lenovo og Sony í þeim efnum. Apple halda hinsvegar áfram að dæla út hágæða tækjum og kom öllum á óvart með rafhlöðuendingu á nýju Macbook Air línunni.
Macbook Air
Tölvan sem braut öll lögmál og hefur haldið áfram að gera það. Tölvan sem bjó til Ultrabooks. Nú með tólf tíma hleðslu og mikinn kraft. Tölvan er á fínasta verði um jólin og er því kjörin í jólapakkann fyrir þá sem ætla að spreða aðeins. Hentar virkilega vel í ferðalagið, skólann eða sem tölva til þess að flakka með.
Lenovo Yoga
Lenovo gerðu fyrstu Windows 8 fartölvuna sem við náðum að skilja. Tölva sem náði að sameina fartölvu og spjaldtölvu kosti Windows 8. Skjárinn snýst á hjörunum og er þá tölvan allt í einu orðin að spjaldi. Ofan á það er tölvan nett, létt, kröftug og á góðu verði.
Kíktu á umfjöllun okkar um Yoga 11 og 13
Macbook Pro Retina
Ef verðið skiptir engu máli þá er þetta besta fartölvan sem þú getur fengið í dag. Sérstaklega 15” útgáfan. Ekkert er gefið eftir í hönnun, gæðum og innvolsi. Svakaleg upplausn og mikill kraftur í fallegum umbúðum, en kostar skildinginn.
Lestu umfjöllun okkar um Macbook Pro Retina
Aukahlutir
Vantar þig aðeins minni jólagjafir? Skoðaðu þá aukahluti fyrir snjalltæki og tölvur. Við mælum sérstaklega með heyrnatólum, hulstrum og hönskum. Eitthvað sem allir geta notað með mörgum mismunandi tækjum.
Backbeats GO2
Við elskum lítil þráðlaus heyrnatól með bluetooth. Þægindin við að losna við snúrur eru gríðarleg. Frábært í allskonar hreyfingu og útivist sem og við vinnu eða húsverk. Þau heyrnatól sem við mælum sérstaklega með eru Backbeats GO2 og Jaybirds Sport. Backbeats GO2 eru vatnsvarin þráðlaus heyrnatól. Með þeim fylgir hleðslubudda sem hefur að geyma tvöfalda hleðslu til að lengja lífið í heyrnatólunum.
Lestu umfjöllun okkar um Backbeats GO2
Glider snjallsímahanskar
Nauðsyn fyrir tækninörda að vetri til. Það er mikið úrval af drasl snjallsímahönskum, en við erum búnir að finna nokkra sem eru mjög góðir. Glider hanskarnir eru framleiddir af kanadísku fyrirtæki og henta því mjög vel við íslenskar aðstæður. Þeir koma bæði fóðraðir og ófóðraðir og ólíkt mörgum öðrum hönskum þá virka allir fletirnir á hanskanum á snertiskjám. Þeir eru líka með gúmmí munstri til að gefa betra grip og er hægt að framkvæma nákvæmar hreyfingar á skjánum.
Lestu umfjöllun okkar um Glider hanskana
Hulstur
Ómissandi fyrir snjalltæki. Notagildi spjaldtölvunnar og líftími hennar margfaldast. Horfðu á heilar kvikmyndir með hallandi hulstri og bjargaðu tölvunni frá eyðileggingu barnanna þinna. Það eru ótrúlega mörg hulstur í boði og auðvelt er að kaupa köttinn í sekknum. Við höfum rekist á nokkur góð merki sem við mælum með.
Ozaki býður upp á hulstur fyrir Apple tæki sem og vinsælustu Android tækin. Þeir eru með hulstur í öllum litum, gerðum og stærðum og gæðin bera af.
Poetic er kannski ekki fallegasta vörumerkið, en þeir eru með hágæða hulstur fyrir ótrúlega margar gerðir af snjallækjum. Við höfum prófað bæði snjallsíma og spjaldtölvu hulstur við góðan árangur og mælum hiklaust með þeim.
Tímirðu ekki pening í hulstur? Ekkert mál! Kíktu í Tiger og fáðu þér iPhone hulstur með lykt. Skutlaðu inn commenti að neðan ef þú hefur einhverjar betri hugmyndir!