Atvinnuleitin er auðveldari með Alfreð – Umfjöllun

Það hefur vafalaust ekki farið framhjá neinum að Stokkur var að gefa út atvinnuleitar-appið Alfreð. Fyrir þá sem ekki vita er Alfreð nýtt app sem er ætlað til að auðvelda fólki atvinnuleitina. Hugmyndin er mjög góð og það er ekki til neitt sambærilegt app á íslenskum markaði. Appið lítur ágætlega út, teiknimyndafíguran Alfreð er skemmtilegur í útliti og manni alltaf innan handar.

simon-alfred1

Þegar appið er opnað fer maður beint í lista yfir þær atvinnuauglýsingar sem eru í boði. Það er hægt að fletta í gegnum þær allar eða skoða þær eftir flokkum. Flokkarnir eru ófáir og ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi. Það er strax mikill fjöldi af auglýsingum í appinu, en þegar þessi grein var skrifuð voru þær í heildina 124. Appið er mjög auðvelt í notkun og auðvelt að fletta í gegnum auglýsingarnar. Þegar auglýsing er skoðuð fær maður ítarlegar upplýsingar um hana og er hægt að velja um að fá áminningu 2 eða 4 dögum áður en umsóknarfresturnin rennur út. Ef blaðauglýsing er til fyrir þá auglýsingu sem er skoðuð er hægt að smella á takka og fá hana upp á skjáinn. Hægt er að sækja um starfið beint úr  appinu ef maður er með ferilskránna inni á símanum með því að smella á það netfang sem gefið er upp í auglýsingunni.

simon-alfred2

Eitt það besta sem appið býður upp á er “Vaktin mín” , en þar er hægt að merkja við hvaða störf maður hefur áhuga á og þá birtist tilkynning þegar nýtt starf er skráð í flokkinn. Flokkarnir eru mjög margir og er þetta klárlega það sem fólk mun helst nýta sér. Appið býður einnig upp á ráðgjöf, sem er greinasafn með ýmsum góðum ráðum fyrir atvinnuviðtöl og gerð ferilskrár.

simon-alfred3

Appið er einfalt og þægilegt, gerir nákvæmlega það sem það ætlar sér og tekst það vel. Það eina sem ég hef að kvarta yfir er að það mætti vera örlítið fínpússaðara á Android þar sem að maður tekur eftir svolitlu hökti við að fá upp valmyndir eða þegar maður er að fletta í gegnum auglýsingar. Appið er engu að síður mjög gott og nothæft. Ég sé fyrir mér að margir munu notfæra sér þetta app við atvinnuleitina og það er bara að vona að fyrirtæki sem eru að auglýsa eftir starfskrafti notfæri sér þennan miðil.

Sækja Alfreð á eða iOS