Dell Inspiron 14z umfjöllun

Dell Inspiron 14z er ódýr og vel byggð ultrabook fartölva fyrir nám- og heimilisnotkun sem Simon fékk að skoða í nokkra daga. Tölvan sem við fengum kostar 180 þúsund krónur. Það eru til nokkrar útgáfur af sömu tölvunni og þessi verðlögð í miðjunni.  Ódýrasta týpan kemur ekki með SSD disk og sú dýrari býður upp á Intel i5 örgjörva.

Innvols

Eintakið sem við fengum er með Intel i3 örgjörva, sem afkastar litlu en eyðir aftur á móti litlu rafmagni. Hann er einnig ódýr og hefur líklega verið valinn til að vega á móti kostnaðinum við 128GB SSD diskinn sem fylgir með. Með þessu er 4GB DDR3 vinnsluminni, Intel HD 3000 skjástýring, geisladrif og innbyggð vefmyndavél.

Leiðinleg lok

Það eru ekki mörg tengi á tölvunni og sum þeirra eru falin bakvið einhvers konar lok. Tölvan er með tvö USB 3.0 tengi, HDMI, ethernet, 3-1 minniskortalesara og hljóðtengi (samnýtt fyrir hljóðnema). Mér fannst nokkuð óþægilegt að nota ethernet tengið þar sem það er einmitt falið bakvið lok en það vandist fljótt.

Þetta innvols er ekki gert til að þola tölvuleiki eða aðra þunga vinnslu en skilar sínu hvað varðar ritgerðarsmíði og glósun. Þessi tölva er byggð á síðustu kynslóð af kubbasettum frá Intel og er því aðeins afkastaminni en nýjar vélar sem nota Ivy Bridge kubbasettið. Tölvan er samt snögg að kveikja á sér og opna forrit, þökk sé SSD disknum.

Hljóð og mynd

Hátalarnir eru staðsettir að framan og aðeins undir vélinni. Það er ekki gott hljóð í þeim og enginn bassi, en það telst vera nokkuð eðlilegt miðað við verð og stærð. Það var alveg hægt að hlusta á fólk tala en tónlist naut sín ekki vel.

Skjárinn er  með lága upplausn (1366×768) sem er svipað því sem sést á snjallsímum í dag og getur maður séð hvern einasta díl. Skjárinn hefur mjög takmarkað sjónsvið og upplitast fljótt ef horft er frá röngum halla. Litirnir eru illa stilltir en birtan er góð. Skjárinn er þó næfurþunnur og nær niður heildar þykkt tölvunnar.

Rafhlaða

Ending rafhlöðu er ekkert sérstök, rétt undir meðallengd eða rétt yfir fjórar klukkustundir við hefðbundna notkun. Við höfum séð betra (Sony Vaio S og Lenovo Thinkpad Edge E530 frá Nýherja).

Hönnun

Tölvan er mjög flott og er vel byggð. Maður finnur alveg að tölvan ætti að þola smá hnjask (ekki að ég hafi reynt á það). Skjárinn er mjög þunnur sem tekur niður heildarþykkt (20,7- 21 mm.). Tölvan er einnig frekar létt (1,87 kg.) og hentar því vel í skólann. Lyklaborðið er öðruvísi og margir munu þurfa smá tíma að venjast því. Eftir smá stund var ég farinn að skrifa mjög hratt. Tvennt sem ég saknaði voru home og end takkarnir sem ég nota mikið, þeir eru orðnir mjög sjaldgæfir á tölvum með skjá minni en 15″.

Eins og allar aðrar Windows tölvur þá kemur þessi forhlaðinn með fullt af óþarfa forritum sem gera ekkert nema þyngja tölvuna. Eitt það versta er Dell Stage, sem er einhvers konar dokka sem veitir þér aðgang að öllum þessum forritum frá Dell. Þú getur einnig breytt og bætt við öðrum forritum. Það tók mig 2 mínútur að slökkva á þessu, enda er nothæf dokka innbyggð í Windows 7.

Það sem gerir Inspiron 14z frábrugðna öðrum ultrabook fartölvum er geisladrifið. Dell hefur náð að koma geisladrifi á þessa þunnu og flottu tölvu, sem er ágætt ef þú þarft þannig.

 

 

 

Niðurstaða

Flott og nothæf fartölva, sem er þægilegt að ferðast með. Innvolsið er samt gamalt og það hefur áhrif á afköst í tölvuleikjum og myndbandsspilun. Þessi tölva fær samt mörg stig fyrir að vera með 128 SSD harða disk. SSD diskar gera lífið svo mikið betra (og hraðvirkara). Tölvan er snögg að kveikja á sér og kveikja á forritum.  Tölvan kostar 180 þúsund hjá Advania og Hátækni. Tölvan hentar ágætlega fyrir þá sem þurfa létta tölvu fyrir ritvinnslu, vefráp og almenna vinnslu. Fyrir 180 þúsund þá hefði ég viljað sjá öflugri örgjörva og/eða betra skjákort (jafnvel Ivy Bridge).

Kostir

  • Gott lyklaborð
  • Sterkt ytra byrði
  • 128GB SSD

Gallar

  • Lélegur skjár
  • Lág upplausn
  • Léleg skjástýring

Simon.is gefur Dell Inspiron 14z 6,5 af 10 í einkunn.