Sony Xperia Z umfjöllun: Vatnsheldur ofursími – Myndband

Nýjasta flaggskip Sony er Sony Xperia Z. Síminn er vatnsheldur, með full HD upplausn og kemur með allskonar aukahlutum. Hann er fallega hannaður, með góða myndavél og góðu íslensku viðmóti. Sony fer ótroðnar slóðir með þessum síma og nær að koma vel á óvart.

3_Xperia_Z_Group Black

Útlit

Hönnun símans er mjög stílhrein og minimalísk. Hann er fimm tommur að stærð og ferhyrningslaga með örlítið rúnuðum hornum. Hann er biksvartur fyrir utan lítið Sony merki á framhlið símans, Xperia merki á bakhliðinni og silfurlitaðan ræsihnapp á hliðinni. Sony ákvað að fara aðrar leiðir en hinir framleiðendurnir með þessum takka með því að láta hann standa út, frekar en falla inn í hliðina. Í fyrstu virðist þetta nokkuð skrítið en það venst mjög fljótt. Maður áttar sig á því að í rauninni er mjög þægilegt að hafa takkann svona útstæðan. Það er auðvelt að finna hann og þægilegt að ýta á hann. Allar raufar á símanum eru með lokum sem verður til þess að síminn er alveg svartur allan hringinn. Á hægri hliðinni er SIM-kortarauf sem er mjög aðgengileg og krefst ekki pinna eða bréfaklemmu, líkt og þarf til dæmis fyrir iPhone 4 & 5 og Nexus 4. Á þeirri hlið er einnig útstæði ræsihnappurinn, minimalískir hljóðstyrks-hnappar og hátalarinn. Staðsetning hátalarans er mjög áhugaverð og kemur nokkuð vel út. Hátalarinn kæfist ekki þegar síminn er lagður á bakhliðina líkt og gerist á Nexus 4 eða LG Optimus G. Maður á þó til að kæfa hátalarann ef maður heldur símanum á hlið, en það venst fljótt að breyta gripinu og er því ekki vandamál. Á vinstri hlið símans er tengi fyrir MicroUSB snúru, SD kortarauf og tveir pinnar fyrir dokku. Á toppi símans er svo heyrnatólatengið. Á framhliðinni er hlust á efri hluta símans ásamt myndavél, birtuskynjara og litlu tilkynningarljósi. Á bakhlið símans er myndavél með LED flassi.

6_Xperia_Z_button detail

Upplifun

Síminn er mjög hraður og keyrir allt hnökralaust. Hann er með Android 4.1.2 (uppfærsla í 4.2 er væntanleg) og er í honum öflugur 1,5 GHZ Qualcomm fjórkjarna örgjörvi og 2 GB í innra minni, sem gerir alla upplifun mjög hraða og góða. Skjárinn er með 1080×1920 díla upplausn og er einn fyrsti síminn á markaðinum með svo háa upplausn. Þetta þýðir að 441 dílar eru per tommu á skjánum, til samanburðar er iPhone 5 með 321 díla per tommu og Samsung Galaxy S3 með 306 díla per tommu. Skjárinn er ótrúlega skarpur og skilar mjög góðri mynd.  Sony er með sérstakt viðmóts-skinn á sínum símum og kemur það ágætlega út á þessum síma. Síminn kemur á íslensku og eru allar valmyndir á íslensku. Lyklaborð símans er með góðri orðabók og swipe möguleika, en það er þó ekki betra en SwiftKey.

Síminn kemur með aragrúa af Sony öppum, m.a. má nefna Walkman tónlistarapp, sérstakt Sony app fyrir albúm og kvikmyndir og svo nokkur óþarflega leiðinleg öpp eins og Music Unlimited og PlayNow. Valmöguleikinn til þess að fjarlægja þessi öpp mætti vera, þar sem að þau eru í rauninni bara fyrir. Í símanum eru svo aukahlutir eins og orkustjórnun, innbyggðar tengingar við Facebook og Twitter og allskonar sérstakar Xperia-stillingar. Sony býður upp á möguleika eins og að senda myndir og myndbönd beint yfir í sjónvarp eða tölvu í gegnum DLNA, tengingar við PlayStation tölvur, skjáspeglanir og að finna týndan síma í gegnum MyXperia.

11_PIU_3

Síminn er vel pakkaður af aukahlutum sem koma að góðum notum og eykur virði símans til muna. Flesta þessa aukahluti er hægt að stilla sérstaklega og eru þeir aldrei fyrir manni. Upplifunin á Sony kerfinu er því mjög góð og er þægilegt að þurfa ekki að ná í hin og þessi öpp til þess að geta geta t.d. fengið íslensku á lyklaborðið eða senda myndir yfir í tæki með DLNA. Með honum fylgir einnig þægileg hleðsludokka og góð heyrnatól. Dokkan er mjög einföld og tengist síminn með dokkupinnunum á hliðinni.

Myndavélin á símanum er 13 MP og tekur góðar myndir. Hún tekur þokkalegar myndir við lág birtuskilyrði, en ekkert nálægt því sem til dæmis Lumia 920 nær. Síminn styður 1080p vídeoupptöku og nær maður mjög góðum og stöðugum myndböndum með símanum.

[youtube id=”KCp_EBkcIGk” width=”600″ height=”350″]

Síminn er vatnsheldur og Sony hafa verið duglegir að leggja áherslu á það. Maður er þó hálf smeykur við að dýfa honum í vatn, það þarf að passa að allar lokur séu vel festar yfir tengin til þess að ekkert vatn fari inn í símann. Við það að setja hann í vatn hættir skjárinn að taka við snertingum. Síminn þolir dýpi að 1 metra og á að þola að vera í vatni í 30 mínútur. Þetta er því ekki hugsað til þess að maður fari með símann í sund, heldur frekar að maður þarf ekki að hafa áhyggjur af því að síminn blotni.

10_PIU_2

Lokaorð

Síminn er einn sá fyrsti á markaði með Full HD skjá og kemur það í rauninni niður á símanum. Mörg öpp eru ekki til í svo hárri upplausn og lenti ég í því að mörg öpp sem ég ætlaði að nota voru ekki til fyrir símann. Þetta mun þó sennilega ekki vera vandamál lengi því fleiri símar með svo hárri upplausn eru væntanlegir á næstunni, má þar helst nefna Samsung Galaxy S4. Sony opnaði nýlega Sony Xperia Z símann og kom honum inn í AOSP (Android Open Source Project). Þetta þýðir að ef maður vill ekki vera með Sony stýrikerfið getur maður skutlað inn hreinu Android 4.2 kerfi á símann. Fyrir mér er þetta mjög stór kostur, þar sem mér finnst best að nota hreint Android. Það er þó ekki fyrir alla, en Sony fær stórt prik í hattinn frá mér fyrir þennan stuðning. Síminn er hreint út sagt mjög góður og  mæli ég hiklaust með honum. Hann er þó nokkuð dýr, verðmiðinn á honum er 139.990 kr. (reyndar er 10 þús. króna afsláttur á honum þegar þessi grein er skrifuð). Það verður þó að hafa í huga að með símanum fylgja mjög góð heyrnatól og dokka.

Simon gefur Sony Xperia Z 4.5 af 5.0 mögulegum.

Kostir:

 • Full HD upplausn á skjá
 • Vatnsheldur
 • Gott íslenskt viðmót og lyklaborð
 • Öflugir möguleikar í stýrikerfi, t.d. stuðningur við DLNA
 • Aflæstur og hluti af AOSP
 • Góðir aukahlutir fylgja með

Gallar:

 • Frekar dýr
 • Ekki öll öpp sem styðja skjáupplausnina
 • Ekki hægt að stjórna hvaða Sony öpp eru á símanum

 

2 replies

Trackbacks & Pingbacks

 1. […] gaf út í byrjun þessa árs símann Xperia Z, sem er öflugur Android sími sem er vatns- og rykheldur. Síminn var nú nýlega uppfærður í […]

 2. […] og Nova launcher. Viðmótið kemur á íslensku en er ekki næstum því jafn vel þýtt og á Sony Xperia Z. Stundum eru hugtök og eiginleikar hálfþýddir og ekki samkvæmir sjálfum sér. Til dæmis […]

Comments are closed.