Nokia Lumia 625 – Stærstur meðal jafningja


Fyrir örfáum árum þá var munurinn á dýrustu símunum og þeim ódýari það mikill að erfitt var að mæla með síma á “mid-range” verði. Þetta hefur verið að breytast á síðustu misserum. Símar eins LG L7/L9, Galaxy Ace2 ofl. hafa breytt þessu. Nokia Lumia 625 er ódýrasti 4G síminn á markaðnum en hefur, engu að síður, 4.7″ skjá, stærri skjá en allir samkeppnisaðliar hans á svipuðu verðbili.

Hönnun
Síminn lítur vel út og er stílhreinn. Bakhliðina er hægt að fá í ýmsum litum, en hún er heilsteipt plastskel sem nær yfir allt bakið ásamt því að ná einnig yfir hliðar símans. Síminn fer vel í hendi þrátt fyrir að vera í stærra lagi. Hann hefur fjóra físíska takka: hækka, lækka, slökkva/kveikja og sérstakur takki til að smella af myndum. Takkarnir eru allir á hægri hlið símans og er staðsetning þeirra mjög góð. Síminn er ekkert sérlega léttur (159 grömm) en það getur átt þátt í því að hann virkar þéttur og vel byggður.

Skjárinn
Lumia 625 hefur ákveðna sérstöðu fyrir síma í þessu verðbili. Síminn er með 4.7″ skjá. Nokia þurfti hinsvegar að stitta sér leið til þess að ná þessu verði. Skjárinn er ekki í sama gæðaflokki og það nýjasta og besta á markaðnum. Hann er ágætur en ekki mikið meira en það. Upplausnin á honum er lág (800 x 480 dílar) en til viðmiðunar eru flestir símar með svona stóra skjái komnir með að minnsta kosti 1280×720 díla upplausn. Punktar sjást vel á skjánum.  Einnig er skjárinn þess eðlis að þegar horft er á hann aðeins frá hlið, þá er hann strax mjög dimmur. Skjárinn stendur sig ágætlega í samanburði við síma í sama verðflokki. En sökum stærðarinnar þá verða allir gallar, augljóslega, meira áberandi.

Innvols
Síminn er með 1,2 Ghz örgjörva og 512 MB í minni. Í Android síma væri slíkur vélbúnaður nær ónothæfur en Windows Phone keyrir mjög vel á eldri vélbúnaði.  Síminn er viðbragðsfljótur og er t.d. allar flettingar í stýrikerfi og vafra hrein unun. Batteríið er 2000mAh og var það að gera góða hluti. Ég náði alltaf rúmlega sólahring og stundum nær tveimur. Síminn styður einnig 4G og er hann ódýrasti 4G síminn á markaðnum.

Myndavél

Tvær myndavélar eru á símanum. Á bakhliðinni er 5 MP myndavél með flassi en 0.3 MP myndavél að framan fyrir myndsímtöl. Myndavélin á bakhliðinni er, eins og myndavélar á öllum ódýrari símum, góð í góðri birtu, léleg í slæmri birtu. Myndavélaöppin sem fylgja með eru þó mjög skemmtileg og það verður að teljast mjög stór kostur að hafa sértækan myndavélatakka sem fókusar þegar maður ýtir honum hálfa Lumia 625 (gulur)leið niður, og tekur mynd þegar honum er ýtt alla leið.

Hugbúnaður
Síminn er með Windows Phone 8 sem er nýjasta útgáfan af Windows Phone stýrikerfinu frá Microsoft. Auðvelt var að að tengja mig við þær póstþjónustur sem ég nota (Microsoft Exchange fyrir skóla og Gmail fyrir vinnu og einkalíf) og við það fékk ég sjálfkrafa bæði dagatöl og tengiliði frá þessum stöðum. Ég fann á Microsoft Store öll þau forrit (eða fína staðgengla) sem ég notaði að staðaldri á Android símanum, að Snapchat undanskildu. Verið er að smíða staðgengilsapp fyrir Snapchat sem ætti að kæta marga WP notendur.

HERE Drive (sem hét áður Ovi Maps) er hreint frábært GPS leiðsögukerfi sem fylgir frítt með símanum. Það leyfir notendum að niðurhala kortunum þannig að hægt sé að nota appið án þess að vera í sambandi við farsímakerfi sem gerir símann að frábærum ferðafélaga.
Það sem truflaði mig mest við notkun á símanum var lyklaborðið, en það er ekki til Íslenskt lyklaborð fyrir Windows Phone. Hægt er að nálgast alla stafina en til þess að fá t.d. “Þ” þarf að halda inni “T” og velja svo “Þ” en þetta tekur mun lengri tíma en að skrifa á íslenskt lyklaborð.

Niðurstaða
Síminn er mjög góður fyrir þennan pening. Hann lítur vel út og fer vel í hendi, skjárinn stór og stýrikerfið viðbragðsfljótt. Myndavélin og skjárinn (að stærðinni undanskilinni) er ekkert til að hrópa húrra fyrir en síminn kostar undir 50 þúsund krónur! Aðalókosturinn er vöntun á íslensku lyklaborði og við vonum að Microsoft geri okkur þann greiða að laga það fljótlega.
Fyrir þá sem vilja ekki eyða öllum peningunum sínum í síma og eru ekki að drífa sig þegar þeir eru að skrifa á símann sinn kemur þessi sími vel til greina og fær 4 af 5 í einkunn.

Kostir:

  • Stór skjár
  • Fer vel í hendi
  • 4G
  • Gott verð

Gallar:

  • Ekkert íslenskt lyklaborð
  • Gæði skjásins
  • Myndavélin