Star Command – Vertu Picard á spjaldtölvunni
Star Command er herkænsku leikur sem er nýlega kominn út á Android og var nýlega boðinn upp í Humble Bundle ásamt fleiri frábærum leikjum. Leikurinn svipar mjög mikið til Star Trek heimsins og fær mikið lánað þaðan.
Þú ert kafteinn um borð í geimskipi og hægt er að velja úr mörgum útlitum skipa. Þú byrjar með tómt skip og byggir það upp eins og þér hentar. Skipið tilheyrir Star Command herflota Jarðarinnar, sem er nú í hættu vegna innrásar frá Antoria. Það koma herskáir maurar sem kallast “Antorians”. Þú færð val um hvaða herbergi þú getur byggt inn í skipið, val úr vörnum og vöpnum. Manna þarf í herbergin og öðlast skipverjar reynslu hægt og rólega. Sumir verða vopnasérfræðingar, læknar, verkfræðingar eða meðlimir í brúnni. Hægt er að kaupa uppfærslur fyrir herbergin eins og aukin skaða frá vopnum og endurlífgun fyrir fallna hermenn. Svo þegar orustan hefst tekur maður þátt í mini-leikjum til að hitta óvininn með vopnum og hámarka skaða.
Leikurinn er vel hannaður og notar fallega bakgrunni sem og 8 bita hreyfimyndir. Sagan er einföld en skemmtileg og minnir mikið á Star Trek þættina The Next Generation. Svikarar, óvinveittar geimverur, vinveittar geimverur og geimverur með guða-einkenni (e. god complex). Tónlistin í leiknum er sérstaklega skemmtileg.
Þetta er þrælskemmtilegur leikur, en kannski of stuttur fyrir minn smekk. Ég straujaði reyndar í gegnum hann á nýju Nexus 7 spjaldtölvunni minni á nokkrum dögum. Leikurinn er frekar dýr miðað við aðra Android leiki og kostar $2,99 í Google Play Store. Ég fékk Star Command, ásamt Carmageddon, God of Blades og fullt af öðrum leikjum á $5 hjá Humble Bundle, sem ég mæli með að fólk fylgist með!
Star Command fær fjórar stjörnur af fimm frá Simon.is