Windows Phone 8 umfjöllun

Varla er hægt að fjalla um Windows Phone 8 (WP8) án þess að skoða aðeins um nýjustu útgáfu Microsoft af Windows stýrikerfinu, það heitir í dag Windows 8 (Win8). Microsoft ákvað að endurhanna Windows, sem er langvinsælasta stýrikerfið (vinnustöðva / desktop) á markaðnum í dag. Samkvæmt NetMarketShare er Windows með um 92% markaðshlut en að flestra mati var þetta töluverð áhætta hjá Microsoft.

Augljósasta breytingin er að Start takkinn sem er farinn með öllu og í staðinn er kominn nýr heimaskjár (hét áður Metro UI) en hann samræmir heimaskjáinn á milli Windows (PC), Windows Phone og Windows RT/PRO sem er á spjaldtölvum sem nota stýrikerfi frá Microsoft. Ég var eins og margir Windows notendur með blendnar tilfinningar til Win8 í upphafi en eftir nokkrar prufur fór það ekki á milli mála að kerfið sjálft hafði tekið miklum framförum samanborið við eldri útgáfur en það var heimaskjárinn sem stóð í mér. Þó vandist ég honum fljótt og er þetta orðinn mikilvægur þáttur af vinnuumhverfi mínu í dag.

Jákvæð reynsla mín af Win8 gerði mig áhugasaman um nýja snjallsímakerfið frá Microsoft en eftir að hafa átt eldri útgáfur af því (sem hétu Windows Mobile) þá voru væntingarnar mínar ekki miklar.

Hér er fyrsta kynningarmyndband sem ég sá um Windows Phone 8:
[youtube id=”y29tpFjWyUE” width=”600″ height=”350″]

 

Windows Phone 8 Heimaskjár

Heimaskjár

Hugsunin á bakvið nýja heimaskjáinn er eins og fyrr segir sú sama í Win8 og í WP8. Notandinn festir virka reiti (Live Tiles) á heimaskjáinn (með „pin to start“) en þetta eykur aðgengi að forritum og upplýsingum sem hann notar mest.

Reitirnir geta sýnt stöðuuppfærslur af Facebook, næsta dagbókaratriði, fréttir frá Morgunblaðinu, tengiliði og forrit svo eitthvað sé nefnt, möguleikarnir eru margir og einfalt að sníða að þörfum hvers og eins. Það sem helst einkennir nýju kerfin er að þegar þú hefur stillt heimaskjáinn þá verður umhverfið sérsniðið að þér og þínum áhugamálum. Eftir að hafa prófað þessa framsetningu á heimaskjánum þá verð ég að segja að heimaskjár Android og iOS verður óspennandi og símarnir frekar ópersónulegir, allavega eins tækin koma ný frá framleiðanda.

Eftir nokkra Android síma í röð þá veit ég vel að hægt er að breyta Android gríðarlega mikið (t.d. með widgets). Hins vegar verð ég að viðurkenna að ég er orðinn þreyttur á því að eyða töluverðum tíma í að sérsníða símann mínum þörfum. Þetta er vitanlega mjög persónubundið en eins og er þá henta virkir reitir mér mjög vel. Að sama skapi finnst mér umhverfið verða lifandi og persónulegt og þarf notandinn ekki að vera „tölvunörd“ til að stilla símann og umhverfið.

Hér sést ágætlega hvernig virkir reitir virka:
[youtube id=”ntka8LPtDLc” width=”600″ height=”350″]

Læsingarskjár (Lock Screen) er mikið endurbættur frá WP7.5. Þar er hægt að hafa myndir af símanum eða bara af handarhófi af Facebook síðu eiganda. Einnig sést klukka, dagssetning, næsta dagbókaratriði ásamt áminningum (ósvöruð símtöl eða skilaboð, tölvupóstur sem eru ólesin) en að sama skapi er hægt er að stilla hvaða upplýsingar sjást.

Öryggi

WP8 er eitt af öruggari stýrikerfum á markaðnum í dag. Það bíður uppá dulkóðun með BitLocker á öllum gögnum sem í tækinu eru (Device Encryption) en þetta hefur hingað til verið aðalsmerki BlackBerry. Almennir notendur koma þó líklega til með að læsa WP8 símanum sínum með hefðbundnu PIN (SIM). WP8 er eina platformið sem er með native Exchange Active Sync (EAS) stuðning og styður því langflestar EAS reglur, auk þess að Microsoft fylgir Apple varðandi skimun forrita sem sett eru á Windows Store (forrita markaður). Það er bara er hægt að setja upp forrit í síma sem sótt eru þaðan en í þessum markaði er hægt að kaupa forrit, leiki og tónlist. Ef sími er notaður til vinnu þá getur kerfisstjóri fyrirtækja gert sértæk forrit aðgengileg (með Company apps).

Barnahornið (Kids Corner)

Ég veit ekki með ykkur en börnin mín eru mjög dugleg að fara í símann minn þegar ég sé ekki til. Ég er einn af þeim ljónheppnu sem varð fyrir því að barnið mitt opnaði tölvupóstinn minn og náði að svara vinnupósti með einhverju bulli (sem sakaði ekki). WP8 leysir þetta með nýjung sem heitir barnahornið (e. Kids Corner). Þetta virkar þannig að þegar síminn er læstur með leyniorði, komist börnin í barnahornið en þar eru bara þau forrit sem ég ákveð og ekkert annað. Þau komast ekki í stillingar símans (breyta viðmóti, símhringingu o.s.frv.), tölvupóst, Windows Store o.s.frv. en þetta er frábær nýjung og hefur slegið í gegn á mínu heimili.

Hér er myndband sem sýnir Barnahornið vel:
[youtube id=”zCW6ZECcmJc” width=”600″ height=”350″]

Uppsetning

Ég er einn af mörgum sem notaði MSN Messenger (fyrir tíma Facebook messenger) og notaði ég þann notendaaðgang á WP8 símann. Fékk ég alla mína tengiliði af MSN í símann (einfalt er að sía frá ef notandi vill) ásamt því að ég fékk aðgang að SkyDrive reikningi mínum . SkyDrive býður uppá ókeypis 7Gb í skýjalausn frá Microsoft og lausnin virkar á svipaðan hátt og Google Drive og Dropbox. Ég setti síðan upp tvo EAS tölvupóstreikninga, tengingu við SharePoint ásamt Facebook, Twitter og Skype en þetta ferli tók um 5 mínúndur. Það tók mig síðan nokkrar mínúndur að velja litaþema og ásamt því að stilla hvaða virka reiti ég vildi hafa á heimaskjá. En í stuttu máli má segja að grunnuppsetningin sé mjög einföld og svipuð og á Android og iPhone snjallsímum.

App-markaður

Samkvæmt mörgum spekingum þá er forritaskortur stærsti ókostur við WP8 en í lok nóvember 2012 voru samt kominn rúmlega 125.000 forrit (sótt 10.12.2012)  í Windows Store. Ég er ekki endilega sammála þessum spekingum því fyrir mér er magnið ekki það sem  skiptir mestu máli heldur gæði forritanna. Þegar ég horfi til dæmis yfir kaupsögu mína í Google Play þá notaði ég (vikulega eða oftar) innan við 5% af þeim forritum sem ég hef sótt í gegnum tíðina. Þetta segir mér að þrátt fyrir að það sé gaman að hafa aðgang að mörgum forritum þá er ekkert virði í því fyrir mig sem notenda ef ég nota þau ekki.

Forrit sem ég nota reglulega og er til fyrir WP8.

 • Vafri, nota IE10 sem er innbyggður og mjög góður
 • Tölvupóstur með allri virkni sem ég hef séð annarsstaðar, innbyggt og bara virkar
 • Skype er hvergi betra en á WP8 að mínu mati (enda á Microsoft Skype)
 • Facebook er ágætt en er lakara en í Android og iPhone (en sem komið)
 • Opinbera Twitter forritið er slappt en ég nota Rowi í staðinn sem ég mæli eindregið með.
 • Foursquare fyrir WP8 er mjög flott en ég mæli með að þú skoðir 4th & Mayor líka.
 • Linkedin er með mjög gott forrit sem ég nota reglulega.
 • Veðurkort og hitastig er innbyggt og tekið af beint Foreca, nauðsyn á heimaskjá
 • Office pakkinn er innbyggður og í algerum í sérflokki
 • One Note er innbyggt og einfalt að samstilla með SkyDrive.
 • Síðan sótti ég fullt að leikjum fyrir mig og börnin eins og til dæmis: , Drag Race, Penguin, Yatzy og Angry Birds svo eitthvað sé nefnt.
 • WP8 er eins og Android og iPhone með fullt af stuðningsforritum eins og til dæmis: ESPN, FlashlightNBA, Sky Sport og The Verge.

Forrit sem ég notaði reglulega á Android og iOS en eru ekki til í WP8

 • Instagram vantar (eins og er) en ég nota Lomogram í staðinn sem vinnur myndirnar svipað og býður uppá að senda myndir inn á samfélagsmiðla. Þetta forrit er samt án samskiptahluta Instgram sem er kjarnin í því forriti að mínu mati.

Notendur geta síðan séð hvort forrit sem þeir nota á iPhone eða Android séu til á Windows Phone 8 hér á þessari heimasíðu.

App Store fyrir Apple opnaði í July 2008 og því fengið tíma til að stækka. Google Play store náði að vaxa gríðarlega hratt vegna þess að eftirlit með innsendum forritum er ekki jafn mikið samanborið við WP8 og iOS og reyndar er eftirlit ekkert að sumra mati. Ég var fyrir skömmu síðan á ráðstefnu um upplýsingaöryggi hjá Þekkingu og sá dæmi hjá sérfræðingi um forritaframleiðanda sem stofnaði nýjan notenda og sendi samdægurs inn nokkur forrit. Þessi forrit voru öll jafnstór en eini munurinn er heitið, myndir og lýsing en það er uppskrift af varhugaverðum hugbúnaði.

Stóra vandamálið er kannski ekki framboð af forritum eða gæði þeirra, heldur gróðarvon framleiðenda þeirra. Heyrst hefur að Microsoft séu að borga framleiðendum vinsællra iOS/Android forrita fyrir Windows Phone útgáfur. Það þýðir að Microsoft hefur ekki tekist að koma upp sjálfbærum markaði fyrir framleiðendur. Því munu forritin halda áfram að koma út fyrst og oft einungis á iOS/Android, nema auðvitað Microsoft borgi vinnuna og það geta þeir ekki gert til lengdar.

Innbyggð forrit (öpp)

Office pakkinn gerir notanda kleyft að vinna með Word, Excel og PowerPoint skjöl beint af SharePoint, SkyDrive eða af símanum. Hægt er að breyta þeim, senda með tölvupósti eða bara vista í skýið án þess að þurfa að kaupa auka hugbúnað. Ég hef aldrei kynnst svona góðri skjalavinnslu á snjallsíma áður, en Office pakkinn sem fylgir með (ókeypis) býr til flýtivísun í öll skjöl sem vistuð eru á síma, einnig skjöl sem hafa verið opnuð úr tölvupósti, skjöl sem eru á SkyDrive sem og skjöl sem eru á SharePoint svo eitthvað sé nefnt. Innbyggður Officepakki, One Note og PDF lesari gerir skjalavinnslu á WP8 frábæra upplyfun að mínu mati og er hún sannarlega ein sú besta sem fæst á snjallsímum nútímans.

Samvirkni á milli tölvu, SkyDrive og WP8 kom mér skemmtilega á óvart. Þegar ég fékk símann þá var ég að vinna í skjali á fartölvunni sem ég vistaði á SkyDrive, þegar ég opnaði Office í símanum þá kom skjalið sjálfkrafa fram undir nýleg skjöl og þannig gat ég með einföldu móti haldið áfram að vinna með það.

Ég prófaði líka að búa til innkaupalista í One Note sem fjölskyldan getur uppfært í rauntíma á heimatölvunni meðan ég er staddur í búðinni sem er nokkuð magnað. Ég sá einnig að myndir sem ég tók á símann hlóðust upp á SkyDrive og urðu þannig aðgengilegar í heimilistölvunni án þess að ég þyrfti eitthvað að gera.

Vafrinn í WP8 er gríðarlega góður og að mínu mati sá besti af þeim vöfrum sem fylgja með snjallsímum í dag. Chrome fyrir Android er reyndar mjög góður en ég á erfitt með að meta hvorn mér líkar betur við.

Þeir sem fá sér Nokia WP8 síma fá einnig töluvert af sérhönnuðum hugbúnaði frá Nokia. Þar ber helst að nefna Nokia Drive sem býður uppá ókeypis GPS leiðsögn með íslenskum leiðbeiningum (raddleiðbeiningum). Mjög einfallt er að sækja Íslenska kortið og virkar Nokia Drive mun betur enn núverandi lausnir í snjallsímum sem ég hef prófað. Google Navigation virkar ekki á Íslandi (þarf sjóræningjaútgáfu). Að sama skapi hefur verið kvartað yfir iMaps frá Apple ásamt því að leiðsögnin þar virkar ekki á Íslandi.

Umhverfið

Að mínu mati er umhverfið (ecosystem) í kringum WP8 mjög got. Þetta segi ég vegna þess að WP8 tæki (símar og spjaldtölvur) passa mjög vel inn í núverandi umhverfi flestra heimila. Að mínu mati er misskilningur að halda því fram að umhverfi saman standi bara af forritum því stuðningur framleiðanda, vélbúnaður, aukahlutir ásamt því hvernig búnaðurinn passar við núverandi kerfi skiptir miklu máli. Það er sem sagt heildarupplifun viðkomandi notenda án málamiðlunar eða aukahluta. Sem dæmi þá geta flest heimili þannig notað þann vélbúnað sem þeir eiga fyrir t.d. til þess að hlaða tónlist eða myndefni inn á WP8 síma eða til að taka af honum ljósmyndir sem teknir hafa verið. Hægt er að gera það í gegnum skýið (SkyDrive) eða með venjulegri USB snúru, það þarf ekki aukahugbúnað (eins og iTunes hjá Apple) eða sérstaka snúru frá framleiðanda (eins og tengið á Apple tækjum).

Fyrir lesendur sem hafa áhuga þá er hér myndband þar sem Joe Belfiore yfirmaður Windows Phone deildar Microsoft fer nokkuð ýtarlega yfir kosti WP8:
[youtube id=”SQZEkXCE_fY” width=”600″ height=”350″] 

Gallar

Windows Phone 8 er þó ekki gallalaust að okkar mati en helstu gallarnir eru eftirfarandi.

 • App-markaður minni en fyrir iPhone og Android og vantar nokkur stór forrit á Windows Phone (t.d. Instagram)
 • Ósjálfbær app-markaður
 • Ekki komið Íslenskt Qwerty lyklaborð (eru samt íslenskir stafir t.d. halda inni T til að fá Þ)
 • Vantar nánari möguleika í stillingum en þær eru mjög fátæklegar miðað við Android. Sem dæmi þá er ekki hægt að sjá upplýsingar um 3G og rafhlöðu notkun ef notandi vill sjá hvað hvert forrit er að gera.
 • Segja má að reynsla notenda af WP7 séu nokkuð blendini en tíminn mun leiða í ljós hvernig útbreiðsla WP8 verður. Ef útbreiðslan verður svipað lítil og reyndin varð á WP7 má áætla að forritamarkaðar komi ekki til með að ná App Store og Play Store að magni.

Þessir gallar er þó ekki stórvægilegir en samkvæmt Microsoft á Íslandi þá er t.d. unnið að Íslensku lyklaborð fyrir WP8 og með aðra galla þá getur Microsoft með einföldu móti sent uppfærlsur yfir loftið (OTA) sem laga vankanta á stýrikerfinu.

Niðurstaða

Simon finnst mikið til Windows Phone 8 koma og okkur þykir áhugavert að sjá nýja nálgun á viðmóti notendans sem gerir kerfis sérstakt og frábrugðið Android og iPhone að mörgu leiti. Þó svo að mig hafi ekki vantað nein forrit sem ég notaði áður þá er forritamarkaðurinn enn sem komið er með lakari úrval en samkeppnisaðilar. Úrval forrita í Windows Store hefur þó aukist gríðarlega síðustu 3-4 mánuði og má áætla að úrvalið verði bara betra með tímanum. Við hljótum að fagna endurkomu Microsoft á snjallsímamarkaðinn því það verður að teljast gott fyrir samkeppnina að fá þriðja þriðja sterka aðilann inn á þennan markað og ýtir það líklega undir þróunn á vélbúnaði sem og á hugbúnaði sem nýtist á endanum okkur notendunum.

Simon mælir með því að fólk kynni sér nýju tækin sem nú þegar eru komin til landsins en HTC 8X og Nokia Lumia 920 eru nýlega komnir í sölu og er því hægt að skoða símana í næstu símaverslun.

3 replies
 1. hacker sa ps3 4.11 says:

  I’m impressed, I must say. Rarely do I come across a blog that’s equally educative and interesting, and without a doubt,
  you’ve hit the nail on the head. The problem is something which too few men annd women are speaking intelligently about.
  I am very happy I stumbled across this during my hunt for something relating too this.

Trackbacks & Pingbacks

 1. […] hefur fjallað um Windows Phone 8 og þar fær Nokia Drive frábæra dóma hjá okkur. Sjá hér Windows Phone 8 umfjöllun og hér Nokia Lumia 920 […]

 2. […] Síminn keyrir á Windows Phone 8 (WP8), sem er nýjasta útgáfa af farsímastýrikerfi Microsoft. WP8 er mikið uppfærð útgáfa frá síðasta stýrikerfi þeirra, Windows Phone 7.5. Hér má sjá umfjöllun Simon um Windows Phone 8. […]

Comments are closed.