Sony Xperia Z1 – Vatnsheldur og hraður
Sony gaf út í byrjun þessa árs símann Xperia Z, sem er öflugur Android sími sem er vatns- og rykheldur. Síminn var nú nýlega uppfærður í Z1 sem er með aðeins betri skjá, hraðari örgjörva og mun betri myndavél. Símon fékk að prófa símann í nokkra daga og hér okkar umfjöllun.
Skjárinn
Skjárinn er aðeins bættur, en er eins og flestir aðrir Sony skjáir: góðir í myndböndum en með takmarkaðan sýnileika þegar horft er á skjáinn frá hlið. Það má reyndar alveg teljast vera kostur, ef þú vilt ekki að fólk geti fylgst með því sem þú gerir á símanum. Skjárinn er þó í stærra lagi, heilar fimm tommur, sem sumum finnst vera aðeins of stórt. Við fundum þó ekki mikið fyrir stærðinni, síminn kemst fyrir í hefðbundnum buxnavasa og allt í kring um skjáinn tekur lítið pláss. Það var mjög þægilegt að vafra á símanum og skoða myndbönd, þökk sé stærðinni. Við höfum þó heyrt af japanskri útgáfu af Z1 sem er með 4,3” skjá og næstum því sama innvolsi, sem við værum alveg til í að fá á vestræna markaði.
Hönnun
Síminn er aðeins öðruvísi en fyrirveri sinn í útliti og byggð. Hann er þykkari, en byggður úr sterku áli í þetta skiptið í stað plasts. Hann er því mun þéttari og virkar sterkbyggður. Síminn er mjög flottur í hvítum, enda allur samlita. Við höfum séð alveg heilan helling af Android viðmótum, allir framleiðendur hafa sína útgáfu byggða ofan á Android með þeirra eiginleikum og útliti. Sony og Motorola eru líklega þeir einu sem fara mjög smekklega leið og bjóða upp á einfalt og stílhreint útlit ofan á Android. Við verðum að hrósa Sony fyrir viðmótið, það ber af í samanburði við Samsung frá TouchWiz og HTC frá Sense.
Sony breytti einu sem við vorum sérstaklega ánægðir með: það þarf ekki lengur að opna flipa til að koma heyrnatólum í samband. Þeir náðu að opna herynatólatengið sem er efst á símanum og samt halda símanum vatnsheldum! Nokkuð gott afrek það. Annars þarf enn að opna flipa til að hlaða símann, skipta um microSD kort og símkort.
Xperia Z er aðeins þynnri en Z1 og hönnunin er aðeins heildstæðari. Z1 er þó örlítið þægilegri í hendi. Þetta eru þó báðir mjög fallegir símar. Sony hefur verið þekkt fyrir að setja frekar lélegt plast í ytra byrði símtækja og tókum við eftir því í kringum skjáinn á Z1.
Snapdragon 800
Snapdragon 800 örgjörvinn er upprunalega hannaður fyrir spjaldtölvur, en einhvern megin þá náðu LG og Sony að troða honum í G2 og Z1 símana (stóru rafhlöðurnar hjálpa mikið til). Þessi örgjörvi er ruddalega hraður. Þetta er fyrsti örgjörvinn sem ég hef séð koma nálægt iPhone afköstum í vöfrum og viðmóti. Apple eru þó snillingar að kóða fyrir sína eigin ARM örgjörva og það er ekki til hraðari snjalltækja-örgjörvi í dag en A7 örgjörvinn í iPhone 5S.
Myndavél
Myndavélin er svakalega uppfærð og kemur nú með 20 megadíla linsu. Síminn tekur frábærar myndir og er mjög gaman að nota myndavélatakkann á hliðinni sem aflæsir símann beint í myndatökur. Myndavélin er með mjög sniðugan hugbúnað sem tekur sjálfkrafa betri myndir (Sony kallar þetta far superior automode). Þetta er því einn af fáum símum sem við höfum séð taka góðar myndir með flassi. Svo getur myndavélin tekið einhverjar 60 myndir í einu, svona til að fanga rétta augnablikið. Myndavélin tekur skarpar myndir við venjulega birtu, það er helst lág birta sem dregur myndavélina niður, en flassið og sjálfvirka myndatakan kemur að góðum notum þar.
Rafhlaða
Z1 fékk stærri rafhlöðu sem er nú 3200 mAh. Þetta skilaði sér í mjög mikilli endingu, þrátt fyrir mikla notkun og 4G samband. Við vorum að ná yfir 20 klukkstundum með mikilli notkun. Ég prófaði t.d. skokk með Spotify, Strava og Bluetooth í gangi samhliða heilum vinnudegi og fór svo út um kvöldið án þess að hlaða. Fimm stjörnu ending.
Niðurstaða
Xperia Z1 er nokkuð dýr á Íslandi (129.990 kr. hjá Nýherja, sem er samt ódýrara en iPhone 5S), en hann er samt frábær kostur. Hann tekur mjög góðar myndir myndir, spilar vel með nýjustu línu Sony sjónvarpa (senda skjáinn yfir á sjónvarpið og sem fjarstýring), er einn hraðasti Android síminn í dag og er sneisafullur af öðrum eiginleikum (NFC, Bluetooth, vatns- og rykheldni, miracast o.fl.)
Kostir
- Frábær myndavél og myndavélarhugbúnaður
- Vatns- og rykheldur
- Mjög góð rafhlöðuending
- Styður minniskort
- Stór og góður skjár
Gallar
- Dýr sími
- Ekki besti skjárinn á flaggskipi í dag
- Erfitt að nota einhendis
Simon gefur Sony Xperia Z1 fjóra og hálfa stjörnu af fimm mögulegum.
Trackbacks & Pingbacks
[…] Nexus 7 sem Google gaf út 2012. Síminn er vatns- og rykvarinn samkvæmt IP67 staðlinum, líkt og Sony Xperia Z símarnir. Samsung leggur miklar áherslur á myndavélina sem er nú orðin 16 megadíla og hefur […]
[…] Einu aðstæðurnar sem ég myndi þora að spila leikinn væri í sundlaug með síma eins og Sony Xperia Z1. Fyrir þá sem þora er þetta örugglega mjög skemmtilegur partý leikur, en það er eins gott […]
[…] Lestu umfjöllun okkar um Sony Xperia Z1 […]
[…] Lesa umfjöllun Simon.is um Sony Xperia Z1 […]
Comments are closed.