Motorola Razr XT910 – Umfjöllun

Motorola RAZR XT910 kom í sölu hér á landi 31. janúar á þessu ári. Meðlimir Simon.is fengu að skoða og prófa eitt eintak og hér eru okkar fyrstu niðurstöður.

INNVOLS

Síminn skartar 4,3″ Super AMOLED capacitive snertiskjá sem er með 540 x 960 punkta upplausn (~256 ppi). Þetta er sama stærð og skjárinn á Samsung Galaxy S2, en með hærri upplausn og þ.a.l. fleiri punkta á hverja tommu (256 ppi vs. 217 ppi) sem gerir hann þá skarpari. Glerið er með Corning Gorilla Glass kám- og rispuvörn og er skjárinn mjög bjartur og tær. Ramminn í kringum skjáinn er heldur stór og þó að síminn sé ekki nema 7,1 mm á þykkt, og þar með þynnsti snjallsíminn á markaðnum, þá er hann frekar stór í hendi.

Á einum Simon.is fundi sóttum við sömu ljósmyndina í HD gæðum í þó nokkra síma og bárum saman. Við vorum almennt sammála um að myndin kæmi best út í Razr. Hún var alveg kristaltær og jafnframt mikil dýpt í litunum.

Rafhlaðan er venjulegt Li-lon 1780 mAh. Uppgefinn líftími í biðstöðu er allt  að 304 klukkustundir og í tali allt að 9 klukkustundir og 20 mínútur. Sem telst ekki sérlega gott miða við síma í sama stærðarflokk. Við mælum með því að nota Smart actions forritið til að lengja líftíma rafhlöðunnar. Nánar um Smart actions síðar í umfjölluninni. Til að byrja með entist síminn ekki allan daginn, sem er eðlilegt þar sem hann var nánast í stanslausri notkun. Við venjulega notkun, með Smart action í gangi, endist síminn frá morgni til kvölds og á eitthvað eftir fram á næsta dag. Þó ekki nógu mikið til að endast í tvo daga. Svo þetta er álíka og í öðrum snjallsímum í þessum verðflokki að maður þarf að hlaða símann á hverri nóttu til að vera öruggur.

Örgjörvinn er tvíkjarna 1,2 GHz Cortex-A9 sem er jafn öflugur og í Samsung Galaxy S II. Vinnsluminnið er 1 GB og er sú stærð algengust í Android símum í sama stærðaflokki í dag. Innra geymsluminni er 16 GB en síminn er með MicroSD minniskortarauf á hliðinni sem styður allt að 32 GB kort.

Myndavélin er 8 MP (3264 x 2448 punkta) með sjálfvirkum fókus, snertifókus og LED flassi. Hámarks upplausn á hreyfimyndum er 1080p og 30 rammar á sekúndu. Á framhliðinni er einnig 1,3 MP myndavél. Myndavélin er sæmileg en ekki nærri því jafn góð og á t.d. iPhone 4S. Við tókum nokkrar myndir til samanburðar og að neðan má sjá dæmi. Myndin er tekin á nákvæmlega sama stað og í sömu stefnu.

iPhone 4s til vinstri og Razr til hægri

iPhone 4s til vinstri og Razr til hægri

Myndavélin í Razr hefur miklu fleiri stillingar en í iPhone (sem hefur næstum engar). Það eru allskonar stillingar sem flestar stafrænar myndavélar bjóða upp á, til dæmis eftir því hvort þú ert að mynda landslag eða íþróttir og eftir lýsingu og svo framvegis. Samanburðarmyndirnar eru teknar á grunnstillingu beggja síma.

Það vantar tilfinnanlega myndavélatakka, þ.e. að geta smellt af með því að ýta á hækka/lækka takkana eða einhvern annan takka. Það getur verið frekar óþægilegt að hafa bara möguleika á að ýta á takka á skjánum til að smella af.

Stýrikerfi og hugbúnaður

Síminn kemur með Android OS, v2.3.5 (Gingerbread) og tilkynnt hefur verið að ICS sé væntanleg. Android skinnið sem Motorola hefur gert er ótrúlega nett og flott. Urðum við ekki varir við að síminn hökkti eða hikstaði og að fletta milli heimaskjáa og forrita er hreinn unaður.

Í símanum er sérstakur spilari sem inniheldur MotoCast sem gerir manni kleift að streyma tónlist, myndböndum eða ljósmyndum úr heimilistölvunni. Hægt er að streyma bæði yfir WiFi og 3G net hvar og hvenær sem. Eina takmörkunin er að það þarf að vera góð nettenging á báðum endum annars er hætta á biðtíma á meðan síminn sækir nægilega mikið af efninu til að geta spilað það.

Eitt af því sniðugasta sem síminn býður upp á er forrit sem heitir Smart actions og er hannað af Motorola. Forritinu eru gefnar forsendur og lagar það stillingar símans í samræmi við þær. Forsendurnar geta til dæmis tengst staðsetningu símans, þráðlausu neti, mikilli hreyfingu og hvort heyrnartól séu tengd eða ekki. Sem dæmi má nefna að þegar síminn skynjar þráðlausa netið í vinnunni eða skólanum þá slekkur hann til dæmis sjálfkrafa á hringingunni og minnkar birtuna á skjánum. Annað dæmi er að stilla símann þannig að slökkva á hringingunni eða lækka vel í henni á næturnar. Þetta forrit er býsna magnað og býður upp á mjög mikla og skemmtilega möguleika.

Þegar ég var búinn að nota símann í nokkra daga hafði hann lært hvar ég ætti heima og kom með tillögu að virkja home stillingu og kom með tillögur. Ég stillti símann þannig að heima er slökkt á 3g því ég hef þráðlaust net, síminn læsist ekki þegar slökknar á skjánum ásamt nokkrum öðrum stillingum. Þá er hann stilltur þannig að ef ég set hann ekki í hleðslu yfir nóttu þá bíður síminn með að uppfæra öpp og allskonar bakvinnslu og sparar þannig rafhlöðuna. Forsendan til að virkja stillinguna er sú að síminn er ekki í hleðslu, hann er ekki á hreyfingu og það er nótt.

Annað dæmi um þessa snilld er að segja símanum að þegar hann nemur þráðlausa netið í skólanum slekkur hann sjálfkrafa á hringingu og notar einungis titring. Þetta er ekkert ósvipað og Tasker sem við fjölluðum um fyrir nokkru síðan og má sjá hér. Þetta hefur ekki jafn mikla möguleika á stillingum en er einfaldara í notkun.

Síminn er með innbyggt GPS og A-GPS. Við prufuðum að nota símann sem leiðsögutæki til að keyra um höfuðborgarsvæðið og það er óhætt að segja að það hafi virkað vel. Síminn styðst við Google maps. Það tók mjög skamman tíma að ræsa upp kortið, finna hvar maður var staddur og slá inn hvert maður ætlaði og fá símann til að leiðbeina sér með töluverðri nákvæmni. Við svona notkun kom það sér sérstaklega vel að hafa stóran og skýran skjá.

Í upphafsskjá símans (e. lock screen) er hægt, auk þess að opna símann, að slökkva á hringingunni. Einnig er hægt að fara beint í myndavélaham. Þetta missir svolítið marks því maður þarf að aflæsa svo myndavélin virkist.

Hönnun og útlit

Hönnunin á lagi símans er sérstæð og því aðal einkenni hans. Með ótrúlega glansandi og risastórum skjá og kevlar brynju á bakinu lítur síminn út fyrir að kosta sitt sem og hann gerir. Það er ekki hægt að opna bakhliðina og er því batteríið innbyggt. Framan á skjánum er grænt/rautt LED tilkynningarljós sem ætti örugglega að gleðja þá sem hafa reynslu af BlackBerry símtækjum. Á topp hliðinni er MicroUSB tengi, MicroHDMI tengi og 3,5 mm tengi fyrir handfrjálsan búnað/heyrnatól. Á hægri hliðinni er slökkva/kveikja takki og hækka/lækka takki. Þessir takkar eru frekar smáir og reyndist stundum erfitt að hitta á þá án þess að horfa á símann. Á vinstrihliðinni er opnanlegur hleri fyrir Micro SIM og MicroSD sem hefur reynst mjög erfitt að opna.

Síminn er kemur með einhvers konar vatnsvörn sem er byggð á nanótækni, sem er nokkuð töff. Við lögðum ekki í það að leggja símann í bleyti til að prufa hvort vatnsvörnin virkaði! Miðað við það sem við höfum lesið á internetinu virkar þessi vörn bara nokkuð vel. Það er ekki víst að síminn lifi það að vera lagður í vatn í einhvern tíma. Ef hins vegar það hellist óvart yfir hann þá á hann að standa það af sér án nokkurra aukaverkana. Við kjósum að kalla þetta skvettuvörn þar til við sjáum það svart á hvítu að síminn sé vatnsheldur. Ekki það að skvettuvörn er mjög töff og getur komið sér virkilega vel.

NIÐURSTAÐA

Þegar á heildina er litið er þetta flottur og vel nothæfur sími sem virkaði ótrúlega vel á meðan prufum stóð. Gallarnir við útilið eru að hann er of stór að okkar mati. Það þarf nokkra æfingu til að stjórna símanum alveg með annarri hendinni. Þyngdarpunkturinn liggur frekar ofarlega og er hann því aðeins valtur í hendi. Ramminn í kringum skjáinn er heldur stór og er það eitt af því sem okkur finnst að framleiðendur ættu að reyna að forðast í dag. Hugbúnaðurinn og Android skinnið sem Motorola hefur gert er einstaklega nytsamlegt og fagurt. Verðið er í hærri kantinum en við gætum vel hugsað okkur eitt eintak.

KOSTIR

 • Töff og stílhreint útlit
 • 7,1 mm á þykkt
 • MotoCast
 • Skvettuvörn (vatnsvörn)
 • Smart actions
 • Sérhönnuð social widgets

GALLAR

 • Aðeins of stór
 • Fellur ekki nógu vel í hendi
 • Rafhlaða dugar ekki nógu lengi
 • Erfitt að opna hlera fyrir Micro SIM og MicroSD
 • Verðið
 • Myndavélin ekki nógu góð fyrir þennan verðflokk

EINKUNN

Við gefum Motorola Razr XT910 7,5 af 10 mögulegum í einkunn. Myndavélin dregur einkunnina niður.

 

Simon.is á fleiri miðlum