iPad mini umfjöllun: þægilegri iPad
Apple hefur loksins gefist upp og hefur loksins gefið út iPad með minni skjá. Steve Jobs heitinn hélt því lengi fram að það væri ekkert vit að framleiða spjaldtölvu sem væri minni en iPad, eða með 9,7″ skjá. Apple er með langt yfir helming markaðar í dag, en nýlega hafa Android tölvur étið á markaðshlutdeild þeirra. Amazon, Barnes & Noble of Google hafa gefið út nokkrar vinsælar minni spjaldtölvur eins og Kindle Fire, Nook Tablet og Nexus 7. Það gæti verið að þær spjaldtölvur svari ákveðinni þörf sem Apple hefur ekki verið að sinna fram að þessu.
Innvols
iPad mini er alveg eins útbúinn og iPad 2, nema með 7,85″ skjá og sömu upplausn (768 x 1024 ). Hann er því í raun með yfir tveggja ára gömlu innvolsi í þynnri og minni umgjörð. Örgjörvinn er tvíkjarna með 1 GHz tíðni, frekar öflugu skjákorti og 512 MB vinnsluminni. Hann kemur í sex útgáfum með mismunandi geymsluplássi (16/32/64GB) og með eða án farneti. Spjaldtölvan er með Bluetooth (4.0) og GPS. Flestum til vandræða þá Apple notar sitt eigið tengi og er það nýja Lightning tengið. Tengið er sniðugt því það skiptir ekki máli hvernig þú snýrð því (gott að tengja í myrkri!), en það er leiðinlegt að geta ekki notað microUSB eins og á öllum öðrum snjalltækjum.
Ég var ekki var við vandamál með afköst og keyrði tölvan öll öpp sem ég prófaði, þrátt fyrir háan aldur örgjörvans. Tölvan er mjög viðbragðsfljót og skiptir snögglega á milli appa. Það kemur þónokkuð á óvart með þessu innvolsi og glænýju iOS 6 stýrikerfi. Aldurinn mun samt stytta líftíma þessa tækis og mun það verða úrelt fyrr en iPad Retina sem er með glænýju innvolsi. Það mun samt fá uppfærslur og keyra öll algengustu forritin næstu árin.
Rafhlaða
Það er 16,3 Wh rafhlaða í iPad mini, en til samanburðar þá er 42,5 Wh rafhlaða í iPad retina (fjórða kynslóð). Tölvan þurfti ekki hleðslu á meðan ég var að fikta í henni á þessum tveimur dögum, en ég náði ekki að átta mig almennilega á endingunni eftir tvo daga í prófunum.
Mynd og hljóð
Skjárinn á iPad mini hefur verið sérstakt bitbein gagnrýnenda erlendis. Skjárinn er með lægri upplausn þegar hann er borinn saman við samkeppnina og það sést. Allur texti og myndir koma illa út þegar maður hefur prófað nýja iPad eða Nexus 7. Þær eru augljóslega kornóttar. Tölvan hentar því verr til lesturs og í vefráp. Apple hefði líka getað sett betri sjálfgefinn bakgrunn, því hann sýnir manni strax að upplausnin sé of lág. Fyrir utan skerpuna, þá er þetta frábær skjár. Litirnir eru eðlilegir og það er hægt að horfa á skjáinn frá öllum hornum.
Hátalarinn er neðst á tölvunni, sem hentar ágætlega þegar við lestur en þegar tölvunni er snúið á hlið þá er hljóðið einungis öðru megin. Þetta er svona á langflestum spjaldtölvum og er frekar óþægilegt. Einu spjaldtölvurnar sem hafa hátalara á framhliðinni eru Galaxy Tab 2 frá Samsung.
Hönnun
Tölvan er ótrúlega falleg og fer mjög vel í hendi. Hún er fáranlegt létt þrátt fyrir að vera úr áli. Þetta er fallegasta spjaldtölvan á markaðinum. Hönnunin er alveg hreint ótrúleg. Tölvan er einungis 7,2 mm á þykkt og vegur 312 g. Hún er þynnri en iPhone 5 og mun léttari en bæði Kindle Fire HD og Nexus 7. Það er mjög létt að ferðast með hana og ég fann ekki fyrir henni í fartölvutöskunni. Tölvan er líka harðbyggð og smíðuð úr áli með höggheldan Gorilla Glass skjá.
Stýrikerfið er ári og jafnvel nokkrum árum á undan samkeppninni. Það býður upp á fullt af öppum sem henta vel í leiki, nám, vinnu og til lesturs. Öll þróun á sér stað fyrst á iOS og svo á öðrum kerfum. Kerfið er þægilegt og notandavænn. Það er samt full læst og lokað fyrir minn smekk. Ég lenti í talsverðum vandamálum með skráarkerfið og finnst nokkuð slæmt að fá ekki beinan aðgang að því. Fyrirtækið sem leggur áherslu á “drag and drop” býður ekki upp á slíkt fyrir iOS tæki. Ef þú ætlar að setja þínar eigin skrár á þau tæki, þá þarf að fara í gegnum iTunes (mjög óþægilegt) eða nota Dropbox (erlent niðurhal).
Niðurstaða
Þetta er frábær spjaldtölva og iPad mini heillar mig mun meira en nokkurn tímann 9,7″ iPad. Mér finnst 10″ spjaldtölvur vera furðulega staðsettar á markaði. Þær eru of stórar og oft of þungar (iPad retina) til að nota á ferðinni eða einhendis. Þær eru of takmarkaðar til að taka við af fartölvum, nema þú sért ekkert að sinna ritvinnslu eða skrifa langlokur. Það er samt tvennt sem dregur þessa flottu tölvu niður: upplausn skjásins og lokað stýrikerfi. Verðlagning á öðru en ódýrustu útgáfunni er líka frekar há fyrir minn smekk (þú borgar 25 þúsund fyrir auka 16 GB pláss, 45 þúsund fyrir 32 GB pláss og 30 þúsund fyrir farnet).
Kostir
- Falleg og nett
- Mesta úrval appa fyrir spjaldtölvu
- Harðgerð
Gallar
- Lág upplausn
- Auka geymslupláss dýrt
- Lokað stýrikerfi
- Gamalt innvols
Simon gefur iPad mini 8,5 af 10 mögulegum í einkunn.
iPad mini fæst á Epli, , iStore og á Íslandi. Hún er ódýrust hjá Buy.is, og er þar á 5-10 þúsund krónum minna.
Samkeppnin
iPad mini keppir við þrjár vinsælar spjaldtölvur og eru þær allar seldar hér á landi: Apple iPad 2, iPad Retina og Google Nexus 7.
iPad 2 er með sama innvolsi, sama stýrikerfi en stærri skjá (9,7″) og aðeins dýrari. 16 GB útgáfan kostar 15 þúsund krónum meira hjá Epli og með farneti þá kostar hún 110 þúsund krónur, eða 20 þúsund krónum meira.
iPad Retina er með mun betra innvolsi, sama stýrikerfi en stærri og skarpari skjá (9,7″) og mun dýrari. 16 GB útgáfan kostar 30 þúsund krónum meira hjá Epli og með farneti þá kostar hún 120 þúsund krónur eða 30 þúsund krónum meira.
Google Nexus 7 er með mun betra innvolsi, Android stýrikerfi (minna þróað en iOS fyrir spjaldtölvur), skarpari en minni skjá (7″) og 10 þúsund krónum ódýrari hjá Tölvulistanum.
Persónulega þá myndi ég kaupa 16 GB Nexus 7 frekar en 16 GB iPad mini útaf verðmun, skerpu og lokuðu skráarkerfi. Stýrikerfið á iPad iOS 6 er samt mun þróaðra stýrikerfi og býður upp á mun betri úrval og gæði appa. Þeir sem eru ekki nördar eins og ég, eða eru mögulega að fara kaupa tölvuna fyrir yngstu meðlimi fjölskyldunnar ættu frekar að fá sér iPad mini.
Trackbacks & Pingbacks
[…] þá er hún á mjög góðu verði, sem er sjaldan sagt um vörur frá Apple.. Mini fær einnig glimrandi dóma frá […]
Comments are closed.