OZ appið uppfært

OZ appið hefur aldeilis verið uppfært. Það mætti segja að OZ fyrirtækið sé að fara í gegnum einhverskonar endurræsingu. OZ bauð okkur á kynningu í Safnahúsinu (sem hét áður Þjóðmenningarhúsið) þar sem þeir fóru yfir stórar breytingar.

Nýtt lógó

Einkennismerki OZ hefur tekið stórum breytingum og fór Guðjón Már gaumgæfilega yfir þær. Rauðappelsínuguli þríhyrningurinn táknar framleiðendur efnis. Guðjón kallar þetta reyndar “creators”, því honum finnst framleiðendur ekki alveg passa. Fjármálastjórinn var ekki á sama máli, sem kom skemmtilega fram á kynningunni. Græni þríhyrningurinn táknar neytendur efnis. Bláa línan táknar svo OZ þjónustuna sem brúar bilið á milli þessa tveggja. Við söknum “OZ” úr merkinu.

OZ logo

Ný stefna

Þetta segir mikið um stefnubreytingar OZ. OZ er nú mun meira fyrir framleiðendur eða þá sem vilja koma frá efni. Á örskömmum tíma er hægt að setja í loftið sjónvarpsrás, sem er algengileg hvar sem er. OZ tók dæmi í kringum gusgus hljómsveitina, þar sem þeir voru búnir að búa til efnisstöð með myndböndum þeirra ásamt myndefni í kringum tónleika þeirra. Hægt er að gerast áskrifandi mánaðarlega og styrkja sitt band um einhverja dollara á mánuði. Þetta er skemmtilegt módel og það verður gaman að sjá hvort framleiðendur komi að borði. Samkvæmt Tryggva hjá OZ þá fóru rétt undir 10 stöðvar í loftið fyrsta daginn.

Þú ferð inn á http://market.oz.com til að bæta við nýjum stöðvum.

OZ Market

Nýtt útlit

Appið hefur nú aldeilis fengið andlitslyftingu. Það er nú mun stílhreinna og fallegra. Það eru ný tákn í fellivalmyndinni/neðst, sem eru þunn og smekkleg.  Það er kominn nýr takki sem heitir “Now” sem sýnir dagskrá sem er í gangi núna. Yfirlit yfir efnið mun nettara og fallegra.

Upptakan svæfð

Stærstu fréttirnar fengu næstum enga athygli á kynningunni. OZ hefur ákveðið að leggja niður laupana og hætta berjast fyrir persónulegum upptökum í skýjum. Hægt hefur verið að taka upp þætti og myndir í gangi á OZ og vista þær í miðlægt í skýi OZ. OZ geymdi svo upptökuna í allt að tvö ár. OZ ætlaði að taka slaginn við stóru Hollywood stúdíóin, og berjast fyrir þeim rétti að eiga persónulegar upptökur sem er löglegt. Nýlega þó féll dómur um svipað mál þar sem aðili erlendis var að bjóða upp á upptökur í skýjunum. Var það dæmt ólöglegt. OZ hefur því ákveðið að fasa þessa þjónustu út á þessu ári.  Margir viðskiptavinir 365 munu eflaust sakna þessarar þjónustu.

Næst á dagskrá

Heyrst hefur að næsta uppfærsla verði risastór og verði þá farið meira í samfélagsmiðlun og deilingu á efni. Þá verður hægt að deila 6 sekúnda bút úr því sem þú ert að horfa til vina sinna og margt fleira. Við fengum aðeins að sjá beta útgáfu af því eftir kynninguna og við erum vægast sagt spenntir.

Slæm uppfærsla?

Meðlimir Símon.is sem nota OZ eru mjög ósáttir með þessar breytingar. OZ Appið var seint talið það stöðugasta á markaðnum og talsvert var af vanköntum á þjónustunni. Ef margir voru að horfa á útsendinguna (t.d. bein útsending frá íþróttum) þá átti hún það til að hökta og detta út og þegar leið á viðburðin þá varstu kominn 1-2 mínútum á eftir beinni útsendingu. En uppfærslan núna er mjög slæm. Appið er ekki langt frá því að vera ónothæft. Handahófskennt er hvort streymi virkar og ef þú ert svo vitlaus að pása það sem þú ert að horfa á getur þú lent í allskonar vandræðum að hefja spilun á ný, jafnvel að endurræsa appið. Sem dæmi má nefna spilun í iPad í “full screen”. Ef maður setur á pásu þá er ekki hægt að hefja spilun á ný, nema hætta í full screen. Airplay virkar einnig mun verr en áður. Það er flott að hugsa stórt og koma með eitthvað nýtt en greiðandi viðskiptavinir geta varla sætt sig við það að vera settir í aftursætið á meðan fyrirtækið horfir eingöngu á nýja markaði.

Svar frá OZ

Við heyrðum í honum Guðjóni Má, big boss hjá OZ, varðandi þessi vandamál sem við upplifðum. Uppfærslan sem fór út var því miður gölluð og fór OZ hratt í aðra uppfærslu til að laga gallana. Android útgáfan fékk uppfærslu á nokkrum klukkustundum, en uppfærsluferlið hjá Apple tekur aðeins lengri tíma og uppfærslan hefur enn ekki fengist samþykkt hjá Apple, nú nokkrum vikum síðar. Vandamál tengd stöðugleika eru því úr sögunni Android megin, en iOS verður uppfært strax og samþykktarferli uppfærslu er lokið.