Samsung Galaxy S6 umfjöllun

Samsung hafa verið í vandræðum með sölu á snjallsímum, eftir yfirburða stöðu lengi vel. Það er barið á þeim úr tveimur áttum. Kínasímar og risastór iPhone hafa svo sannarlega látið þá finna fyrir því. Samsung rak yfirhönnuðinn sinn fyrir ári síðan og sagðist ætla að taka allt í gegn. Förum nú yfir árangurinn hjá þeim.

Hönnun

Galaxy S6 er nýr sími: fingrafaralesi sem virkar, nýtt ytra byrði, áföst bakhlið úr gorilla gleri, álrammi allan hringinn (sem svipar til þess sem við höfum séð á iPhone 6 tækjunum). Þetta er einn snotur snjallsími. Jafnvel þó þeir fái ýmislegt lánað frá öðrum þá er þetta svo sannarlega Samsung sími.

DSC04653

Heim-takkinn fór ekkert og heldur sinni löngu lögun. Í honum er fingrafaralesi. Fram að þessum lesara hefur maður þurft að renna fingrum yfir niður yfir takkann til að afslæsa honum. Það er alveg glatað og virkar í 30% tilvika. Ég hef slökkt á þessum fídus þegar ég hef verið með Galaxy síma til prófanna, því þetta er óþolandi. Þetta hefur loksins verið lagað og nú þarf ekki að strjúka yfir takkann. Nú er nóg að leggja fingurinn upp að takkanum. Þetta svínvirkaði fyrir mig, í svona 95% tilvika. Gunnlaugur prófaði símann á móti mér og hafði ekki sömu sögu að segja og var víst nær 50-60% virkni.

DSC04614

Samsung heldur líka áfram að bjóða upp á snertitakka sitthvoru megin við heim-takkann. Mér fannst snertitakkar lengi vera kostur, en ég er orðinn mjög vanur skjátökkum (e. on screen) sem er á flestum öðrum Android símum. Þetta var í fyrsta skiptið sem mér fannst þetta vera orðið galli. Ég vil frekar stillanlega takka, sem færast eftir því hvort þú heldur á símanum lóðrétt eða lárétt. En á meðan þeir bjóða upp á heim-takka (með fingrafaralesara) þá eru þessir takkar ekkert að fara færast á skjáinn.

Síminn virkar mun þéttari og betur byggður en fyrri Galaxy S símar. Þökk sé rúnuðum álramma og höggheldu gleri að framan og aftan þá virkar þetta eins og lúxus tæki. Síminn fer vel í hendi með svona rúnuðum köntum, mun betur en kössuðu kantar síðustu ára.

DSC04692

Síminn er ótrúlega þunnur og léttur. Hann er bara 6,8 mm á þykkt. Linsan fyrir myndavélina kemur þó vel út úr bakinu, en hún er alveg í miðjunni ólíkt linsunni á iPhone 6x. Síminn vaggar því ekki við notkun þegar hann liggur á flötu.

DSC04669

Viðmót

Þetta er Akkilesarhæll Samsung: TouchWiz viðmótið. Það fór hratt upp í það að vera bólgið af ógeðslega ljótum fídusum sem enginn notaði, sem náði hápunkti í Galaxy S4. Síðan þá, þá hefur Samsung reynt að megra viðmótið niður, án þess að skera of mikið af fídusum burt. Galaxy S5 steig hænuskref, en S6 fer heilt skref í rétta átt. Þetta er fallegasta og einfaldasta viðmótið frá þeim í langan tíma, en mig grunar að megnið af því sé Lollipop að þakka. Þeir reyndar misskilja aðeins tilkynningarkassana á læsiskjánum, en annars fínt viðmót. Ekki fallegt viðmót, en sannarlega nothæft.

Skjár

Skjárinn var ekki stækkaður, en hann fékk hærri upplausn (úr FHD í  QHD 1440 x 2560) og uppfærslu. Þetta gerir skjáinn alveg magnaðann: 5,1 tommur af björtum og skörpum unaði. Þetta er besti skjár sem ég hef séð á snjallsíma. Þetta slær iPhone 6 Plus út. Þegar ég fór til baka á Xperia Z3 Compact símann minn þá grét ég næstum.

DSC04625

Skjárinn er á óþægilegu stærðarbili, það þarf eiginlega að nota tvær hendur við margar aðgerðir. Þeir sem eru með stærri hendur sleppa samt líklega við það. Síminn er mitt á milli tveggja stærstu keppnauta sinna: iPhone 6 (4,7”) og iPhone 6 plus (5,5”). Þær stærðir heilla mig mun meira í sitt hvoru lagi, en þessi 5,1” stærð. Sérstaklega ef ég fæ rafhlöðuendingu iPhone 6 plus fyrir að hækka mig um 0,4” tommur.

Myndavél

Myndavélin að aftan er með 16 megadíla flögu og getur tekið myndbönd í 2160p upplausn (í 30 rammar). Myndavélin er sjúklega hröð og tekur frábærar myndir. Ég var mjög ánægður með myndavélina. Síðast þegar ég prófaði svona góða myndavél í síma, þá var það iPhone 6 Plus.

Fremri myndavélin er með 5 megadíla flögu sem tekur fínar sjálfur. Ég notaði líka mikið hjartsláttarmælinn til að taka myndir (smella létt á hann til að taka mynd). Það er merkilega þægilegt!

Rafhlaða

Samsung minnkaði rafhlöðuna úr 2800 mAh í 2550 sem er nokkuð sérstaklegt (þeir hafa alltaf stækkað), en hlýtur að spara þeim fullt í framleiðslukostnaði. Ending rafhlöðu á þessum síma er mjög furðuleg. Ég upplifði mjög stutta endingu flesta daga, en svo komu dagar sem voru bara mjög fínir inn á milli. Ég rannsakaði málið og það voru margir að kvarta yfir svipaðri upplifun. Engin virtist samt átta sig á því hvað veldur. Gunnlaugur upplifði þetta einmitt ekki og var sáttur við endinguna.

Síminn styður hraðhleðslu og hleður sig á rétt yfir 70 mínútum, sem er mjög hratt. Mér finnst það frábær fídus, enda hleð ég flesta síma tvisvar á dag!

Samantekt

Samsung Galaxy S6 er á heildina litið einn besti Android síminn í dag. Frábær myndavél, aðlaðandi hönnun og frábær skjár. Allt í allt frábær kaup.

Simon gefur Samsung Galaxy S6 fimm stjörnur af fimm mögulegum.

 

Kostir

  • Frábær skjár
  • Frábær og hröð myndavél
  • Hraður sími
  • Nothæft viðmót

Gallar

  • Mislöng ending rafhlöðu
  • Ekki nógu þægilegur í hendi,