Víbrandi gítarstrengir myndaðir með iPhone 4
Kyle Jones er nú þekktur undir nafninu “Youtube gítarleikarinn”, þrátt fyrir að spila einungis á gítar í frístundum. Af hverju? Jú fyrir skömmu ákvað Kyle í tilraunaskyni að setja iPhone 4 símann sinn ofan í gítar og taka upp gítarleikinn. Útkoman er vægast sagt áhugaverð, eins og sjá má í meðfylgjandi myndbandi.
Líkja má þessari hreyfingu strengjanna við sjónhverfingu því upptakan sýnir alls ekki hvernig gítarstrengir hreyfast raunverulega. Ástæðuna fyrir þessari skemmtilegu hreyfingu strengjanna er að finna í CMOS myndflögunni. Hún hefur svokallað rúllandi ljósop (e. rolling shutter) sem virkar þannig að í stað þess að allur ramminn færist inn á myndflöguna á sama augnabliki, er ramminn í raun skannaður lóðrétt, lárétt eða horn í horn. Þetta veldur því að örlítil tímaskekkja myndast og úr verður það sem á ensku kallast “rolling shutter effect”, þ.e. þegar myndir eru teknar af einhverju sem hreyfist hratt og útkoman verður skrítin.