SE Xperia Arc

Umfjöllun: Sony Ericsson Xperia Arc

Xperia Arc er stór og flottur Android snjallsími frá Sony Ericsson sem kom út fyrr á árinu. Síminn er í sölu hérlendis á kringum 100 þúsund krónur. Síminn er í dýrari kantinum fyrir síma sem er byggður úr plasti. Hann er þó nokkuð fínn snjallsími með frábæra myndavél. Kíkjum á það harða fyrst.

Innvols

Síminn er nokkuð öflugur, en þó ekki tvíkjarna eins og flest “flaggskip” frá öðrum framleiðendum. Síminn er með 1 GHz örgjörva (Scorpion), Adreno 205 skjástýringu, 512 MB vinnsluminni, 320 MB geymslupláss og styður hann microSD kort (allt að 32GB). Síminn er með frábæra 8 MP myndavél með Exmor R skottækni ásamt flassi. Síminn er auðvitað útbúinn fyrir 3G, GPS, WiFi og Bluetooth. Hönnunin er mjög áhugaverð útaf bakinu, sem er sveigist inn að miðju bakinu og er hann þynnstur þar. Það er því þægilegt að halda á símanum og fer hann vel í vasa, enda bara 8,7 mm þykkur þar sem hann er þykkastur.

Takkarnir neðst eru ekkert svakalega vel staðsettir.

Skjárinn er 4,2″ stór og notar Bravia Engine tækni sem skilar sér í mjög hreinni og bjartri mynd. Það er mjög þægilegt að nota símann í mikilli birtu, en það getur verið óþægilegt að skrolla og lesa texta á honum. Skjárinn notar 480 x 854 upplausn sem er hærra en flestir símar og er með rispuvörn. Einnig fylgir með honum filma yfir öllum skjánum sem er fínt að nota fyrstu mánuðina og taka svo af þegar hún er orðin sjúskuð. Það er rosalega gott að vera með svona stóran skjá fyrir vöfrun og myndbönd.

Allur síminn er byggður úr plasti og er því ekki mjög harðgerður. Krómröndin í kringum allan símann er því mjög viðkvæm og hún fer fljótt ef síminn dettur í jörð eða gólf. Farið því varlega með þennan síma, hann er viðkvæmt lítið blóm. Bakið á símanum er búið til úr glansandi plasti sem verður ljótt með mikilli notkun. Fyrir neðan skjáinn eru þrír takkar: til baka, heim og valmynd. Valmyndartakkinn er mjög óþægilegur þar sem maður á til að ýta oft á skjáinn sjálfan í leiðinni. Takkinn til að kveikja, læsa og afslæsa símanum er óþægilega lítill og stendur ekki nógu mikið upp úr og er því erfitt að hitta á hann. Það er hinsvegar hægt að nota miðju takkann fyrir neðan skjáinn til að afslæsa skjánum, en ekki til að læsa (sem gerist þó sjálfkrafa eftir smá tíma í bið). Til viðbótar er svo sérstakur myndavélatakki, sem er gagnslaus því það er miklu þægilegra að nota skjáinn til að taka mynd.

Bakhlið Xperia Arc

 

Eitt af því sem er áhugavert við símann er HDMI mini raufin á honum, sem gerir þér kleyft að sýna myndbönd og myndir auðveldlega á sjónvörpum. Neðst á bakinu er svo hátalari sem er einn af þeim betri sem ég hef notað á snjallsíma.

Helstu fídusar

Arc síminn er mjög flottur og býður upp á eiginlega alla helstu eiginlega snjallsíma í dag, auk HDMI raufar. Myndavélin skarar framúr og nær vel nothæfum myndum í 16:9 sniði. Hann tekur upp háskerpumyndbönd sem koma vel út. Ég hafði smá áhyggjur af því að 4,2″ skjárinn væri of stór, en eftir smá notkun komst ég að því að þetta er skemmtileg stærð og síminn það þunnur að hann fer vel í vasa. Svo er þetta auðvitað mjög fallegur sími, svo lengi sem þú missir hann ekkert.

Hljóð og mynd

Eins og hefur komið fram þá er hátalarinn aftan á símanum, sem beinir hljóðinu frá manni þegar horft er á myndbönd á skjánum. Hann er þó mjög hávær og góður, og hægt er að halda þannig á honum að hljóðið heyrist vel við myndbandsáhorf.

Myndavélin er alveg frábært, með sterku og góðu flassi. Síminn notar flassið til að fókusa betur áður en hann tekur myndir, sem er ekki algengt á símum í dag. Bjartar og litríkar myndir koma af símanum. Einnig er hægt að taka upp 720p myndbönd á símann. Hugbúnaður símans býður þó upp fáa möguleika hvað varðar myndavélina, en auðvelt er að ná sér í forrit fyrir slíkt af Android Market. Hér fyrir neðan má sjá prufumynd af símanum.

Tekin í Grasagarðinu

Prufumynd af Xperia Arc tekin í Grasagarðinum

Mikilvægustu hlutirnir

Það er Android vafri á símanum sem er lítið búið að eiga við. Flash virkar þó með eindæmum illa á þessum síma og á hann til að slökkva á sér þegar fullar vefsíður með miklu Flashi eru skoðaðar.

Viðmótið er nokkuð gott, en flestar breytingar frá Sony Ericsson á viðmótinu eru slappar, en auðvelt að henda út.. Eftir að hafa losað sig við allt það rusl þá er viðmótið orðið nokkuð gott. Síminn kann íslensku og er með ágætis orðabók sem hjálpar snertiskjás-hömluðu fólki að skrifa tölvupóst og SMS eins og vindurinn.

Það er 1500 mAh rafhlaða í símanum, sem er svona standardinn í dag og eru flestir snjallsímar með slíka rafhlöðu. Þrátt fyrir lítinn skjá, þá fannst mér endingin ekkert sérstök miðað við aðra snjallsíma sem ég hef notað.  Ég var orðinn frekar tæpur suma dagana, og þá sérstaklega ef ég gerði eitthvað eftir vinnu. Ég var reyndar að keyra Push fyrir tvö póstforrit, foursquare og hootsuite, sem gæti haft áhrif á endinguna.

Niðurstaða

Þetta er fínn sími, en alltof dýr. Hönnunin er flott og nett, en síminn er mjög viðkvæmur og það mun sjást frekar fljótt á honum. Ég myndi hiklaust mæla með honum ef hann væri seldur á 70-80 þúsund, en hann er á 100 þúsund krónur. Myndavélin og skjárinn eru bæði alveg frábær. Flash vandamálið er óþolandi og mun síminn endurræsa sig reglulega hjá þeim skoða Flash efni á vefsíðum. Ég hef ekki prófað annan vafra, en það gæti þó leyst vandamálið. HDMI raufin er fín, en ekkert svakalega nauðsynleg.

Simon.is gefur Xperia Arc 7,0 af 10 mögulegum í einkunn.

Simon.is á fleiri miðlum