Beolit 12 – Umfjöllun


Margt hefur breyst á þeim 11 árum síðan Apple gaf fyrsta út fyrsta iPod spilarann. Flestir hlaða niður tónlist (löglega eða ólöglega) og fáir eru eftir sem nenna að burðast með geisladiska. Það sakna hans hvort eð er fáir, nema þá kannski framleiðendur geislaspilara.  Einn þeirra er danski framleiðandinn Bang & Olufsen. Þeim hefur ekki gengið nægilega vel að bregðast við samkeppninni sem Apple skapaði en fyrirtækið ætlar sér að bæta úr því. Fyrirtækið réð Tue Mantoni í forstjórastólinn í fyrra og með nýjum forstjóra komu nýjar áherslur: fagna Apple og styðja þeirra vörur eins og hægt er. Þetta sést vel í nýjustu vörunum t.d. iPod dokku, sjónvarpi með innbyggðu geymsluplássi fyrir Apple TV og svo Beolit 12, Airplay hátalara. Þessar nýju vörur eru gefnar út undir nýju undirmerki Bang & Olufsen, B&O Play. Beolit 12 er fyrsta varan sem kemur út undir þessu nýja merki.

Hönnun, frágangur og hljómgæði

 

IMG_3219-520x780

Beolit 12 er AirPlay hátalari með innbyggðri rafhlöðu. Hann virkar hvar sem er á heimilinu eða í
nágrenni þess þar sem er þráðlaust netsamband. Hægt er að senda tónlist úr iTunes (Mac/PC) eða beint í gegnum iPhone (eða önnur iOS tæki) og virkar tækið sem sent er úr þá eins og fjarstýring. Tækið er massíft og þyngra en maður gerir ráð fyrir af svo nettu tæki. En það er alls ekki slæmt heldur þvert á móti merki um að þetta er ekki einhver tóm “boom box” dós. Beolit 12 er úr vönduðum efnum og allur frágangur er til fyrirmyndar. Útlitið er í senn gamaldags en á sama tíma er hönnun og frágangur nútímalegur og passar vel á hvaða heimili sem er. En útlit og hönnun skiptir litlu máli ef hljómurinn er ekki góður. Það er hinsvegar lítið vandamál í Beolit 12 því hljómurinn er mjög skýr og góður og fyllir léttilega minni herbergi. Bassinn var þéttur án þess að vera yfirþyrmandi og hlómgæðin héldust mjög jöfn þrátt fyrir að tækið væri sett í 11. Hljómurinn var einnig furðulega góður utandyra og er vel hægt að halda flott garðpartí með því. Frágangurinn á Beolit 12 er, þar að auki, þannig að það er “skvettuhelt” og ætti að þola smá skúrir rétt á meðan þú hendir því inn. Rafhlöðuendingin var einnig mjög góð. Án þess að nota mjög vísindalegar aðferðir þá dugði tækið í rúma 5 tíma í stanslausri notkun. Á bakhliðinni er svo hólf þar sem hægt er að geyma hleðslusnúruna og “line in” snúru. Þettta er mjög þægileg og praktísk lausn. Ég tók hinsvegar eftir því að Beolit er háðara góðu neti en önnur sambærileg tæki. Tækið virkaði vel innanhús en þegar ég var kominn með það út í garð þá átti það erfitt að ná sambandi nema rétt við húsið. Á sama tíma fékk iPad inn sem ég var að prófa það með 70% þráðlaust merki. Það er vonandi að B&O geti lagað þetta með hugbúnaðaruppfærslu.

Verð og samkeppnin

Beolit 12 kostar 130.000 kr (á sumartilboði, venjulegt verð er 155.000 kr. ) og er það talsvert hærra en á ódýrustu AirPlay hátölurunm sem fást á Íslandi. Sá markaður er reyndar lítið mettur og fáar græjur sem hægt er að bera Beolit 12 saman við. Verðið er hinsvegar furðu samkeppnishæft þegar tækið er borið saman við helstu samkeppnisaðila í dýrustu iPhone dokkum. Bose Soundock 10 kostar 149.990 kr. en er þó mun stærri og kraftmeiri. Hún er hinsvegar hvorki með innbyggðri rafhlöðu né styður hún AirPlay. Sama gildir um B&W Zepplin sem kostar, þar að auki,  talsvert meira eða 179.990. Hinsvegar kaupa fáir vörur Bang & Olufsen út af verðinu eingöngu heldur gæðunum. Fyrir þá sem vilja vandaða og góða lausn og eru tilbúnir að borga fyrir það þá er vandfundinn sá hátalari sem er betri en Beolit 12. Erfitt er að meta endinguna fyrirfram en B&O er hinsvegar þekkt fyrir afbragðs endingartíma og erfitt að sjá að svo verði ekki með Beolit 12. Þar að auki er mjög ólíklegt annað en að Apple muni styðja Airplay næstu 5 – 10 árin.

Niðurstaða

Beolit 12 eru mjög vönduð hljómflutningstæki sem hafa þann kost að flakka um húsið og jafnlvel út í garð, ef þráðlaust merki er gott. Hljómgæðin eru mjög góð, bassi nægur og hljóma vel, jafnvel á hæstu styllingu. Verðið er augljóslega talsvert hærra en staðreyndin er hinsvegar sú að fáar AirPlay græjur á undir 100.000 eiga mikið í Beolit 12. Ég gef græjunni 7.6/10 í einkunn og mæli með henni fyrir þá sem kunna að meta þau gæði sem B&O hafa upp á að bjóða og vilja vandaðar græjur sem endast og eldast betur en nokkuð annað á markaðnum.

 Kostir: Góður hljómur, meðfærileg, frábær hönnun, vel smíðuð

Gallar: Dýr, þráðlaust merki lélegt

 

Simon.is á fleiri miðlum