Umfjöllun: Sony Ericsson Xperia Ray

Sony Ericsson Xperia Ray er fáranlega nettur Android snjallsími með einungis 3,3 tommu skjá. Síminn hefur nýlega verið opinberaður af Sony Ericsson ásamt bróðir sínum Active sem verður fjallað um síðar. Ray kemur út í september í hinum stóra heimi og vonandi fljótlega eftir það hér á landi. Hann kemur í fjórum litum og einn af þeim er bleikur, þannig að það gæti verið að hann eigi að höfða til kvenna. Síminn sem var skoðaður var ekki með endanlegum hugbúnaði og það á eftir að pússa hann aðeins til (t.d. laga vandamál með Flash).

Innvols

Síminn er í raun minni útgáfa af Xperia Arc sem hefur verið flaggskip Sony Ericsson núna í nokkra mánuði. Arc er reyndar með 4,2 tommu skjá en Ray er með 3,3 tommu skjá með sömu frábæru upplausninni (480 x 854 pixlar), 1GHz Snapdragon örgjörva, Adreno 205 skjástýringu  og 512 MB innra minni. Síminn er með frábæra 8 MP myndavél með Exmor R skottækni sem verður farið betur neðar í greininni. Einnig er myndavél framan á símanum fyrir myndsímtöl sem er 2 MP. Síminn er auðvitað útbúinn fyrir 3G, GPS, WiFi og Bluetooth. Hönnunin er frábær, síminn er þunnur (9,44 mm) og léttur (100 g) og fer lítið fyrir honum í buxnavasa.

Experia Ray

Fáranlega nettur sími

Helstu fídusar

Helstu kostir Ray er netta hönnunin, myndavélin og stýrikerfið. Síminn er fáranlega nettur og fer mjög lítið fyrir honum í vösum. Síminn notar Android stýrikerfið (2,3) sem er mjög gott stýrikerfi fyrir snjallsíma. Sony hefur breytt því að einhverju leiti með sínu viðmóti, en mjög lítið þó. SMS viðmót símans er reyndar frekar óþægilegt og það þarf að smella frekar oft til að senda nýtt SMS á nýjan viðtakanda. Það er þó hægt að búa til flýtileið af heimaskjá til að senda ákveðnum aðila SMS.

Hljóð og mynd

Það er fínasti hátalari aftan á símanum hjá Sony Ericsson merkinu sem heyrist vel í, en hann er jú aftan á símanum. Maður þarf að halda rétt á símanum til að geta horft á og heyrt í YouTube myndbandi. Svo er auka mic aftan á símanum fyrir myndbandsupptöku, sem er flott viðbót sem margir gleyma. Myndirnar eru ótrúlega bjartar og skemmtilegar. Myndavélin býður upp á snerti-fókus þannig nóg er að snerta þann stað sem á að ná í fókus og hún lagar sig að þeim stað.  Svo tekur síminn upp 720p háskerpu hreyfimyndir sem eru mjög flott. Með Android er mjög auðvelt að miðla efninu svo út á netið eða aðrar leiðir (dropbox). Hér fyrir neðan er prufumynd sem ég smellti af sjálfur á Þingvöllum.

Öxarárfoss við Þingvelli

Xperia Ray prufumynd

Mikilvægustu hlutirnir

Vafrinn er mjög snöggur eins og í flestum Android símum. Það er samt frekar leiðinlegt að komast upp í slóðarstikuna, sem og að leita án leitartakka sem er á flestum öðrum Android símum. Skjárinn er frekar lítill og það getur bitnað á vöfrun á stórum grafískum vefsíðum. Það hefur líka reynst erfitt að skrá sig inn á vefsíðu (innskráningar gluggar). Viðmótið er nokkuð gott, en flestar breytingar frá Sony Ericsson á viðmótinu eru slappar og þetta Timescape forrit sem fylgir með er það fyrsta sem ég henti af heimaskjánum. Eftir að hafa losað sig við allt það rusl þá er viðmótið orðið nokkuð gott. Síminn kann íslensku og er með ágætis orðabók sem hjálpar snertiskjás-hömluðu fólki að skrifa tölvupóst og SMS eins og vindurinn. Sony Ericsson og Flash virðist vera eilífðar vandamál og á síminn í miklum vandræðum með að skoða síður með miklu Flash efni. Það er 1500 mAh rafhlaða í símanum, sem er venjulegt í dag og eru flestir snjallsímar með slíka rafhlöðu. Síminn er að endast út heilan dag með mikilli notkun, en myndi sennilega ekki lifa af heilan vinnudag og svo kvöldstund úti á lífinu. Við prófanir var reyndar verið að sækja tölvupóst fyrir vinnu og af Gmail, auk þess að gera mörg þung forrit eins og Hootsuite, Foursquare og mikil vöfrun í gangi. Flestir ættu að geta fengið einn og hálfan dag út úr símanum.

Niðurstaða

Þetta er fyrsti síminn sem mig langar í síðan ég fékk mér HTC Desire síðasta sumar. Stærð allra þessa snjallasíma hefur talsvert pirrað mig í gegnum tíðina. Margar buxur sem ég geng reglulega í eru komnar með sjáanlegt far eftir stærri og þykkari síma. Það fer lítið sem ekkert fyrir Xperia Ray og hann gerir allt sem aðrir snjallsímar gera. Ég tel þessa hönnun vera mjög góða og þeir sem vilja netta síma eiga klárlega að skoða þennan síma vel. Síminn ætti að vera á 65-80 þús. krónur þegar hann kemur hingað, sem er þá mjög gott verð fyrir svona síma. Það verða jú fullt af einhverjum 4-4,3 tommu tveggja kjarna símum í tísku þá, þannig að þessi sími verður skemmtileg breyting frá öllum hinum sterasímunum. Það var samt alveg nokkrum sinnum sem mig langaði í 0,1-0,2 tommur í viðbót fyrir skjáinn, til þess að geta vafrað auðveldlega.

Simon.is gefur þessum síma 7,5 af 10 mögulegum í einkunn.

Simon.is á fleiri miðlum