Síminn sem hefur það allt – Superbee Goophone 4GS

Android, iPhone eða Windows Phone, það er stóra spurningin. Sú áralanga spurning hefur valdið mörgum lesendum okkar svefnlausum nóttum, sambandsslitum og vinamissi. En lesendur góðir, eftir þrautlausa leit höfum við hjá Simon.is fundið lausnina á þessu mesta vandamáli fyrsta heimsins. Við kynnum til sögunnar Superbee Goophone 4GS.

Superbee Goophone 4GS er sími sem hefur þetta allt! Hann lítur út eins og iPhone 4, keyrir á Android 2.3 OG Windows Phone 6.5. Hann býður einnig upp á þann magnaða möguleika að vera með ekki eitt, heldur tvö sim kort í einu. Núna getur maður verið með síma sem lítur vel út, hefur breytileikann sem Android býður upp á, fagmennskuna sem Windows Phone hefur, hringt frítt í alla vini sína hjá Nova og haldið sig í tilboðum hinna fyrirtækjanna.

Ef þessi sími væri pylsa, þá væri hann ein með öllu. Síminn skartar svakalegum vélbúnaði: Skjárinn er 3,5″ og í lit með 800×480 pixla upplausn, myndavélin er 3MP, síminn er með 256 MB í minni og 512 MB í innra plássi (með möguleika upp í allt að X GB með því að setja SD minniskort í hann), batterísending er um 3-4 tímar í tali og 180-240 tímar í bið. Síminn styður GPS, MP3, Bluetooth og allt það helsta sem hinir dýru símarnir hafa upp á að bjóða.

Með símanum fylgja 2 rafhlöður, 1 hleðslutæki, 1 USB snúra og heyrnatól.

Síminn kostar einungis um 22 þúsund krónur og er fáanlegur víðsvegar á netinu, þó helst hjá kínverskum heildsölum, og verður vafalaust til sölu á hinum ýmsu spjallsíðum landsins eftir þessa ítarlegu umfjöllun.

Hvers vegna að eyða tugum þúsunda í síma sem styður bara eitt stýrikerfi, lítur út eins og legokubbur og getur ekki verið með tvö sim kort í einu? Ég veit að minnsta kosti fyrir mitt leiti að fara að henda Nexus S símanum mínum, fá mér tvo svona og vera hjá öllum stærstu fjarskiptafyrirtækjunum í einu!

 

 

 

 

1 reply

Trackbacks & Pingbacks

  1. […] á því að fá lögbann á nýja iPhone símann, sem verður tilkynntur 12. september næstkomandi. Simon.is hefur áður fjallað um kínverska framleiðandann, sem sérhæfir sig einna helst í að búa til Android síma sem líkjast iPhone 4, Galaxy SIII og […]

Comments are closed.