Microsoft Surface RT Umfjöllun
Microsoft Surface RT er nokkuð merkileg spjaldtölva að mörgu leiti. Þetta er fyrsta tölvan sem keyrir á Windows 8 RT sem er sérstök spjaldtölvuútgáfa af nýja Windows 8 stýrikerfinu, hannað fyrir ARM örgjörva (minni, sparneytnari en hægari örgjörvar en frá Intel). Einnig er þetta fyrsta spjaldtölvan sem Microsoft hannar og framleiðir sjálft. Ekki er hægt að neyta því að við höfum beðið eftir þessari vél með töluverðri eftirvæntingu. Andstætt við Apple sem framleiða sinn hugbúnað og vélbúnað sjálfir þá eru Microsoft helst þekktastir fyrir framleiðslu og sölu á hugbúnaði og stýrikerfum. Microsoft hefur samt lengi framleitt og selt vélbúnað og ber þar helst að nefna Xbox 360, mýs og lyklaborð.
Surface RT spjaldtölvan hefur fengið blandaðar móttökur hjá tæknitímaritum síðan hún kom út, sumir hreinlega elska vélina meðan aðrir benda á hvað vanti. Við vorum búnir að lesa mikið um Surface áður en Símon fékk vélina í hendurnar og vissum við því hversu erfitt verkefni beið okkar. Við þurftum reglulega að minna okkur á að Surface RT er spjaldtölva sem á (að okkar mati) helst að bera saman við iPad og Android en ekki hefðbundnar Windows fartölvur.
Við skiljum svo sem ágætlega þá sem lenda í því að bera Surface RT við fartölvur. Notendur hafa ekki bara aðgang að venjulegum heimaskjá sem er með flýtivísunum í forrit eins og venja er í Windows 8 heldur komast þeir einnig í hefðbundin Windows skjáborð. Þetta getur verið ruglandi, sérstaklega þar sem ekki er hægt að nota hefðbundin forrit á vélinni. Surface kemur eins og er út í tveimur útgáfum, spjaldtölva og síðan far- og spjaldtölvu blendingur (hybrid). Símon fjallar um spjaldtölvuna hér en stóri bróðir (með Windows 8 PRO) sem mun geta notað öll hefðbundin forrit (Office, Photoshop o.s.frv.) og keyrir á Intel (x86) kubbasetti með öflugum i5 örgjörva.
Áður við við hófumst handa var ákveðið að sækja allar Windows Update uppfærslur fyrir vélina enda margt sem er búið að gera fyrir Surface RT stýrikerfið síðan það kom kom á markað í Oktober 2012. Sem dæmi þá kemur vélin með Office 2013 Preview sem er síðan er uppfært með niðurhali með Windows Update ásamt uppfærslum sem laga ýmsa bögga og hraðavandamál.
Hugbúnaður og samvirkni.
Eins og í öðrum Windows 8 útgáfum þá kemur Windows 8 RT með nýjum heimaskjá og er útlit og virkni hans eins og í öðrum útgáfum, ekkert nýtt að læra á. Öll hefðbundin forrit eins og vafri, póstforrit, tengiliðir, skipuleggjari o.s.frv. fylgja með vélinni og það sem vantar uppá er aðgengilegt í gegnum Windows Store (forritamarkað Microsoft). Forritin opnar notandi með því að smella á þau á heimaskjá eða einfaldlega skrifa nafn viðkomandi forritis og þá síast önnur frá. Það er í tísku að gagnrýna Windows Store vegna þess hversu fá forrit eru þar en í dag eru rúmlega 24 þúsund sem virka á Windows 8 Pro/RT. Það má með sanni segja að úrvalið sé minna en hjá Apple og á Android markaðnum. Þetta háði okkur samt ekki og fundum við öll helstu forrit á Windows markaðnum. Surface RT getur bara notað forrit sem eru aðgengileg af Windows Store eins og er á iPad og Android. Þetta er galli að því leiti að ekki er hægt að nota venjuleg Windows forrit en að sama skapi kostur þar sem stýrikerfið er mjög öruggt og ónæmt fyrir vírusum og öðrum óværum.
Office 2013 RT (Home and Student) fylgir með Surface RT og það þýðir að Word, Excel, PowerPoint og OneNote fylgir með vélinni. Þetta er sannarlega góður pakki og er ekki mikill munur á þessum forritum samanborið við þá Office upplifun sem við erum vanir í Office 2013.
Símon skráði sig inn í Surface með Microsoft notendanda (Live ID) en þá samstilltir Surface sig við Windows notendann sem vistaður er í skýinu hjá Microsoft (á SkyDrive).
Þessu mælir Símon eindregið með á öllum Windows 8 tölvum en þetta þýðir í mjög stuttu máli:
- Þegar breytt er um skjámynd á einni tölvu þá breytist skjámyndin á öllum Windows 8 tölvum.
- Þegar búið er til Office skjal á Surface þá verður það strax aðgengilegt á öðrum tölvum.
- Vistuð þráðlaus net, netsaga, eftirlæti og aðrar Windows 8 stillingar afritast yfir á Surface.
Sumt af þessu er hægt í iPad og Android en ekki án auka hugbúnaðar (t.d. með Dropbox eða Google Drive).
Eins og á iPad og í nýjasta Android kerfinu (4.2) þá er lokað fyrir flash efni á heimasíðum með þeirri undantekningu að Microsoft heldur úti skrá yfir „öruggar síður“. Þetta þýðir að notandinn ætti að geta notað flash á heimasíðum (samþykktum) án þess að þurfa að huga að örygga viðkomandi síðu. Notendur geta bætt handvirkt við flash síðum til að geta horft á ýmsar flash útsetningar, þessi handvirki listi yfirskrifast þó við uppfærslu frá Windows Update.
Innvols
Tölvan er með fjórkjarna Tegra3 T30 1,3 GHz örgjörva, 2 GB í vinnsluminni, 32 eða 64 GB geymslupláss og 10″ ClearType háskerpuskjá (768×1366). Örgjörvinn er öflugur og nær að keyra stýrikerfið og öll forrit nær hnökralaust, vélin hoppar milli forrita hratt og vel. Við segjum nær hnökralaust þar sem við tókum stundum eftir því að forrit voru stundum smá stund að ræsa sig upp en næst þegar þau voru prófuð virkuðu þau vel. Þetta má skilgreina sem hik (lagg) í kerfinu sem ætti að vera einfallt að laga með uppfærslu.
Símon bendir lesendum á nýlegar leiðbeiningar um hvernig endurheimta megi meira pláss á Surface vélunum sem finna má hér.
Surface er með microSD rauf (styður allt að 64Gb) til að auka við geymsluplássið. Einnig er hefðbundið USB port til að tengja við flakkara, mús, lyklaborð, 3G módem eða minnislykil. Símon prófaði til dæmis að tengja 8 porta USB hub við vélina og gátum við þannig notað flakkara, minnislykil, lyklaborð, mús og prentara á sama tíma.
Hér er Youtube myndband sem sýnir tengimöguleika ágætlega
[youtube id=”Tj272UZXi70″ width=”600″ height=”350″]
Surface er einnig með HDMI mini tengi þannig að hægt er að tengja vélina við sjónvörp eða skjávarpa. Vélin er einnig með Bluetooth 4 ásamt tveimur 720p myndavélum, að framan fyrir ofan skjáinn sem hentar vel í myndsamtöl og aftaná skjánum fyrir myndatökur.
Rafhlaða
Það er 31.5 Wh rafhlaða í Surface og samkvæmt Microsoft þá má reikna með 8-9 klst endingu við eðlilega notkun. Hugtakið eðlileg notkun er sveiganlegt en þrátt fyrir töluvert mikla notkun þá lifði Surface vel af eðlilegan dag með töluverði vafri, lestri bóka og tónlistarspilun. Rafhlöðuending er á pari við sambærileg tæki sem Símon hefur prófað.
Hljóð og mynd
Þrátt fyrir að upplausnin á Surface sé minni en á t.d. iPad þá kom skjárinn ágætlega á óvart og skilaði sýnu með sóma. Þetta er 5-snertipunkta, 10,6″ ClearType HD snertiskjár með ljósnema sem stillir birtu eftir umhverfi sem sparar rafhlöðu og gerir lestur þægilegri. Ef texti eða myndir eru dregnar að (zoom-in) má sjá myndir og texta verða örlítið kornóttar, enda ekki óeðlilegt við 1366×768 (148 ppi) upplausn á 10,6″ skjá. Þó svo að upplausnin mætti vera meiri þá má samt segja að þetta sé góður skjár sem sýnir liti eðlilega og hægt er að horfa á skjáinn frá öllum hornum.
Hátalarar eru tveir og eru staðsettir efst á báðum hliðum Surface sem gefur henni ágætis stereo hljóð hvort sem hlustað er á tónlist eða bíómyndir. Þeir eru einnig hannaðir þannig að þeir varpa hljóði að notenda sem er nokkuð ólíkt mörgum spjaldtölvum sem Símon hefur prófað. Símon mælir með heyrnartólum við hlustun á tónlist þar sem hátaralar eru ekkert sérstaklega hljómmiklir en þeir leysa þó annað ágætlega.
Margmiðlun
Á heimaskjá er flýtivísun í venjulegt skjáborð (desktop) sem Windows notendur þekkja vel. Þaðan er hægt að nálgast „My Computer“ og þau drif sem eru aðgengileg þaðan. Það er því þæginlegt að þurfa ekki að finna góðan skráarstjóra til að náglast innra minnið (heitir C: drif), flakkara, USB lykilinn eða auka minniskortið.
Við gátum með einföldu móti opnað minnislykla og flakkara sem og tengst nettengjanlegum drifum á netþjónum (File Server með AD auðkennum) yfir þráðlausa netið eins og við værum staddir á venjulegri PC tölvu. Þaðan var einnig hægt að líma netdrif í skráarstjórann (map network drive) til þess að hafa einfaldara aðgengi að þeim.
Það sem kom mest á óvart var að þegar Surface RT tengdist þessum drifum var að þá var hægt að spila allar bíómyndir (nema .mkv) án auka hugbúnaðar. Það var t.d. prófuð 900Mb bíómynd yfir WiFi og hófst afspilun mjög hratt og virkaði hún algerlega fum- og hiklaust en þetta höfum við ekki áður séð í spjaldtölvu. Gerð var tilraun með sömu mynd á Android vél sem var við hendina (4.1) og tókst þetta einnig þar með aukahugbúnaði og talsverðri vinnu. Sú afspilun stoppaði reyndar reglulega (til að buffer´a) og var því alls ekki jafnánægjuleg.
Það þarf samt ekki að opna skjáborðið (desktop) til að spila efni af flakkara. Um leið og tækið er tengd þá kemur upp valmöguleiki sem spyr mig hvað notandi vilji gera, alveg eins og gerist á venjulegri PC tölvu. Varðandi .mkv skrár þá er hægt að finna forrit í Windows Store til að spila.
Hönnun
Það er erfitt að verða ekki hugfanginn af hönnun vélbúnaðarinns en vélin hefur almennt fengið mjög góða dóma þó svo að benda megi á að vélin er örlítið þykkari og þyngri en t.d. Nexus7 og nýji iPadinn. Benda má á að vélin er í álskel sem gerir vélina sterkbyggða.
Surface er með útsmellanlegum fæti (Kickstand) sem hefur ekki sést áður á spjaldtölvum. Símon hefði viljað getað stillt hallann á standinum en þetta skemmtileg viðbót sem gerir innslátt með lyklaborði mjög þæginlegan. Einnig getur þetta verið gott ef verið er að horfa á margmiðlunarefni í vélinni.
Surface RT kemur með lyklaborði sem smellur með segli við spjaldtölvuna en það er einfallt og fljótlegt að smella því á. Microsoft býður uppá tvær lyklaborðslausnir, snertilyklaborð (Touch Cover) og venjulegt lyklaborð (Type Cover) en bæði lyklaborðin smellast á vélina með þessum segli og virka síðan sem skjáhlíf þegar ekki er verið að nota vélina. Touch Cover kemur í 5 litum og hægt er að velja bleikt, ljósblátt, rautt, hvítt og svart.
Mikil vinna hefur verið lögð í þessi lyklaborð og vorum við nokkuð ánægðir með virknina og hraðann sem hægt var að ná með því. Ef vélin er stillt á Ísland þá verður tungumál lyklaborðsins á Íslensku, þá urðu séríslenskir stafir virkir eins og að um hefðbundina PC tölvu væri að ræða. Surface er einnig með venjulegt lyklaborði á skjánum (onscreen keyboard) sem verður virkt ef annað lyklaborð er ekki tengt við vélina. Ef skjályklaborð er notað þá eru íslenskir stafir aðgengilegir með því að halda inni öðrum staf: Þ er á bakvið T – Ö bakvið O – Æ bakvið A – Á bakvið A. o.s.frv.
Hér er Youtube myndband sem sýnir virkni lyklaborðsins ágætlega
[youtube id=”K-pY_CB0hLo” width=”600″ height=”350″]
Niðurstaða
Almennt má segja að Microsoft hafi með Surface RT hannað fallega, stílhreina og góða spjaldtölvu sem hægt er að nýta við létta vinnu. Helsti kostur Surface er að hún er mjög einföld í notkun og með því að samstilla vinnuskjöl með SkyDrive þá er auðvelt að nota hana sem auka vinnuvél. Símon sér fyrir sér að „venjulegir“ notendur geti notið Surface RT strax án þess að lenda í vandræðum, enda kunna flestir á Windows stýrikerfi.
Gallarnir eru samt þónokkrir og er greinilegt að Windows 8 RT er enn í þróunn. Að okkar mati þarf að laga töluvert í virkni stýrikerfisins til þess að það sé samkeppnishæft við iPad og öflugar Android vélar. Microsoft eru byrjaðir á því og hefur vélin lagast mikið frá því að hún kom fyrst til sölu, forritaúrval hefur aukist, innbyggð forrit batnað ásamt því að hraðavandamálin hafa lagast eitthvað. Að okkar mati er aðgangur að skjáborði (desktop) óþarfur í Windows 8 RT og bara til þess að rugla notendur.
Surface RT vandist strax enda mikið lagt uppúr því að hafa viðmót einfallt og höfðar kerfið til þeira fjölmörgu sem nota Windows stýrikerfi nú þegar. Símon fagnar innkomu Microsoft á spjaldtölvumarkaðinn og verður spennandi að sjá hvernig Microsoft kemur til með að ganga með Surface vélarnar á komandi mánuðum og árum.
Microsoft Surface fær 3,5 stjörnur af 5 mögulegum
Kostir
- Gott lyklaborð og kick-standur er flott nýjung
- Native EAS stuðningur á tölvupósti, dagbók og tengiliðum ásamt Office 2013 pakka
- Hefðbundið USB tengi sem gerir þér kleift að tengja Surface við venjuleg jaðartæki sem og microSD rauf.
- Hefðbundin Windows virkni og forrit sem flestir þekkja.
- Margmiðlunar afspilun góð yfir þráðlaust net eða af flakkara/minnislykli.
Gallar
- Forritamarkaður er í minni kantinum.
- Vantar GPS sem staðalbúnað og mætti bjóða uppá innbyggt 3G sem valkost.
- Standard skjáupplausn sem þarf að bæta.
- Aðgangur að skjáborði (desktop) getur ruglað notendur.
- Heldur lítið geymslupláss fyrir notendur.