Iconia A500 lóð og spjaldtölva í einum pakka
Spjaldtölvur eru frekar ný hugmynd í tölvuheiminum og Apple á heiðurinn af því að hafa framleitt fyrstu nothæfu spjaldtölvuna sem varð vinsæl meðal notenda. Í kjölfarið hefur Google gefið út Android 3.0 sem er sérstaklega gert fyrir þessa stærð af tölvu. Það hefur gert ýmsum framleiðendum kleift að hefja framleiðslu á tölvum af þessari gerð og í dag höfum við undir höndum Iconia A500frá Acer.
Tölvan kemur með Nvidia Tegra2 skjákort sem skilar af sér í flottri almennri grafíkvinnslu þá bæði í þrívídd og í tvívídd fyrir notendaviðmótið. Örgjörvi er tvíkjarna A9 Cortex frá ARM. Tölvan kemur með 1 GB í vinnsluminni og annaðhvort 16 eða 32 GB minni fyrir forrit eða önnur gögn. Stuðningur fyrir SD kort sem eru allt upp að 32GB er einnig fyrir hendi. Skjár tölvunnar er 10.1 tomma sem er fín stærð þegar verið er að lesa texta eða heimasíður, en munurinn er mikill frá því að vera að skoða síður á snjallsíma sem dæmi. Upplausn skjásins er 800 x 1280 pixlar og kemur einnig með stereo hátölurum sem skila hljóðinu bara vel frá sér miðað við stærð tölvunnar. Tölvan kemur með þráðlausu netkorti sem styður alla nýjustu staðla en einnig er hægt að fá útfærslu sem kemur með 3G-stuðningi.
Myndavélin á bakhlið er 5 MP með LED flassi, einnig er 2 MP myndavél að framan sem virkar vel með Skype myndsímtölum þegar það var prófað. Það er mini -HDMI tengi á tölvunni sem gerir þér kleift að tengja hana við tölvuskjá eða sjónvarp til að spila myndbönd eða vafra á netinu.
Tölvan kemur með Android 3.0 en Acer er búið að gefa út uppfærslu upp í útgáfu 3.1. Við uppfærsluna varð sjáanlegur munur á hversu þýtt viðmótið er en mikið var um hikst áður en uppfærslan var í boði. Acer lofar einnig meiri bótum á því í næstu uppfærslu sem er 3.2 sem mun verða í boði fyrir eigiendur Iconia A500.
Acer hefur lengi verið þekkt fyrir ódýrar tölvur með misgóð gæði, þessi spjaldtölva ber þess merki að vera vel samansett og skjárinn er með fína upplausn og skýr. Kostir Iconia A500 eru að skjárinn er fínn og hún hikar lítið en þó eitthvað í almennri vinnslu. Þrívíddarvinnsla er flott þegar leikir og forrit bjóða upp á slíkt og hef ég hvergi verið var við hnökra í þeim leikjum sem eru hvað mest krefjandi fyrir skjákortið.
Það eru miklir kostir að hafa svona spjaldtölvu fyrir vefrápið og facebook samskipti og að hafa skólabækurnar til lesturs ef boðið er upp á það. Einnig er tölvan mjög fín á endingu á hleðslu og hefur ávallt virkað allan daginn í venjulegri notkun.
Ókostir eru að tölvan er þung í hendi en hún er 790gr og maður þreytist því eftir að hafa haldið á henni í nokkurn tíma. Einnig er mikil vöntun á almennilegri kámvörn en það myndi bæta mikið í daglegri notkun á þessari tölvu.
Simon.is gefur Iconia A500 7,0 af 10 mögulegum í einkunn.