Apple Watch kemur í verslanir í apríl

Fyrir stuttu lauk Apple viðburðinum þar sem Apple kynnti ýmsar nýjungar. Þar á meðal voru Apple Watch úrin kynnt nánar, en þau höfðu áður verið kynnt að einhverju leyti. Við höfum áður sagt frá úrunum og því helsta sem um þau var vitað og við hverju mætti búast á kynningunni í dag.

Apple Watch Heartbeat

Það var í raun tvennt varðandi úrin sem flestir vildu fá svar við. Annars vegar hvað úrin koma til með að kosta og hins vegar staðfestingu á hversu lengi rafhlaðan mun endast (að auki hið augljósa; hvenær koma úrin á markað).

Tim Cook sagði á kynningunni að úrin væru hönnuð til að endast daginn og gaf upp 18 klukkustundir sem eitthvað meðaltal þar. Það er því endanlega staðfest að fólk þarf að hlaða úrið á hverri nóttu).

Apple Watch Sport

Verðin eru líka komin á hreint núna. Við vissum að ódýrasta týpan myndi kosta $349 (48.000 kr.). En önnur verð voru ekki alveg á hreinu. Þau eru eftirfarandi:

Apple Watch Sport

38mm útgáfan kostar $349 (48.000 kr.)
42mm útgáfan kostar $399 (55.000 kr.)

Apple Watch 

38mm útgáfan – $549-$1.049 (75-144.000 kr)
42mm útgáfan – $599-$1.099 (82-150.000 kr)

Apple Watch Edition

Mun kosta frá $10.000 (1,4 milljón kr.).
Dýrasta úrið mun kosta $17.000 (rúmlega 2,3 milljónir kr.)

Úrin verður hægt að forpanta þann 10. apríl en þá munu sýniseintök koma í verslanir Apple þar sem verður hægt að máta úrin og sjá mismunandi útgáfur þeirra. Sala hefst svo formlega þann 24. apríl.

Watch Apps

Við munum fljótlega birta ítarlegri grein um ýmsa möguleika sem úrin bjóða upp á. Þangað til mælum við með þessari grein þar sem við tókum saman það helsta sem sagt var um úrin fyrir kynningu og kom á daginn að mest af því sem búist var við reyndist rétt. Svo er auðvitað hægt að sjá allar upplýsingar á vefsíðu Apple.