Einn gamall og góður: Uppvakningar í fortíð, framtíð og nútíð! – Age of Zombies

Brjálaður prófessor hefur sent uppvakninga til ýmissa tímabila í sögunni til þess að eyða heiminum. Ein hetja verður að bjarga öllu frá eyðileggingu og fellur það hlutverk á ofurnaglan Barry Steakfries í leiknum Age of Zombies. Markmið leiksins er einfalt: ferðast í gegnum tímann og drepa uppvakninga áður en þeir drepa þig.

Leikurinn er nokkuð einfaldur í spilun, tveir stýripinnar birtast vinstra og hægra megin á skjánum þar sem þú ýtir þumlunum niður. Vinstri stýripinninn stjórnar hreyfingum Barry og sá hægri stjórnar í hvaða átt hann skýtur. Uppvakningar birtast víðsvegar um borðið og stefna allir í áttinna að spilaranum í þeim tilgangi að éta hann lifandi. Það eina sem þarf að gera er að skjóta þá og hreyfa sig áður en þeim tekst að rífa úr þér heilann.

Barry ferðast í gegnum 5 tímabil í mannkynssögunni: Fornöld, Egyptaland til forna, Japan á Shogun tímanum, árið 1930 og óskilgreinda framtíð. Mismunandi óvinir birtast á þessum tímabilum og má meðal annars nefna hellisbúa og T-Rex risaeðlu sem hafa orðið að uppvakningum. Ýmis vopn eru í boði í leiknum og má þá helst nefna haglabyssu, handsprengju, eldvörpu og vélbyssu.

Hönnuðir leiksins, Halfbrick, eru ekki neinir nýgræðingar þegar kemur að því að búa til frumlega og skemmtilega leiki (þeir gerðu til dæmis Fruit Ninja). Hérna hafa þeir tekið klassískt snið og gert virkilega skemmtilegan leik úr því. Húmorinn í leiknum er góður og fær mann oft til að hlæja með snilldar línum Barry Steakfries. Leikurinn tekur sig ekki of alvarlega og er hann fínasta skemmtun.

Leikurinn er í boði á Android og iOs og kostar ekki nema $0,99 eða um 123 krónur.