Skástrik – nýtt fréttatímarit kemur út á næstunni


Skástrik er nýtt íslenskt fréttatímarit sem kemur út á næstunni. Það átti raunar að koma út fyrir nokkrum vikum en Apple lenti í tölvuárás og hafa því ekki tekið á móti nýjum forritum í nokkrar vikur. Símon kíkti í heimsókn til þeirra og ræddi við ritstjóra blaðsins þá Atla Þór Fanndal og Aðalstein Kjartansson.

 

Þegar þér hentar eins og þér hentar

Tímaritið er gefið út á alla helstu miðla; netið, spjaldtölvur, snjallsíma og síðast en ekki síst þá er hægt að sækja blaðið sem hljóðbók. Fréttir og greinar eru þá lesnar af þeim sem skrifuðu fréttirnar. “Hugmyndafræðin er blaðamennska og tæknin er tól sem á að nýtast henni. Við erum ekki að gefa út Skástrik til þess eins að gefa út spjaldtölvutímarit eða til að vera fyrstir með iPad tímarit. Efnið er það sem við leggjum áherslu á. Það er það sem fólk mun á endanum borga fyrir” segir Atli Þór. Tímaritið er hinsvegar ekki eina tímaritið sem mun koma út með þessum hætti því fyrrum blaðamenn Fréttablaðsins (ásamt nokkrum öðrum) gefa út tímaritið Kjarnann á föstudaginn. 

Sitthvort viðskiptamódelið

Viðskiptamódel þessara blaða eru hinsvegar gjörólík. Kjarninn verður fríblað fjármagnað eingöngu með auglýsingum en Skástrik mun ekki innihalda neinar auglýsingar heldur eingöngu treysta á áskriftarsölu. “Auglýsingar búa til hvata sem eru smellir. Hver lesandi er svo lítils virði í krónutölum að nauðsynlegt verður að fjölga smellum gífurlega. Það segir sig sjálft að það er ekki hvati til að skrifa ítarlegar og langar greinar. Við viljum búa til það rými fyrir okkar lesendur og hámörkum virði hvers lesanda með því að gera hann að viðskiptavininum en ekki að söluvörunni” bætir Atli við.

 

Ekki skyndibiti

Aðalsteinn og Atli unnu áður saman á DV. Atli hætti þar í byrjun árs og fór strax að undirbúa útgáfu blaðsins. Aðalsteinn bættist svo í hópinn í vor. Þeir hafa báðir mikla ástríðu fyrir fjölmiðlun og tala af mikili ástræðu um blaðamennsku “Internetið er fullt af McDonalds fréttum; litlum auðmeltum fréttum sem skilja lítið eftir sig. Enginn vill borga fyrir svoleiðis. Við viljum kafa dýpra og koma með ítarlegar fréttaskýringar, við vonum að lesendur hafi áhuga á slíku” segir Atli. Aðalsteinn bætir svo við: “Það stofnar enginn tímarit eða dagblað til að verða ríkur á Íslandi. Við erum að byggja upp blað sem við myndum sjálfir vilja lesa og það sem meira er við erum að byggja upp vinnustað sem við værum til í að vinna á”.